Dagbók: janúar 2014

Föstudagur 31. 01. 14 - 31.1.2014 23:40

Ný könnun sem Maskína gerði fyrir Já! Ísland samtök ESB-aðildarsinna sýnir að meirihluti þjóðarinnar vill að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Kjósendur allra flokka eru fylgjandi slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Alls vilja 67,5%  að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, 32,5% eru því andvíg.

Könnunin var gerð dagana 10. til 20. janúar og tóku 1.078 þátt.

Þetta sýnir að verði aðildarumsóknin dregin til baka eins og stjórnarflokkarnir hljóta að gera verður ekki farið af stað að nýju án þess að það verði borið undir þjóðina. Þegar tillagan um aðildarumsókn var á döfinni hafnaði meirihluti alþingis tillögu um að bera hana undir þjóðina. Það var talið fráleitt af ESB-aðildarsinnum.

Hið einkennilega er að nú telja ESB-aðildarsinnar skoðun meirihlutans um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðnanna í samræmi við stefnu sína!

Fimmtudagur 30. 01. 14 - 30.1.2014 22:20

Dr. Richard North flutti í hádeginu í dag fyrirlestur í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, á vegum Evrópuvaktarinnar, Rannsóknaseturs um nýsköpun og hagvöxt og Alþjóðamálastofnunar HÍ. Fundurinn var vel sóttur og var Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra meðal fundarmanna.

Kjarninn í máli Norths er að ekki gefist tími til að semja um ný aðildarkjör Breta að ESB fyrir 2017. Þeir eigi að vísa til 50. gr. Lissabon-sáttmálans um úrsögn úr ESB. Mestu skipti fyrir þá að viðhalda aðild að innri markaði ESB. Það gerist með aðild að EFTA og EES-samningnum. Þróunin sé hins vegar á þann veg með hnattvæðingunni að innri markaðurinn verði varinn með alþjóðasamningnum og þá hætti EES að skipta máli. EFTA og aðildarríki EFTA hafi bein áhrif á gerð alþjóðlegra samninga gegn viðskiptahindrunum, þau standi jafnfætis ESB þar hafi aðildarríkin hins vegar ekki neinn beinan rétt. Hann hafnar þeirri skoðun að EES-ríkin séu áhrifalaus. Hann hefur ekkert á móti nánara samstarfi ESB-ríkja en vill ekki aðild Breta að því og telur víst að Bretar hafni ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Undanfarna hef ég farið með Richard North til fundar við fulltrúa ýmissa aðila auk þess sem Ingimundur Sigfússon, fyrrverandi sendiherra, aðstoðaði hann. North er þjóðkunnur bloggari í Bretlandi og hefur sagt frá komu sinni hingað eins og má sjá hér.


Miðvikudagur 29. 01. 14 - 29.1.2014 23:55

Í kvöld birtist viðtal mitt við Margréti Friðriksdóttur, skólameistara Menntaskólans í Kópavogi, á ÍNN. Hún gefur kost á sér í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna sveitarstjórnakosninganna í Kópavogi.

Björt framtíð hefur sem stjórnmálaafl leitast við að tala í gátum. Nú leiðir Guðmundur Steingrímsson, formaður flokksins, hóp þingmanna sem flytur þingsályktunartillögu um um afsökunarbeiðni og greiðslu skaðabóta til iðkenda Falun Gong. Er þar vísað til atburða þegar forseti Kína kom hingað til lands vorið 2002 og beitt var markvissum aðgerðum til að halda iðkendum Falun Gong andstæðingum forsetans í skefjum.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars að iðkun á Falun Gong „byggist ekki á persónudýrkun“ og:

„ Markmið Falun Gong er að finna innri visku og frið. Ástundun á Falun Gong felst í að rækta innri mann í samræmi við grundvallargildin sannleika, kærleika og þolinmæði. Þess má geta að stofnandi Falun Gong, Li Hongzhi, hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels.“

Oft rugla menn saman Falun Gong og qi gong. Li Hongzhi hefur sagt skilið við qi gong og ítrekað lagt áherslu á að Falun Gong sé annars eðlis. Um heim allan fjölgar iðkendum qi gong en vegur Falun Gong eykst ekki að sama skapi.

Hinn 10. maí 1999 birti bandaríska tímaritið Time viðtal við Li Hongzhi þar sem hann sagði að „mannleg siðalögmál hefðu ekki lengur gildi“ og áréttaði að Falun Gong væri annað en qi gong. Hann sagði einnig að verur frá öðrum hnöttum spilltu manninum. Hann skaut sér undan spurningum um hann sjálfan og sagði: „Ég vil ekki ræða um sjálfan mig á æðra stigi. Fólk mundi ekki skilja það.“

Að taka fram í kynningu á Falun Gong að þar sé ekki um persónudýrkun að ræða er sérkennilegt eins og flest sem kemur frá Bjartri framtíð á stjórnmálavettvangi. Vekur í sjálfu sér ekki undrun að texti á borð við þetta komi frá flokknum, hitt er skrýtið að formenn annarra stjórnmálaflokka skuli vera meðal flutningsmanna tillögunnar.

Víst er að Li Hongzhi fær aldrei friðarverðlaun Nóbels sama hve oft hann er tilnefndur.

Þriðjudagur 28. 01. 14 - 28.1.2014 19:05

Í dag kom opið bréf frá Víglundi Þorsteinssyni, lögfræðingi og fyrrv. forstjóra, til  forseta alþingis til umræðu á alþingi. Það birtist í Morgunblaðinu á dögunum og snýst um friðkaup við kröfuhafa bankanna á fyrstu mánuðum Steingríms J. Sigfússonar sem fjármálaráðherra.

Þar er lýst sama viðhorfi af hálfu stjórnvalda og birtist í Icesave-málinu á sama tíma. Skyldi ekki hið sama hafa einkennt afstöðu stjórnvalda í uppgjörsmálum bankanna undir stjórn Steingríms J.? Það tók nokkur ár að vinda ofan af vitleysunni sem þá var gerðIcesave-málinu og spillti hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Ég fjallaði um þingumræðurnar á Evrópuvaktinni eins og lesa má hér.

Ég sé enga frétt um bréf Víglundar og umræðurnar á alþingi á ruv.is og heyrði ekki heldur minnst á það í kvöldfréttunum klukkan 18.00 eða yfirlitinu um efni í Speglinum. Hvers vegna þykir þetta ekki fréttnæmt í ríkisútvarpinu?

Mánudagur 27. 01. 14 - 27.1.2014 18:50

Í gær skrifaði ég stutta hugleiðingu á Evrópuvaktina um blaðið Reykjavík vikublað og hvernig það hefur breyst undir ritstjórn Ingimars Karls Helgasonar. Má lesa þann texta hér. Ingimar Karl brást illa við þessum skrifum mínum eins og sjá má hér . Lykilsetningin hjá honum er þessi: „Það er napurt að gamall valdakall skuli senda þá kveðju á afmæli lítillar stelpu að pabbi hennar missi vinnuna.“

Þegar einn kunningja minna las þessa setningu Ingimars Karls varð honum á orði:

 „Ég held að þessi setning hljóti að fara í sögubækurnar sem (lang) besta dæmið um enska orðatiltækið ‚playing the world's saddest song on the world's smallest violin‘.“

Við þetta er í raun engu að bæta.

Hvergi hef ég nefnt annað varðandi Ingimar Karl en skrif hans á opinberum vettvangi. Ég hef aldrei vikið einu orði að honum sjálfum og því síður fjölskyldu hans. Hann kýs hins vegar að vega að mér persónulega vegna aldurs míns. Ég skil satt að segja ekki hvernig sá árafjöldi snertir þetta mál og því síður störfin sem ég hef tekið að mér. Hvað er Ingimar Karl að gefa í skyn með þessu? Að þeir sem eru á mínum aldri og með mína starfsreynslu megi ekki taka til máls á opinberum vettvangi? Að aldur minn og fyrri störf banni mér að gagnrýna ritstjórn hans á Reykjavík vikublaði?



Sunnudagur 26. 01. 14 - 26.1.2014 23:55

Borgarleikhúsið sýnir nú Hamlet eftir William Shakespeare í nýrri útgáfu Jóns Atla Jónassonar og Jóns Páls Eyjólfssonar. Nýja útgáfan gengur upp þótt sleppa hefði mátt afbökun á textanum með óþörfum innskotum úr götumáli samtímans eða á orðum sem eru á skjön við stað og stund. Stjörnuleikur Ólafs Darra Ólafssonar, að öllum öðrum leikurum ólöstuðum, gerir sýninguna eftirminnilega. Umgjörðin er góð fyrir utan herbergi sem dregið er fram eins og innskot í nútímann. Þetta er misheppnað eins og innskotinn úr nútímamáli.  Til hvers er þetta gert? Kannski er tilgangurinn að færa verkið nær áhorfendum, fara á lægra plan. Það sæmir hvorki áhorfendum né verkinu.

Sigmundur Davíðs Gunnlaugsson forsætisráðherra segir í samtali við Eyjuna í dag:

„Í áratugi hefur engin ríkisstjórn lagt til atlögu við verðtryggingu lána. Verðtryggingin var nauðsynlegt neyðarúrræði, og raunar bráðabirgðaúrræði […]

Verðtryggingin er eins og fúi í stoðum íslensks efnahags- og fjármálalífs og menn verða að vanda sig við að losna við hann, og treysta stoðirnar þannig að ekki hljótist af skaði, jafnvel þar sem síst skyldi.“

Á sínum tíma lýsti ég í bók um Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra og forvera Sigmundar Davíðs á formannsstóli í Framsóknarflokknum hvernig Ólafur vann að setningu Ólafslaganna svonefndu sem lögfestu verðtrygginguna vorið 1978. Þá var ég  skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.

Frægt var þegar Ólafur sagðist hafa samið lögin við eldhúsborðið heima hjá sér á Aragötunni. Hann stillti síðan samstarfsmönnum í stjórninni úr Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi upp við vegg og sagði þá verða að samþykkja frumvarp sitt annars liðaðist stjórnin í sundur.

Ég man ekki eftir að rætt hefði verið um Ólafslögin eða ákvæði í þeim sem bráðabirgðaúrræði en útfærsla verðtryggingarinnar hefur þróast í tímans rás þótt ekki hafi verið horfið frá henni sem úrræði og verður örugglega ekki gert að þessu sinni.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hlýtur að haga ákvörðunum sínum um þetta efni í samræmi við það sem brýnast er um þessar mundir: að afnema gjaldeyrishöftin.

 

Laugardagur 25. 01. 14 - 25.1.2014 22:40

Á SVT2 í kvöld voru sýndir tónleikar frá 2012 í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu í Luzern í Sviss þar sem Claudio Abbado stjórnaði hljómsveit og kór sem fluttu sálumessuna eftir Mozart. Dagskráin var flutt í tilefni af því að Abbado er nýlátinn. Hún sýndi hvernig sjónvarpsstjórnendur tengja dagskrá sína samtímaviðburðum og færa þá til áhorfendanna. Þetta var gert á glæsilegan hátt á besta tíma í sænsku sjónvarpsstöðinni.

Salurinn í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu í Luzern er hannaður af Arctec, sömu hljómburðar-meisturum og hönnuðu salina í Hörpu. Í myndinni í SVT2 sást vel hve Eldborg í Hörpu og salurinn í Luzern eru líkir. Mestan mun er að sjá á litnum því að í Luzern er salurinn hvítur og kuldalegri en Eldborg.

Hér hefur stundum verið minnst á skrif Stefáns Ólafssonar prófessors. Hann sneri við blaðinu þegar dró að þingkosningum 2013, sagði skilið við Samfylkinguna í skrifum sínum og hallaði sér að Framsóknarflokknum. Að kosningum loknum hélt hann í eitthvað af bitlingum sem hann hafði fengið hjá vinstri stjórninni. Í dag segir Stefán frá því á vefsíðu sinni að hann hafi hlustað á Víking Heiðar Ólafsson leika einleik í píanókonsert Brahms og hrifist. Á leiðinni úr Eldborg sagði „virðulegur Sjálfstæðismaður“ við Stefán „að nú væri gott að eiga svona hús til að hýsa slíka snilli. Ég var sammála því,“ segir Stefán en bætir síðar við:

„Menningarsnauðir frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum vildu hins vegar ekki klára bygginguna. Þeirra hugmynd var sú, að nota Hörpu sem hús fyrir skipaafgreiðslu og lager fyrir heildsala! Aðrir vildu að hún stæði ókláruð í áratugi sem minnismerki um heimsku og óhóf frjálshyggjutímans.“

Stefán þakkar síðan alfarið vinstri stjórninni fyrir að Harpa reis. Það er argasta sögufölsun.

Í desember 2008 sátu sjálfstæðismenn í stólum forsætisráðherra, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra. Hefðu þessir ráðherrar sett Hörpu til hliðar við fjárlagagerð fyrir árið 2009 hefðu framkvæmdir stöðvast. Þeir gerðu það ekki. Hanna Birna Kristjánsdóttir var borgarstjóri og stóð með Hörpu í lok árs 2008 og síðan á árinu 2009 eftir að Katrín Jakobsdóttir varð menntamálaráðherra.

Hvers vegna er prófessornum svo mikið kappsmál að fara með ósannindi um sjálfstæðismenn?

 

Föstudagur 24. 01. 14 - 24.1.2014 22:40

Hollenska ríkisstjórnin boðaði til ráðstefnu í vikunni og vildi fá ríkisstjórnir annarra ESB-landa til að samþykkja að skerða vald framkvæmdastjórnar ESB. Stjórnin vill að settar verði skýrar reglur um valdmörkin milli ríkisstjórna og framkvæmdastjórnar ESB. Krafan verði að áður en ný framkvæmdastjórn ESB tekur til starfa 1. nóvember 2014 verði henni kynntar hin nýja verkaskipting.

Eftir ráðstefnunna lýsti utanríkisráðherra Hollands bjartsýni. Stuðningsmönnum tillagna um minna vald framkvæmdastjórnar ESB fjölgar af því að ríkisstjórnir vilja bæði minnka völd Brusselmanna og ýta undir þá skoðun almennings í löndum sínum að hann sé ekki orðinn með öllu áhrifalaus.

Kosið verður til ESB-þingsins í vor. Margir óttast að áhugi kjósenda verði lítill og þeir fáu sem koma á kjörstað geri það til að velja flokka sem eru á móti evrunni og samrunaþróuninni innan ESB.

Fyrir utan þennan almenna ótta í ESB ríkjunum glíma hollenskir ráðamenn við það innan eigin lands að þar krefst sífellt stærri hópur kjósenda að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að ESB. Hollenskir ráðamenn vilja forðast þessa þjóðaratkvæðagreiðslu í lengstu lög og telja gagnrýni á framkvæmdastjórn ESB vænlegasta úrræðið til þess.

Dagskrá ríkssjónvarpsins er enn í kvöld lögð undir handboltaleik þar sem Danir kepptu. Danir  eru á sigurbraut þó er leikurinn hvorki sýndur á DR 1DR 2. Hér fór öll kvölddagskráin úr skorðum vegna handboltaleiks. Var greinilegt að stjórnendur, þátttakendur og áhorfendur í þættinum Útsvar höfðu mátt þola leiðinlaga bið eftir þættinum og náði Útsvar sér ekki á flug í kvöld – kannski var það einnig vegna leiðinlegra spurninga.

Fimmtudagur 23. 01. 14 - 23.1.2014 22:45

Norðmönnum var ekki skemmt þegar þeir kynntust svari bandaríska sendiherraefnisins í utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings þegar John McCain spurði um Framfaraflokkinn, annan norska stjórnarflokkinn. Sjá hér.   Sendiherraefnið hafði ekki hugmynd um hvað hann var að segja þegar hann tók að tala um Framfaraflokkinn og ofstæki flokksmanna.

Áður hafði John McCain saumað að sendiherraefninu fyrir Ungverjaland. Spurt hana hvort hún ætlaði að gera betur en fráfarandi sendiherra sem hafði komist upp á kant við ungversku ríkisstjórnina. Öldungadeildarþingmaðurinn spurði þau öll þrjú hvort þau höfðu komið til landanna þar sem þau yrðu sendiherrar. Aðeins konan sem er á leið til Ungverjalands hafði gert það. Öll þrjú eru þau tilnefnd af Barack Obama andstæðingi Johns McCains sem yfirgaf nefndarfundinn með þau orð á orð á vörunum að þau „ótrúlega vel hæfur hóp“.

Robert C. Barber, lögfræðingur frá Boston og sendiherrarefni á Íslandi, slapp undan  spurningahríð Johns McCains. Barber sagði í upphafsávarpi sínu að ratsjárvarnarstöðvarnar á Íslandi skiptu miklu fyrir NATO og öryggi Bandaríkjanna. Fyrir þá sem muna hvernig Bandaríkjamenn stóðu að brottförinni frá Íslandi þegar Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra taldi með öllu ónauðsynlegt að halda í ratsjárstöðvarnar er merkilegt að kynnast þessu viðhorfi sendiherraefnisins.

Hér má lesa frásögn af ávarpi Barbers.

Miðvikudagur 22. 01. 14 - 22.1.2014 22:40

Nú dregur að 110 ára afmæli stjórnarráðsins. Á þeim tíu árum sem liðin eru frá hátíðarhöldunum í Þjóðmenningarhúsinu og ríkisráðsfundinum sem Ólafur Ragnar Grímsson sat ekki vegna skíðaferðar í Ameríku hefur orðið mikil breyting á stjórnarráðinu. Illu heilli hafa verið sett ný stjórnarráðslög. Áhersla á þjónustu við borgaranna hefur minnkað í þágu stefnumótunar og þróunar.  

Embættismenn framkvæmda lög, stefnumótun og þróun eru á verksviði stjórnmálamanna. Aðstoðarmönnum og hvers kyns hjálparkokkum ráðherra hefur fjölgað. Nú fara fram umræður innan veggja stjórnarráðsins um hvernig staðið skuli við kröfu alþingis um 5% sparnað á vettvangi þess. Verður áfram lögð áhersla á að fjölga þeim sem sinna öðru í stjórnarráðinu en að afgreiða mál sem borgararnir leggja fyrir ráðuneyti?

Af eigin raun hafa fjölmargir kynnst því að afgreiðsla mála innan stjórnarráðsins getur tekið óralangan tíma. Hið sama á við um mál sem lögð eru fyrir úrskurðarnefndir. Ég þekki þess dæmi að afgreiðsla máls sem lögum samkvæmt ber að taka innan við þrjá mánuði var um 18 mánuði í úrskurðarnefnd. Nefndin notaði að lokum formreglu en lét hjá líða að taka á efnisþáttum málsins. Að því leyti veitti úrskurðurinn enga leiðbeiningu varðandi álitaefnið sem um var spurt.

Seinagangur í stjórnsýslunni veldur keðjuáhrifum um allt þjóðfélagið, rýrir traust til stjórnarráðsins og grefur trúnni á að beitt sé góðum stjórnsýsluaðferðum. Það er mikið í húfi.

Þriðjudagur 21. 01. 14 - 21.1.2014 21:50

Ástandið Kíev, höfuðborg Úkraínu versnar stig af stigi, Munu Rússar nota það sem átyllu til frekari íhlutunar? Ég fjallaði um þetta á Evrópuvaktinni eins og lesa má hér.

Mánudagur 20. 01. 14 - 20.1.2014 22:30

Löngum hefur verið látið eins og það mundi leysa allan vanda alþingismanna og auka virðingu þeirra að þeir fengju meira vald frá framkvæmdavaldinu, stjórnarráðið hefði minna um lagasetningu að segja en tíðkast hefur í þau tæpu 110 ár sem heimastjórn hefur verið í landinu. Nú reynir verulega á vegna hins aukna svigrúms þingmanna eins og fram hefur komið í umræðum um ákvörðun efnahags- og viðskiptanefndar þingsins um að hækka frískuldamark svonefnds bankaskatts í fimmtíu milljarða.

Hér er ekki ætlunin að fara í saumana á þessu máli enda eru einstakir þættir þess ekki á þann veg að auðvelt sé að átta sig á þeim þótt gagnsæi við töku ákvarðana ætti að aukast við afgreiðslu mála í þingnefnd. Kemur í ljós að enginn virðist í raun vita hvernig frískuldamarkið var ákveðið, hver átti tillöguna um 50 milljarðanna.

Nefndarmenn stjórnar og stjórnarandstöðu voru samstiga í málinu en nú lætur Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og einn nefndarmanna, eins og það hafi verið maðkur í mysunni. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarformaður, hefur orðið margsaga í málinu. Afsökun hans er sú að hann hafi haft svo margt á sinni könnu þegar unnið var að frágangi málsins í nefndinni að hann muni bara ekki hvernig ákvörðun um frískuldamarkið var tekin.

Tillögur úr stjórnarráðinu um mál sem þessi eru ekki lögð fyrir þingmenn án minnisblaðs eða greinargerðar.

 

 

Sunnudagur 19. 01. 14 - 19.1.2014 21:50

Björn Bragi Arnarson, íþróttafréttamaður ríkisútvarpsins, varð sér til skammar með óvarlegu orðbragði með vísan til nasista í frásögn af handboltaleik Íslendinga og Austurríkismanna. Hann baðst afsökunar en í Austurríki íhuga forráðamenn handboltasamtaka að leita réttar síns. Hér hefur oftar en einu sinni verið vakið máls á að grípi menn til þess í rökræðum að líkja viðmælanda sínum við nasista sé umræðunum í raun lokið.

Eru þeir sem koma fram í ríkisútvarpinu svo fávísir um söguna og tilfinningar sem tengjast henni að þeir telji sig mega láta allt flakka? Eða allt megi afsaka vegna hita leiksins og góðs árangurs íslenska liðsins? Sé svo eru austurrísku handboltasamtökin annarrar skoðunar. Það er umhugsunarefni fyrir stjórnendur ríkisútvarpsins hvernig taka skuli á málini, þetta er ekki einkamál íþróttafréttamanns heldur metnaðarmál fyrir ríkisútvarp, aðila að Eurovision.

Í Frakklandi greip ríkisstjórnin til þess ráðs á dögunum að banna Dieudonné uppistandara að fara með texta sem talinn var hafa að geyma gyðingahatur og gera lítið úr helförinni. Knattspyrnumaður sem gerði handarhreyfingu sem túlkuð var sem naistakveðja sætti miklu ámæli.

Eftir að ég skrifaði ofangreint sá ég á mbl.is  að Bjarni Guðmundsson, starfandi útvarpsstjóri RÚV, hefði sent handknattleikssamböndum Austurríkis og Íslands bréf vegna hinna ósæmilegu ummæla. Bjarni biðst afsökunar á ummælunum og segir að gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana. Í bréfinu til Austurríska handknattleikssambandsins, kemur fram að ummælin hafi verið særandi og ósmekkleg. Bjarni segir að málið sé litið afar alvarlegum augum og að það verði tekið á því á viðunandi máta. 

Spurður út í það hver þessi viðeigandi viðbrögð væru, sem nefnd eru í bréfunum, svaraði Bjarni á mbl.is: „Á fundi var farið yfir málið með viðeigandi hætti, Björn Bragi ítrekaði síðan afsökunarbeiðni sína til áhorfenda, beggja landsliða og austurríkismanna sérstaklega.“

Dugar þetta?

 

Laugardagur 18. 01. 14 - 18.1.2014 22:30

Svanur Kristjánsson prófessor hefur oft reynst haukur í horni fyrir fjölmiðlamenn og aðra sem hafa einkennilegan eða jafnvel vondan málstað að verja. Reynir Traustason, ritstjóri á DV, fær Svan sér til hjálpar í aðförinni að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Á dv.is má lesa í dag:

„Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins bera ráðherrar ábyrgð gagnvart þjóðþinginu. Að óreyndu skal því treyst að forseti Alþingis, sómamaðurinn Einar K. Guðfinnsson, sjái til þess að starf þingsins fari fram með eðlilegum hætti og þingmenn njóti starfsfriðar - ekki síst lausir við allan yfirgang ráðherra.“ Þetta segir Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, í ummælum við frétt DV um það að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafi beitt sér gegn því að rætt væri um trúnaðarbrest innanríkisráðuneytisins á Alþingi, meðal annars með því að skamma Birgittu Jónsdóttur, þingmann Pírata, fyrir að spyrja um málið og reyna að sannfæra Katrínu Jakobsdóttur, þingmann og formann Vinstri grænna, um að hætta við fyrirspurn sína.“

Það er dæmigert fyrir dylgjustjórnmálamanninn Birgittu Jónsdóttur sem slær um sig á alþjóðavettvangi með vörn fyrir uppljóstrara og aðra sem leka fréttum í fjölmiðla að kvarta undan því við Reyni Traustason að Hanna Birna hafi tekið hana á beinið. Þarna er Birgitta ekki að verja leka heldur að krefjast upplýsinga um uppljóstrara til að ná sér niðri á honum. Að ráðaherra finni að þingmanni eða hvetji hann til að beina kröftum sínum að öðru en árásum á ráðherrann er að sjálfsögðu ekki einsdæmi í þingsögunni – eða heldur Reynir Traustason það?

Orðin sem Svanur Kristjánsson lætur falla eru almennir frasar sem ekki fá neina vigt þótt hann nefni stjórnarskrána og sé með vinarhót í garð þingforseta. Menn þurfa ekki að vera prófessorar í stjórnmálafræði til að tala á þennan hátt, hitt er furðulegra að slíkur prófessor skuli ekki hafa meira til málanna að leggja úr því að hann kýs að blanda sér í aðförina að Hönnu Birnu. Þetta sýnir að hið eina sem vakir fyrir Svani er að gleðja Reyni Traustason og gera honum kleift að bæta nafni prófessorsins við rununa sem hann notar í framhaldssögunni gegn Hönnu Birnu.

Föstudagur 17. 01. 14 - 17.1.2014 23:20

Reynir Traustason, ritstjóri DV, sækir gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innaríkisráðherra og samstarfsfólki hennar af óvenjulegri hörku. Ætlar hann að gera henni ókleift að gegna embætti sínu eða beinlínis flæma hana úr því. Í þessu tilviki er haldreipi Reynis saga sem DV hefur samið með því að slíta orð og ummæli úr samhengi. Þessi romsa er endurtekin hvað eftir annað.

Þeir sem hafa fylgst með Reyni og skráð hluta af sögu hans við blaðamennsku þekkja þessi vinnubrögð. Mesta undrun vekur ef innanríkisráðherra og samstarfsmenn hennar ræða við Reyni eða aðra starfsmenn DV án þess að eiga samtölin á segulbandi. Blaðamaður sem hafði kynnst Reyni taldi ekki skynsamlegt að ræða við hann án leynilegs upptökutækis.

Hið einkennilega er að alþingismenn í stjórnarandstöðu skuli ganga erinda Reynis.

Hér má sjá viðtal mitt við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, sem sýnt var á ÍNN miðvikudaginn 15. janúar.

 


Fimmtudagur 16. 01. 14 - 16.1.2014 21:25

Í gær vakti ég máls á því í tilefni af samtali mínu við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, á ÍNN  að Hannes Pétursson skáld hefði kallað hana „rósfingraða morgungyðju“ í grein í Fréttablaðinu.

Mér lék hugur á að átta mig betur á þessari kenningu enda hljómaði hún ekki framandi. Nú má leita að öllu á netinu með aðstoð Google. Hann segir að Jón Thoroddsen tali um „rósfingraða morgungyðju“ í Pilti og stúlku eins og staðfest er í Orðabók háskólans.

Svo virðist sem í fyrsta sinn sé það Sveinbjörn Egilsson sem noti kenninguna í þýðingu sinni á Odysseifskviðu eftir Hómer á  fyrri hluti 19. aldar. Odysseifur og félagar hans eru fangar í helli risans Pólýfemusar.

Odysseifur blindar risann sem settist við hellismunnann og hugðist grípa Odysseif og félaga hans ef þeir reyndu að komast út úr hellinu en í honum voru einnig „þrifalegir sauðir, ullarmiklir, fríðir og föngulegir, þeir voru mórauðir; eg tók þrjá af þeim, og batt þá saman í kyrrþey með harðsnúnum víðitágum, sem risinn lá á, tröll það, er af engri sanngirni vissi.

Miðsauðurinn bar einn mann, en hinir tveir gengu sínum megin hvorr, og geymdu félaga minna; báru svo þrír sauðir hvern mann. Nú var þar einn hrútur, sem var langfélegastur af öllum sauðunum; eg greip ofan í bakið á þessum hrút, vatt mig undir kvið hans, hélt mér fast með báðum höndum í ullarreyfið, og hékk þar svo í bugðu þolinmóður. Þannig biðum vér, þó oss væri óhægt, þar til lýsa tók. En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós, ruddust sauðirnir út í hagann.“

Hannes Pétursson líkir Vigdísi þannig við Morgungyðjuna sem á grísku nefndist Eos en Aurora á latínu. Ekki leiðum að líkjast.

 

Miðvikudagur 15. 01. 14 - 15.1.2014 21:20

Í kvöld ræði ég við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, í þætti mínum á ÍNN, hér má sjá kynningu

Við töluðum um ríkisfjármálin en Vigdís er formaður fjárlaganefndar alþingis og sat í hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar. Hún segir að fjárlög 2013 hafi verið dæmigerð kosningafjárlög og telur að halli ársins 2013 verði 20 til 25 milljarðar króna. Hann hefði orðið miklu meiri ef ekki hefðu orðið stjórnarskipti og ábyrgir flokkar komið að stjórn ríkisfjármála. Nú verði að sjá til þess að markmiði fjárlaga 2014 verði náð með tæplega milljarðs afgangi.

Þá ræddum við Vigdís einnig um ESB-aðildarmálið en hún er formaður Heimssýnar. Hún vill að lögð verði fram tillaga um að draga ESB-aðildarumsóknina til baka þegar skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefur verið kynnt en samkvæmt samningi stofnunarinnar og utanríkisráðuneytisins átti það að vera í dag, 15. janúar. Vigdís taldi að skýrslan birtist eftir fáeina daga.

Næst verður samtal okkar sýnt á ÍNN klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun

Vigdís er skeleggur málsvari. Hannes Pétursson skáld nefnir Vigdísi „rósfingraða morgungyðju Framsóknar, Móamanna og Heimssýnarfólksins“ í grein í Fréttablaðinu þriðjudaginn 14. janúar.  

Þriðjudagur 14. 01. 14 - 14.1.2014 22:40

Frakklandsforseti hefur þann sið að efna til mikils blaðamannafundar í upphafi árs til að óska fjölmiðlamönnum árs og friðar og þakka samstarf á liðnu ári. François Hollande forseti gerði þetta í dag í glæsilegri umgjörð Elysée-hallar. Um 600 blaðamenn voru á fundinum og þar sat öll ríkisstjórnin einnig í um tvær klukkustundir og hlustaði á pólitískan leiðtoga sinn. Hann nýtur minnsta trausts allra forseta í Frakklandi síðan slíkar mælingar hófust, hefur talan 22% um vinsældir Hollandes verið nefnd síðustu daga.

Hollande kynnti nýja efnahagsstefnu með lækkun skatta á fyrirtæki og niðurskurði ríkisútgjalda um 50 milljarða evrur fram til 2017. Hann fór í fótspor François Mitterrands, eina sósíalíska forsetans á undan honum. Mitterrand ætlaði að beita sósíalískum aðferðum meira að segja þjóðnýtingu til að ná árangri á níunda áratugnum en hvarf frá því vegna stöðnunar í efnahagslífinu.

Á blaðamannafundinum var Hollande spurður hvort hann hefði gengið í lið með frjálslyndum mönnum. Hann sagðist vegar sósíal-demókrat, hann hefði verið kosinn af vinstrimönnum en hann væri raunsær.

Hollande sagðist ekki vilja ræða sambandið við sambýliskonu sína Valérie Trierweiler, einkamál ættu að ræða á einkavettvangi en málið mundi skýrast áður en kæmi að Bandaríkjaför í febrúar en þangað hefur þeim verið boðið. Trierweiler er í áfalli á sjúkrahúsi vegna frétta um ástarsamband Hollandes við leikkonuna Julie Gayet.

Mánudagur 13. 01. 14 - 13.1.2014 21:40

Viðræður Helga Seljans og Gunnars Braga Sveinssonar í Kastljósi kvöldsins báru með sér ógöngur umræðnanna um ESB-aðildarviðræðurnar á opinberum, innlendum vettvangi. Þær einkenndust af orðhengilshætti. Öllum er ljóst að ríkisstjórnin sem situr fram til 2017, sé rétt á málum hennar haldið, mun ekki beita sér fyrir framhaldi viðræðnanna. Í stað þess að ræða þá staðreynd og afleiðingar hennar reyndi Helgi Seljan að koma Gunnari Braga í vanda og rugla áhorfendur í ríminu.

Af hverju leggja fréttamenn ríkisútvarpsins sig meira fram í þessu máli en nokkru öðru við að rifja upp hvað Gunnar Bragi sagði í stjórnarandstöðu? Af hverju hafa þeir aldrei gengið á Árna Pál Árnason og spurt hann um kosningaloforð hans frá apríl 2009 um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að ESB á árinu 2011?

Þegar ekið er um þjóðvegina eftir stórhríð er augljóst að tré skapa skafla og síðan hættubletti á vegum. Vegagerðin hlýtur að huga að því að trjám sé ekki plantað svo nærri vegum að þau valdi vandræðum af þessu tagi svo að ekki sé minnst á hættuna af því að stór tré brotni og falli á vegi. Víða um lönd er það helsta hættan eftir stórviðri sem þó eru oft smámunir miðað við það sem hér verður.

 

Sunnudagur 12. 01. 14 - 12.1.2014 22:41

Hlöðver Þorsteinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Einar Farestveit í Borgartúni 28, segir á visir.is að þrátt fyrir að upplyfting hafi orðið á útliti Borgartúnsins frá þvi sem var áður með nýju skipulagi, sé gatan jafn „ópraktísk“ eða „kaótísk“ og frekast geti verið. Hún sé bæði illa hönnuð fyrir þá starfsemi sem þrífst í Borgartúni auk þess sem öryggi vegfarenda sé ekki nægilega tryggt. breytingarnar hafi fækkað bílastæðum á svæðinu en fyrir sé mikill skortur á bílastæðum.

Hlöðver segir nýja ljósastaura ekki tryggja öryggi gangandi vegfaranda nægilega og mikil hætta geti skapast þegar bílar aki yfir gangstéttir inn á bílastæði.

Hlöðver segir skort á bílastæðum í Borgartúni vera vandamál og að borgin hafi aukið þann vanda með framkvæmdunum þar sem 30 bílastæði hafi nú þegar tapast á framkvæmdunum og 20 til viðbótar muni tapast þegar framkvæmdir halda áfram í átt að Snorrabraut.

Þessi ummæli framkvæmdastjóra við Borgartún stangast á við það sem Fréttablaðið hafði eftir Bjarna Brynjólfssyni, upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar, á forsíðu sinni á dögunum að hina eina sem gerðist í Borgartúninu væri að hægja mundi á umferð bíla.

Áður hafði starfsmaður borgarinnar með skipulagsvald sagt að í Borgartúni mundi óvild borgarinnar í garð einkabílsins birtast. Það er hárrétt eins og allir geta staðfest sem eiga erindi í götuna. Þar hefur meirihluti Jóns Gnarrs og félaga reist sér „ópraktískan“ og „kaótískan“ minnisvarða gegn einkabílnum.

 

Laugardagur 11. 01. 14 - 11.1.2014 22:55

Brynjari Níelssyni alþingismanni finnst sakfelling gegn forráðamönnum Kaupþings í svonefndur Althanímáli óréttmæt. Málið hefur ekki verið til lykta leitt fyrir hæstarétti. Í grein sem Brynjar skrifar á Pressuna segir hann meðal annars:

„Í kjölfar hruns bankanna og afleiðinga þess kom fram krafa um refsiábyrgð stjórnenda bankanna.  Reiðiviðbrögð eru skiljanleg þegar einstaklingar verða fyrir tjóni og samfélagið allt. Í þessu andrúmslofti var sett á laggirnar embætti sérstaks saksóknara til þess að rannsaka hvort stjórnendur bankanna hefðu gerst brotlegir við refsilög í störfum sínum.“

Í ræðu sem ég flutti á alþingi 15. október 2008 þar sem ég kynnti smíði laga um sérstakan saksóknara sagði ég meðal annars:

„Við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að gera allt, sem skynsamlegt er, til að efla traust á þeim innviðum, sem eru meginstoðir réttarríkisins. Þá er afar mikilvægt að ekki sé hrapað að neinu eða gefa sér í anda nornaveiða, að lög hafi verið brotin.“

Frumvarp að lögum um sérstakan saksóknara var ekki flutt í því augnamiði að fara á svig við reglur um rannsókn og sönnunarbyrði. Fyrir setningu laganna hafði árum saman verið leitast við að grafa undan trausti á þeim sem sinntu rannsókn efnahagsbrota eins og lesa má um í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Þessi aðför var ekki síður gerð á pólitískum vettvangi en í réttarsalnum og fjölmiðlum. Ég taldi einfaldlega nauðsynlegt að skapa pólitíska samstöðu um þennan þátt réttarkerfisins og það tókst með því að stofna embættið um sérstakan saksóknara. Rannsóknir á hans vegum hafa orðið umfangsmiklar. Dómarar eiga síðasta orðið.

  

Laugardagur 10. 01. 14 - 10.1.2014 22:20

Snjóflygsurnar sem falla hér fyrir utan gluggann í Fljótshlíðinni eru hinar stærstu sem ég hef séð og á skömmum tíma hefur þykk hvít hula lagst yfir landið. Það er logn og mér sýnist á borði hér fyrir utan gluggann að á tímanum milli 19.00 og 22.00 hafi fallið um 25 cm af snjó. Fréttir berast af viðvörun lögreglunnar á Hvolsvelli vegna hættu á Suðurlandsveginum. Þegar ekið var austur fyrr í dag var vegurinn auður og bjart yfir Þríhyrningi.

Fimmtudagur 09. 01. 14 - 9.1.2014 23:00

Í Morgunblaðinu í morgun birtist fjögurra dálka fyrirsögn: Boða til kosninga í N-Kóreu og undir henni stóð: „Fyrstu þingkosningar frá því að Kim Jong-un tók við völdum Þingið valdalaus samkunda Fylgst með hvort frekari hreinsanir æðstu manna eigi sér stað“.

Þegar svona stór fyrirsögn er sett á frétt um kosningar í mesta einræðisríki heims vaknar spurning um hvort ætlunin sé að grínast með lesendur eða hæðast að Kim Jong-un með oflofi.

Eftir að ég las grein Kolbrúnar Bergþórsdóttur um Jón Gnarr í sama tölublaði Morgunblaðsins taldi ég að hún væri af sama meiði og fyrirsögnin um kosningarnar hjá Kim Jong-un. Ég veit hins vegar ekki hvort þetta var grín eða háð hjá Kolbrúnu.

Miðvikudagur 08. 01. 14 - 8.1.2014 22:10

Fréttir af ferðamönnum hér á landi yfir vetrarmánuðina eru miklar. Á mbl.is í dag má lesa frásögn um að þeir hafi hópast saman við Hallgrímskirkju um áramótin, þá segir:

„Hinsvegar var ekkert [við kirkjuna] sem gaf skýrt til kynna hvenær miðnætti gengi í garð. Engin niðurtalning eða ljósaskilti sem sýndi töluna 2014. Vísarnir á turnklukkunni eru ónákvæmir og bjöllurnar slógu ekki, og heyra mátti að úr viðstaddra voru ekki samstillt því nokkur skekkja var í því hvenær nýárskveðjurnar byrjuðu að fljúga milli manna.“

Blaðamaðurinn taldi að ramma þyrfti áramótin betur inn fyrir við Hallgrímskirkju. Hann ræddi við Jóhannes Pálmason, formann sóknarnefndar Hallgrímskirkju, sem sagði fullan vilja til að koma klukkuverkinu í lag í turninum en það væri hinsvegar vandkvæðum bundið, klukknaspilið væri frá miðjum 8. áratugnum og erfið veðurskilyrði hefðu haft sín áhrif á allan búnað, jafnt klukkur sem rafmótora, auk þess skorti fé til framkvæmda.

Þá ræddi blaðamaðurinn einnig við Einar Bárðarson, forstöðumann Höfuðborgarstofu, sem sagði sannarlega „orðið tilefni til að skoða hvort hægt sé gera meiri viðburð úr gamlárskvöldi við Hallgrímskirkju“.

Einar hafði ekki frekari orð um hvað gera skyldi um áramót við Hallgrímskirkju. Það hefði mátt velta upp spurningunni hvort Reykjavíkurborg undir forystu Jóns Gnarrs teldi við hæfi að fólk kæmi saman við kirkju um áramót. Sé svo mætti slá margar flugur með því að borgaryfirvöld greiddu kostnað af viðgerð á klukkuverkinu – stærsta klukkan heitir Hallgrímur í höfuðið á Hallgrími Péturssyni en í ár eru 400 ár liðin frá fæðingu hans.

BBC sagði að margar skrýtnar frásagnir bærust frá Bandaríkjunum vegna kuldanna þar. Ein hin skondnasta væri að í dýragörðum hefðu menn orðið að gera ráðstafanir til að bjarga ísbjörnum.

Þriðjudagur 07. 01. 14 - 7.1.2014 18:50

Helgi Teitur Helgason, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Landsbanka Íslands, gerir athugasemd við þá fullyrðingu mína hér á síðunni í gær um að menn geti fengið allt að 90% húsnæðislán í bankanum. Mér er ljúft að hafa það sem sannara reynist en Helgi Teitur segir að Landsbankinn bjóði „viðskiptavinum sínum íbúðalán, grunnlán, uppað 70% af verðmæti fasteignar“.  Til viðbótar þessu eigi viðskiptavinir „kost á að fá aukalán, allt að 15% af verðmæti eignarinnar, séu til öll skilyrði til staðar þ.m.t. greiðslugeta“.  Samsetning þessara tveggja íbúðalána geti „þannig hæst leitt til 85% veðsetningarhlutfalls fasteignarinnar“ en ekki 90% eins og ég held fram. 

Vonbrigði Helga Teits vegna þess að ég hafi ranglega nefnt töluna 90% eru smámunir í samanburði við þann sársauka sem það olli að ég segði Landsbankann minna æ meira á Íbúðalánasjóð.  „Framtíðarsýn okkar í Landsbankanum er að bankinn okkar sé til fyrirmyndar og í forystu.  Hann sé fyrsti kostur á fjármálamarkaði og með trygga og ánægða viðskiptavini sem skapar gagnkvæman ávinning af langtíma viðskiptasambandi milli bankans og viðskiptavina hans,“ segir Helgi Teitur. Eftir að hafa farið orðum um starfsemi Íbúðalánasjóðs og viðhorf hans til viðskiptavina sinna segir framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Landsbankans það „sannast sagna, gríðarlega ósanngjarnt að jafna saman Íbúðalánasjóði og Landsbankanum með nokkrum hætti“.

Þegar ég sagði að Landsbankinn minnti æ meira á Íbúðalánasjóð átti ég við 90% lánin sem sá sjóður veitti á sínum tíma og risti samanburður minn ekki dýpra. Fyrir mér vakti hvorki að gera á hlut Landsbankans né Íbúðalánasjóðs heldur vekja máls á efnahags- og fjármálaþróun sem eðlilegt er að ræða.

Ég fagna því að Helgi Teitur skuli hafa séð ástæðu til að benda mér á það sem betur mátti fara hjá mér. Það sýnir að í Landsbankanum vilja menn standa vörð um orðspor sitt.

 

 

Mánudaginn 06. 01. 14 - 6.1.2014 23:15

Krónan hefur hækkað í verði undanfarið og fasteignaverð hefur einnig hækkað. Landsbankinn, ríkisbankinn, er tekinn til við að bjóða allt að 90% fasteignalán. Hann minnir á æ meira á Íbúðalánasjóð. Boðar þetta að ný bóla sé að myndast? Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar? Eru öll spil lögð á borðið?

Gjaldeyrishöftin. Augljóst er að aðild að ESB er ekki leiðin til að losna við þau. Það ber að taka efnahagslegar ákvarðanir sem marka leið út úr höftunum.

Steingrímur J. Sigfússon hélt í höftin til að halda fólki í landinu þrátt fyrir skattastefnu hans. Þau voru heppilegir átthagafjötrar að hans mati. Össur Skarphéðinsson hélt í höftin í von um að þau nýttust sem vogarstöng inn í ESB.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar verður að marka og kynna leið til haftaleysis.

Sunnudagur 05. 01. 14 - 5.1.2014 22:20

Benedikt Stefánsson var ráðinn aðstoðarmaður Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra og hóf störf 4. ágúst 2009 en Gylfi hvarf úr ráðherraembætti 2. september 2010. Benedikt var því gjörkunnugur störfum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og hann sendi henni drög að frumvarpi til laga um aukna hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum. „Lögin hafa verið gagnrýnd fyrir að ganga of langt og leggja aukinn kostnað á notendur,“ sagði í Viðskiptablaðinu 12. desember 2013 og að Benedikt Stefánsson væri framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Carbon Recycling, fyrirtækis sem ætti mikið undir vegna málsins og hefði meðal annars farið í hlutafjáraukningu eftir að lögin voru samþykkt.

Á vefsíðunni Andríki segir í dag:

„Sem kunnugt er samþykkti Alþingi síðasta vor frumvarp Steingríms J. Sigfússonar, skrifað af Benedikt Stefánssyni starfsmanni Carbon Recycling International, um að leiða þessa tilskipun [ESB um að 10% eldsneytis í samgöngum verði af svonefndum endurnýjanlegum uppruna árið 2020] með hraði í lög hér á landi. Lögin hafa þær afleiðingar að þegar er hafinn innflutningur á dýrri jurtaolíu sem blanda á í Dieselolíu. Í framhaldinu má jafnvel búast við því að korn-etanól til íblöndunar í bensín verði flutt inn. Innkaupskostnaður Íslendinga á eldsneyti mun hækka um mörg hundruð milljónir króna í erlendum gjaldeyri á ári vegna þessarar löggjafar.“

Þá er einnig bent á að metanólverksmiðja Carbon Recycling International sé í kjördæmi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur en vonast hafi verið til „að lögin, sem fyrirtækið kokkaði ofan í grunlausa þingmenn, myndu færa fyrirtækinu mörg hundruð milljóna króna viðskipti á ári“.

Þetta er dæmalaus lýsing á framgangi máls sem mun auka álögur á alla landsmenn með hækkandi eldsneyti fyrir utan að þjóna ekki þeim tilgangi í þágu umhverfisverndar sem að var stefnt. Þá eru áhrif þessarar íblöndunar að verð á korni hækkar um leið og framboð á því til manneldis minnkar.

Hvers vegna í ósköpunum skyldi ekki markvisst unnið að því að losa Íslendinga undan þessari löggjöf?

 

Laugardagur 04. 01. 14 - 4.1.2014 23:15

Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri að þess séu engin fordæmi að haldin sé þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu eða aðildarviðræður áður en þær hefjast eða meðan á þeim stendur.

Þetta er ekki rétt hjá ritstjóranum gengið var til þjóðaratkvæðagreiðslu í örríkinu San Marínó sunnudaginn 20. október 2013 um hvort hefja ætti aðildarviðræður við ESB. Þátttaka var svo lítil að niðurstaðan reyndist marklaus, örlítill meirihluti vildi senda inn umsókn.

Í San Marínó er evran gjaldmiðill með leyfi leiðtogaráðs ESB þótt landið sé utan ESB. Vegna ágreinings um aðild að ESB var ákveðið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort senda ætti inn umsókn.

Í atkvæðagreiðslunni tóku aðeins 20,22% kjósenda þátt en hlutfallið þurfti að vera 32% svo að kosningin væri bindandi.

Niðurstaðan var að 50,28% sögðu já en 49,72% nei. Þótt já-liðið fengi 0,56 stig umfram nei-liðið unnu hinir síðarnefndu vegna þess hve fáir íbúar í San Marínó sáu ástæðu til að fara á kjörstað.

Þessi stutta frétt sem birtist á Evrópuvaktinni 21. október 2013 sýnir að ritstjóri Fréttablaðsins fer vísvitandi með rangt mál eða hann fylgist ekki nógu vel með því sem gerist þegar ESB á í hlut.

 

Föstudagur 03. 01. 14 - 3.1.2014 22:15

Ríkisútvarpið leggur sig fram um að finna snögga bletti á áramótaboðskap forsætisráðherra og forseta. Í fyrstu atrennu var snúið út úr ræðu ráðherrans og Gylfi Arnþórsson, forseti ASÍ, tók að sér að gagnrýna útúrsnúninginn. Um það var fjallað hér.

Þá var Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við HÍ, kallaður í fréttatíma til að lýsa því sem goðsögn að þjóðin stæði saman um stórmál og draga þar með í efa réttmæti orða forseta um gildi sátta í samfélaginu. Á ruv.is fimmtudaginn 2. janúar stendur:

„Það er grundvallarhugmynd þjóðernishyggjunnar að leggja áherslu á þjóðarsátt. Þetta segir Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur sem segir það ekki rétt hjá forseta Íslands að samstaða hafi ríkt á meðal þjóðarinnar um marga af stærstu sigrum hennar.“

Í dag leitaði ríkisútvarpið til Kristins Schrams, forstöðumanns Rannsóknaseturs um Norðurslóðir, til að slá varnagla vegna orða forseta um lykilstöðu Íslands á norðurslóðum. Til dæmis væru veður válynd er haft eftir honum á ruv.is og meðal annars af þeim sökum sæju tryggingafélög sér ekki fært að tryggja starfsemi þar. Kristinn sagði mikilvægt að jafnvægi væri í umræðunni milli auðlindanýtingar og verndunar náttúrunnar. Hann hefur að sögn ríkisútvarpsins kynnt sér muninn á almennri umræðu fyrir og eftir hrun og á ruv.is segir hann:

„Við þurfum að gæta þess að mikla ekki fyrir okkur stöðu okkar og getu bæði á sviði heimsmála og eins á þessum sviðum. Nú er til dæmis svolítið sérstakt að forsetinn nefnir sérstaklega tiltekin verkefni eins og heimshöfn í Finnafirði, sem er eins og er bara á hugmyndastigi og að mörgu leyti áhugavert að þetta sé svona ofarlega í umræðunni eins og er. En ég held að almennt þurfum við að gæta okkar á að fá ekki einhvers konar glýju í augun með tilliti til efnahagsþróunar á norðurslóðum, við höfum brennt okkur á því áður.“

Á milli línanna erum við minnt á að Ólafur Ragnar hafi farið fram úr sér með stórkallalegum yfirlýsingum um útrásarvíkingana og hann kunni sér líklega ekki heldur hóf núna.

Á dögunum vakti ég máls á því hvort ekki þyrfti að huga að reglum til tryggja friðhelgi einkalífsins gegn drónum á Íslandi. Þetta myndband af mbl.is áréttar nauðsyn þess að það sé gert.


Fimmtudagur 02. 01. 14 - 2.1.2014 22:20

Enn er sótt að 365. Í kvöldfréttum sjónvarps ríkisins var sagt frá áformum tveggja athafnamanna Sigmars Vilhjálmssonar og Jóhannesar Ásbjörnssonar um að opna tvær sjónvarpsstöðvar á næstu vikum. Nýju stöðvarnar verða reknar fyrir auglýsingatekjur í gömlu húsakynnum Stöðvar tvö á Krókhálsi. Var sagt að þar væri unnið hörðum höndum að því að innrétta myndver, klippiherbergi og annað sem þyrfti til að reka sjónvarpsstöð.

Hér á landi seldist mikið af alls konar búnaði fyrir jólin sem gerir fólki kleift að njóta áskriftarsjónvarps án þess að kaupa efni frá 365, þar ber Netflix hæst. Fjölbreytnin þar er sögð óþrjótandi og gjaldið aðeins brot af því sem greitt er fyrir áskriftina hjá 365.

Samhliða því sem þetta gerist á sjónvarpsmarkaðnum blasir við öllum að þróun Fréttablaðsins stöðvaðist og fraus eftir að það hætti að þjóna hagsmunum eigendanna í sakamáli og fyrirtæki þeirra urðu síðan gjaldþrota.

Um nokkurt skeið hefur 365 verið til sölu. Jóni Ásgeiri og félögum hefur ekki tekist að finna kaupanda eða kaupendur. Líkur á að þeir finnist minnka enn við fréttirnar af tveimur nýjum stöðvum sem á að reka fyrir auglýsingafé.

Fréttablaðinu var sem fríblaði stefnt gegn áskriftarblöðum. Jóni Ásgeiri hefur ekki tekist að gera út af við Morgunblaðið. Nú bendir allt til þess að frí-sjónvarpsstöðvar geri út af við fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs.

 

Miðvikudagur 01. 01. 14 - nýársdagur - 1.1.2014 20:50

Nýársdagur 2014. Gleðilegt nýtt ár!

Einkennilegt var að fylgjast með útúrsnúningi fréttastofu ríkisútvarpsins á áramótaávarpi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar – hér má sjá um það.

Nýr Ólafur Ragnar Grímsson birtist á skjánum og flutti nýársávarp foseta Íslands, maður sátta í stað átaka. Hér má sjá um það.