Dagbók: desember 2011

Laugardagur 31. 12. 11. - 31.12.2011

Í Þýskalandi hafa sjónvarpsáhorfendur getað horft á sama enska gamanþáttinn á gamlárskvöld síðan 1963. Hann er kynntur undir nafninu: The 90th Birthday eða Dinner for One. Hið einkennilega er að í hinum enskumælandi heimi er myndin næstum óþekkt. Í myndinni eru tveir leikendur. Hin auðuga Miss Sophie sem ákveður að halda upp á 90 ára afmæli sitt þótt allir vinir hennar séu gengnir á vit feðra sinna. Hún minnist þeirra með þjóni sínum James sem verður að leika fjóra gesti og drekka fyrir þá alla.

Fyrir þessi áramót flaug endurgerð af myndinni um netheima undir nafninu: 90. björgunarfundur leiðtoganna, eða Evrur fyrir engan. Í stað Miss Sophie er Angela Merkel og Nicola Sarkozy er í stað þjónsins sem verður að drekka fyrir evru-leiðtogana sem koma ekki til fundarins, til dæmis George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, sem neyddist til að segja af sér eftir að hann orðaði að gríska þjóðin ætti að ákveða aðgerðir sem jafngiltu evru-aðild eða ekki. Hér má sjá hina nýju evru-útgáfu af þættinum.
                         
Það er sniðug lausn hjá þýskum sjónvarpsstöðvum að leysa dagskrármál á gamlárskvöld á þenna hátt. Áhorfendur geta lesið það út úr hinni sígildu mynd sem þeir vilja. Í RÚV er áramótaskaupið á þann veg nú orðið að segja verður í texta um hvern er fjallað af því að persónugerðin er svo léleg. Höfundarnir óttast að annars mundu áhorfendur ekki ná því sem að þeim er haldið. Að þessu sinni einkenndist skaupið auk þess af illgirni í garð einstaklinga, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Föstudagur 30. 12. 11. - 30.12.2011

Stjórnarhættir batna ekki með fækkun ráðherra. Lýðræðislegt eftirlit með stjórnarathöfnum minnkar, gagnsæi í stjórnsýslu verður minna. Ákvarðanir stjórnarflokkanna í dag um að fækka ráðherrum úr 10 í átta er skref í ranga átt frá sjónarhóli stjórnsýslunnar. Þá er pólitískt hættulegt að færa of mikið ráðherravald á hendur einstakra manna. Það verður sérstaklega samþjappað í þremur ráðuneytum: velferðarráðuneyti, atvinnuvegaráðuneyti og innanríkisráðuneyti. Tvö þessara stóru ráðuneyta eru í höndum vinstri-grænna. Þá er óvenjulegt að einn flokkur, Samfylking, hafi þrjú ráðuneyti: forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti á eigin hendi. Loks er hættulegt fyrir ríkisstjórn að hafa ekki nema fjóra fulltrúa innan þingflokka sinna. Líkur á uppþotum meðal stjórnarþingmanna aukast. Svigrúm ráðherra minnkar, líkur á aðgerðarleysi vegna ágreinings eykst.

Með allt þetta í huga hafa stjórnarflokkarnir tekið rangar ákvarðanir í dag. Fyrir ríkisstjórnina bera þær dauðann í sér. Það á ekkert skylt við hvort þessi eða hinn situr í ríkisstjórninni heldur stafar af efni ákvarðananna sjálfra. Undir forsystu Jóhönnu Sigurðardóttur hefur enn einn feilsporið verið stigið í landstjórninni. Það er með ólíkindum að þingflokkur Samfylkingarinnar skuli líða henni að stjórna á þennan hátt. 

Málið snýst ekki lengur um að hreinræktuð vinstri stjórn sitji í heilt kjörtímabil heldur hitt að draga sem lengst að gengið verði til kosninga. Stjórnarliðar vita að þeir munu falla unnvörpum í komandi kosningum.

Álitsgjafi og umræðustjóri RÚV, Egill Helgason, sýnir þessu brölti stjórnarherranna skilning. Það er ekki gæðastimpill sé tekið mið af því að hann taldi Borgarahreyfinguna pólitískt framtíðarafl í þingkosningunum í apríl 2009.

Fimmtudagur 29. 12. 11 - 29.12.2011

Þáttur okkar Davíðs Oddssonar á ÍNN er kominn inn á netið og má sjá hann hér. Eitt af því sem við undruðumst var hvernig Jóhanna og Steingrímur J. hafa staðið að umræðum um breytingu á David-Oddsson-a-INN-28.-des-2011ríkisstjórninni. Ekki minnkar undrunin við fréttir sem berast í dag um að forystumenn stjórnarflokkanna hafi átt í viðræðum um hlutleysi við þingmenn Hreyfingarinnar og geri hosur sínar grænar fyrir Guðmundi Steingrímssyni auk þess að boða þingflokka sína til funda á morgun fyrir ríkisráðsfund 31. desember.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að Össur Skarphéðinsson hefði lagt á ráðin við sig áður en viðræðurnar hófust við Jóhönnu og Steingrím j. Össur sá um svipað leyti ástæðu til að sitja fyrir svörum í Kastljósi til að segja setu Jóns Bjarnasonar í ríkisstjórn tryggingu fyrir trúverðugleika í ESB-viðræðunum. Helsta markmið Samfylkingarinnar er að losna við Jón úr ríkisstjórn.

Fréttir herma að Hreyfingin krefjist þess að Ásta Ragnheiður hverfi úr embætti forseta alþingis af því að hún brá ekki fæti fyrir að tillaga Bjarna Benediktssonar um afturköllun landsdómsákæru kæmist á dagskrá þingsins. Þór Saari stígur varla í ræðustól alþingis án þess að hallmæla þingmönnum og fordæma þingstörf. Það er vissulega í anda hans að reka þingforseta fyrir að koma ekki í veg fyrir að viðkvæmt mál komist á dagskrá þingsins.

Í kvöld ræddi Gunnar Gunnarsson í Speglinum á RÚV við Vilhjálm H. Vilhjálmsson lögfræðing um ferð hans til Norður-Kóreu fyrir nokkrum mánuðunum. Ferðin var vel undir búin af þeim sem skipulögðu hana og meðal annars hittu ferðalangarnir  Barböru Demick, höfund bókarinnar Engan þarf að öfunda. Bókafélagið Ugla gaf hana út á íslensku fyrr á þessu ári. Þótt bókin hafi selst vel á íslensku og vakið töluverðar umræður var engu líkara en hvorki Vilhjálmur né Gunnar vissu um að hún hefði komið út hér á landi. Vilhjálmur nefndi hana á ensku og Gunnar lét það gott heita. Þetta sýnir hve vitneskja manna getur verið stopul um það sem aðrir telja sjálfsagt að allir með áhuga á N-Kóreu viti.




Miðvikudagur 28. 12. 11. - 28.12.2011

Ræddi við Davíð Oddsson á ÍNN í dag, við töluðum saman í 50 mínútur um atburði ársins innan lands og utan. Ég hóf þáttinn á því að rifja upp ákvörðun hæstaréttar um að ógilda kosninguna til stjórnlagaþings. Icesave-málið, ESB-aðildarumsóknin, Líbíustríðið og ágreiningur Ólafs Ragnars og ríkisstjórnarinnar komu til umræðu.

Davíð taldi að Ólafur Ragnar stæði frammi fyrir erfiðri ákvörðun um framboð á næsta ári. Enginn forseti hefði setið í fimm kjörtímabil. Enginn forseti hefði heldur fallið í kosningu. Ólafur Ragnar stæði frammi fyrir þeirri hættu gæfi hann kost á sér og á móti honum stæði alvöru frambjóðandi.

Viðtal okkar Davíðs var fyrst flutt klukkan 20.00 í kvöld, það verður síðan unnt að sjá það klukkan 22.00, 00.00, 02.00, 04.00, 06.00, 08.00, 10.00, 12.00, 14.00, 16.00 og 18.00 á morgun. Síðan verður það einnig sýnt á ÍNN um næstu helgi.


Þriðjudagur 27. 12. 11. - 27.12.2011

Ég hef áður minnst á vefsíðuna Wordsmith.org þar sem sagt er frá orðum á ensku og þau skýrð fimm daga vikunnar. Þessi vika er helguð archaic eða fornum orðum. Mánudaginn 26. desember mátti lesa á síðunni:

mickle

PRONUNCIATION:

(MIK-uhl)Description: http://wordsmith.org/words/images/sound-icon.png

 Þýðing:

noun: A large amount.
adjective: Great, large.
adverb: Much.

 Orðsifjar:

From Old English micel (much). Ultimately from the Indo-European root meg- (great), which is also the source of magnificent, maharajah, mahatma, master, mayor, maestro, magnate, magistrate, maximum, and magnify. Earliest documented use: 9th c.

Athugasemd:

The word appears in the proverb "Many a little makes a mickle" and sometimes in its corrupted (and meaningless) form: "Many a mickle makes a muckle."

 Notkun:

"While blessed with an abundance of natural beauty and resources, Chatham County is also burdened with the task of dealing with a mickle of vegetative waste."
Robert Drewry and Virginia Lamb; County Develops Yard Waste Program; Public Works Magazine (Chicago, Illinois); May 2000.

 



Mánudagur 26. 12. 11 - 26.12.2011

Einkenni málflutnings þeirra sem vilja ekki að gert sé hlé á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og á ástæðunum fyrir því að sótt var um aðild eru hin sömu: í báðum tilvikum má ekki ræða efni málsins.

Að baki samþykkt aðildarviðræðnanna liggur sú blekking að unnt sé að sækja um aðild að ESB án þess að ætla sér annað en athuga hvað í henni felist. Þegar þeirri athugun verði lokið megi skoða niðurstöðuna og taka afstöðu til hennar. Málið er ekki svona einfalt. Aðildarumsókn jafngildir ákvörðun um aðlögun. Þá staðreynd hefur verið leitast við að fela í 30 mánuði. Feluleikurinn hefur eyðilagt trúverðugleika íslensku viðræðunefndarinnar og gert hana svo háða viðmælendum sínum í Brussel að þeir telja sig hafa örlög nefndarinnar í hendi sér.

Hvarvetna innan ESB-ríkja má sjá málsmetandi menn, þar á meðal einlæga stuðningsmenn Evrópusamrunans, vekja máls á hinni einstöku áskorun sem blasir við ríkisstjórnum aðildarríkjanna þegar samstaða þeirra hefur brostið og enginn sér enn hvernig brotunum verður raðað saman. Stuðningsmenn ESB á Íslandi stinga höfðinu í sandinn þegar vakið er máls á þessari áskorun. Þeir vilja ekki ræða framtíð ESB.  

Sunnudagur 25. 12. 11 - 25.12.2011 22:36

Fyrir jól kom út nýtt hefti af tímaritinu Þjóðmálum undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar. Ég skrifa þar meðal annars um bókina Þræði valdsins eftir Jóhann Hauksson auk þess sem ég vek athygli á grein eftir Jean-Claude Piris, fyrrverandi forstöðumann lagasviðs ráðherraráðs ESB, þar sem hann lýsir vonbrigðum með Lissabon-sáttmálann þrátt fyrir mikinn hlut sinn í gerð hans á sínum tíma. Hann telur óhjákvæmilegt að breyta skipulagi Evrópusambandsins. Ég lýsi þeirri skoðun að Piris hafi mikil áhrif á stefnu Nicolas Sarkozys Frakklandsforseta í málefnum Evrópusambandsins.

Lesa meira

Laugardagur 24. 12. 11 - 24.12.2011

Gleðileg jól!

Í dag skrifaði ég pistil um heilagan Jósef. Um hann segir í guðspjöllunum:

Matteusarguðspjall 1:18-25:

Fæðing Jesú

Fæðing Jesú Krists varð á þennan hátt: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman reyndist hún þunguð af heilögum anda.  Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni,  vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey.  Hann hafði ráðið þetta með sér en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: „Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda.  Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans.“

Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða:  „Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss.

Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín.  Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.


Föstudagur 23. 12. 11 - 23.12.2011

Vaclav Havel, fyrsti forseti frjálsrar Tékkóslóvakíu, var borinn til grafar í dag. Hinn 29. janúar 1990, þegar aðeins mánuður var liðinn frá því að Havel var kjörinn forseti, sat ég blaðamannafund hans á vegum Morgunblaðsins í forsetahöllinni Prag og þá sagði hann ekki útilokað að hann yrði í Reykjavík í febrúar sama ár þegar leikirit eftir hann yrði frumsýnt í Þjóðleikhúsinu. Það gekk eftir því að innan við mánuði síðar heimsótti hann Ísland og sá frumsýningu á verki sínu Endurbyggingu  en boðið frá Þjóðleikhúsinu þakkaði hann áður en hann var kjörinn forseti og vildi ekki afþakka þrátt fyrir hið nýja, ábyrgðarmikla hlutverk sitt.

Í frásögn minni af fundinum kemur fram að menn þurfi ekki að dveljast lengi í Prag til að átta sig á því að Havel væri hetja hinnar friðsamlegu byltingar í Prag sem þá var á allra vörum enda varð hún síðustu mánuði ársins 1989.  Íbúarnir sögðu að þeir hylltu hann og elskuðu.

Á blaðamannafundinum 29. janúar 1990 sagðist Havel ætla að endurnýja sjálfstraust og virðingu Tékkóslóvaka eftir að hafa verið „aðgerðarlaus nýlenda" í rúm 40 ár. Jafnframt væri nauðsynlegt að hefja forsetaembættið til nýs vegar eftir niðurlægingarskeið alræðisins. Nú þegar hann er kvaddur efast enginn um að honum hafi tekist það.

 Í lok frásagnar minnar sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins 30. janúar 1990 sagði:

„Enginn sérstakur tilgangur virtist vera með þessum blaðamannafundi forsetans, annar en sá að gefa þjóðinni tækifæri til að hlýða á boðskap hans, en sjónvarpað var beint af fundinum. Sérfróðir aðilargátu sér þess til að Havel vildi sýna að hann væri með valdataumana í hendi sér eftir orðróm undanfarna daga um að félagar í öryggislögreglunni, sem leyst var upp fyrr í mánuðinum, undirbyggju valdarán.“

Fimmtudagur 22. 12. 11 - 22.12.2011 19:05

Eins og ég hef áður sagt frá hér á síðunni var Sigurður Már Jónsson blaðamaður gestur minn á ÍNN hinn 14. desember og má samtal okkar hér en við ræddum bók Sigurðar Más: Icesave samningarnir – afleikur aldarinnar? Að óreyndu hefði mátt ætla að félagar höfundarins úr blaðamannastétt fögnuðu því að einn úr þeirra hópi ritaði bók um málefni líðandi stundar.

Við Háskóla Íslands  starfar  Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála undir forstöðu Ástu Möller, fyrrverandi alþingismanns. Stofnunin gefur út vefritið Stjórnmál og stjórnsýsla. Þar birtast greinar og umsagnir um bækur. Síðasta hefti tímaritsins sá dagsins ljós 20. desember og má nálgast það hér. Vek ég athygli á eigin umsögn í ritinu um bók Tómasar Inga Olrichs Ísland og ESB en umsögnina má lesa hér.

Allt er þetta aðdragandi að því sem ég ætlaði að ræða en það er umsögn Svavars Halldórssonar, fréttamanns á RÚV, um bók Sigurðar Más en umsögnina má lesa hér.

Umsögnin er ekki rituð af vinsemd eins og sést til dæmis þegar Svavar segir:

„Hvers vegna er til að mynda ekki rætt við aðalsamningamanninn Svavar Gestsson eða fjármálaráðherrann Steingrím J. Sigfússon? Þess í stað setur höfundur sig í stellingar alviturs skáldsagna - höfundar og gerir þeim upp hugsanir og tilgang. Vel kann að vera, og jafnvel líklegt, að hann hitti naglann á höfuðið í þeim ágiskunum. Það breytir því hins vegar ekki að þetta eru ágiskanir.“

Þegar þessi ummæli eru lesin vaknar spurning um hvort Svavar Halldórsson hafi lesið bókina á enda því að  undir lok hennar segir Sigurður Már frá því að hann hafi náð sambandi við Svavar Gestsson sem neitaði hreinlega að ræða málið vegna efasemda um að tímabært væri að fjalla um það „svo hatrömm væri umræðan“.


 


Lesa meira

Miðvikudagur 21. 12. 11 - 21.12.2011

Þóra Arnórsdóttir ræddi við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í Kastljósi kvöldsins. Samtalið snerist að mestu um ESB-viðræðurnar eins og lesa má hér. Þóra spurði þó einnig um Icesave-málið sem Össur segir nú að hann „stýri“ fyrir hönd þjóðarinnar. Hann ætli að ráða lögfræðinga innlenda og erlenda og síðan ætlum við að „setja hausinn undir okkur“ sagði Össur. Hann gerði lítið úr meirihluta utanríkismálnefndar sem vill ekki að hann fari með málið og lét eins og hann ynni að því í nánu samstarfi við Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem fer með efnislegan þátt málsins þótt utanríkisráðuneytið hafi hið formlega fyrirsvar út á við.

Hvað felst í því að Össur ætli að „stýra“ þessum málarekstri? Ríkislögmanni er treyst fyrir málarekstri fyrir hönd ríkisins. Þótt embætti hans falli undir forsætisráðuneyti „stýrir“ forsætisráðherra honum ekki. Össur á að sjá til þess í samráði við ríkisstjórn og alþingi að samið sé við lögmenn um hagsmunagæslu Íslands en ekki „stýra“ þeim. Á fyrstu stigum Icesave-málsins taldi Svavar Gestsson sig hafa fundið patentlausn á Icesave-deilunni, hann þyrfti ekki neina lögfræðilega ráðgjöf. Þetta leiddi til þess að Svavar lék afleik aldarinnar. Tal Össurar í Kastljósi vekur ótta um að Össur ætli að feta í fótspor Svavars á lokastigi Icesave-málsins.

Össur fór undan í flæmingi þegar Þóra spurði hann hvers vegna hann fylgdi stefnunni um eitt Kína en viðurkenndi sjálfstæði Palestínu, hvort hann vissi ekki um sjálfstæðisbaráttu Tævana og Tíbeta. Hann sagði að Tíbetar hefðu aldrei beðið um stuðning við sjálfstæði sitt en minntist ekki á Tævana. Össur sagði að íslensk stjórnvöld hefðu alltaf verið beðin um að viðurkenna ríki áður en þau gerðu það. Tævanir hafa áratugum saman barist fyrir því að fá sjálfstæðisviðurkenningu. Það hefur greinilega farið fram hjá Össuri.

 

.

 

Þriðjudagur 20. 12. 11 - 20.12.2011

Í dag mótmælti ég á Evrópuvaktinni að Össuri Skarphéðinssyni eða Árna Páli Árnasyni yrði falin ábyrgð á vörn Íslands fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave-málsins. Rök mín fyrir því má lesa hér.

Meirihluti utanríkismálanefndar alþingis vildi ekki að Össuri yrði falin pólitísk forsjá málsins. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að svo skyldi vera, sagði í raun að utanríkismálanefnd ætti ekki að skipta sér af þessu, ríkisstjórnin hefði ákveðið þetta sl. vetur auk þess sem reglugerð um stjórnarráðið gerði ráð fyrir forsjá utanríkisráðuneytisins. Spyrja má af þessu tilefni til hvers Árni Þór Sigurðsson tók þetta fyrir í nefndinni. Hvaða tilgangi hafði það ef ekki til að fara að ráðum hennar?

Núverandi stjórnarflokkar gerðu veður út af því eftir kosningar 2003 að ekki hefði verið rætt við utanríkismálanefnd á fullnægjandi hátt í mars 2003 um að ríkisstjórnin lýsti stuðningi við innrásina í Írak.  Íraksstríðinu er lokið engu að síður hefur utanríkismálanefnd til skamms tíma haft málið á sinni könnu til að rannaska hinar tæplega níu ára gömlu ákvarðanir. Heiður þjóðar, þings og utanríkismálanefndar séu í húfi.

Nú þegar nefndin kemur saman til að ræða mál sem snertir lífshagsmuni Íslands segir utanríkisráðherra að nefndinni komi ekkert við hvernig haldið sé á málinu. Hinn einstæði atburður hefur gerst að utanríkisráðherra segist ætla að hafa bókun meirihluta utanríkismálanefndar að engu. Nýr meirihluti gegn honum hefur myndast í nefndinni. Loks sýnir það enn undirlægjuhátt Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar alþingis, gagnvart ríkisstjórninni að hann tekur ekki upp hanskann fyrir meirihluta nefndar sinnar heldur situr þegjandi undir yfirlýsingum Össurar um að nefndin hafi ekkert um það að segja hvernig haldið er á þessu brýna hagsmunamáli þar sem tugir ef ekki hundruð milljarða eru í húfi. Árna Þór finnst hins vegar sjálfsagt að gæta virðingar nefndarinnar vegna þess sem gerðist í mars 2003, annars kunni framkvæmdavaldið að grafa undan valdi alþingis.

Að haldið skuli á Icesave-málinu á þennan hátt af hálfu ríkisstjórnarinnar kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Það er eins líklegt að ráðherrar og þeir sem stóðu með henni í utanríkismálanefnd telji það jafnvel eigin til styrktar að Íslendingar tapi málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Þeir hafa alla jafna verið á öndverðum meiði við meirihluta þjóðarinnar í málinu.

Mánudagur 19. 12. 11 - 19.12.2011

Listaverkið Dansleikur eftir Þorbjörgu Pálsdóttur var sett upp við Perluna fyrir 11 árum. Líklega eru fáar höggmyndir oftar myndaðar af ferðamönnum sem koma til landsins. Þeir stilla sér gjarnan upp meðal þeirra sem dansa í verkinu. Listaverkið og gervi-goshverinn í skógarjaðrinum fyrir suðaustan Perluna er hið eina sem dregur athygli hins mikla fjölda ferðamanna sem kemur í Perluna frá útsýninu.

Í kvöld kynntu sjónvarpsstöðvarnar hugmynd um allt annars konar starfsemi í Perlunni, hótel og baðstað. Hið einkennilega er að hugmyndin britist í tilboði frá hugsanlegum kaupendum Perlunnar af Orkuveitu Reykjavíkur. Af útboðinu mátti hins vegar ekki ráða að fyrir dyrum stæði að gjörbreyta öllu á þessum einstaka stað með sölu Perlunnar. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við að það sé gert annað en að fara verður að öllum reglum.

Í borgarstjórn Reykjavíkur snerust menn gegn því á dögunum að hróflað yrði við trjám í Öskjuhlíðinni til að auka öryggi flugvéla á Reykjavíkurflugvelli. Eins og ég hef áður sagt er minna mál að grisja skóg en leyfa stórframkvæmdir eins og Háskólann í Reykjavík eða nú gjörbyltingu í og við Perluna.

Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig umræður um sölu Perlunnar þróast. Hinir stórtæku kaupendur minna dálítið á Huang Nubo frá Kína sem vildi eignast Grímsstaði á Fjöllum eins og aðrir kaupa sér lóð undir frístundahús.

Sunnudagur 18. 12. 11 - 18.12.2011

Kammersveit Reykjavíkur efndi til árlegra jólatónleika sinna í dag klukkan 17.00. Að þessu sinni voru tónleikarnir í Norðurljósum í Hörpu en ekki í Áskirkju eins og um langt árabil. Hljómburður í Norðurljósum er mjög góður.

Laugardagur 17. 12. 11 - 17.12.2011

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram tillögu um að alþingi afturkalli landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde. Hér hef ég fært rök fyrir réttmæti þessarar tillögu.

Samfylkingarfólk á alþingi og fjölmiðlavinir þess hafa ærst vegna tillögunnar. Rökin gegn henni halda hins vegar ekki vatni.

Það stenst ekki að alþingi geti ekki ályktað og breytt fyrri ákvörðun sinni um þetta mál eins og önnur. Samfylkingin vill skjóta því til skrifstofu alþingis hvort ræða megi málið á þinginu! Að kveinka sér undan tímasetningu tillögunnar vegna jólaleyfis þingmanna er innihaldslaus spuni sem verður ábúðarmikill þegar fjömiðlavinirnir taka til við að hampa honum.

Rúsínunni í pylsuendanum kynntust áhorfendur Kastljóss föstudaginn 16. desember þegar Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að það væri „farsælast“ fyrir Geir að málinu yrði fram haldið af því að þá gætu hinir mestu lögspekingar hreinsað mannorð hans! Bjarni Benediktsson benti á að pólitísk ákæra yfir Geir leiddi ekki til þess að hann þyrfti að hreinsa mannorð sitt, þeir sem bæru fram kæru yrðu að sýna að meiri líkur en minni væru á því að hinn ákærði yrði sakfelldur. Þær forsendur væru ekki hér fyrir hendi.

Sagan geymir mörg sorgleg dæmi um menn sem vilja þvo hendur sínar af óhæfuverkum þótt þeir hafi sjálfir hrundið ferlinu sem leiddi til þeirra af stað. Þegar þá skortir rök láta þeir eins og um eitthvert náttúrulögmál sé að ræða. Gagnrýnendur verði að sætta sig við orðinn hlut og afleiðingar hans, síst af öllu sé ástæða til að gagnrýna upphafsmennina.

Þannið talaði Magnús Orri um landsdómsmálið og þannig talar Samfylkingin um ESB-málið. Í hvorugu tilvikinu hefur Samfylkingin eða þingflokkur hennar þrek til að horfast í augu við sjálfan sig, viðurkenna mistök og breyta samkvæmt því.  Lítilmennskan setur æ sterkari svip á þingflokk Samfylkingarinnar enda dregur hann dám af Jóhönnu Sigurðardóttur sem hann hefur hvorki vilja né þrek til að ýta frá völdum.

Föstudagur 16. 12. 11 - 16.12.2011

Viðtal mitt á ÍNN  við Sigurð Má Jónsson blaðamann og höfund bókarinnar Icesave samningarnir - afleikur aldarinnar? er komið inn á netið eins og sjá má hér.

Einn þeirra sem hefur horft á þáttinn lýsti undrun yfir því að bókin vekti ekki meira umtal. Það væri með ólíkindum að kynnast því hvernig staðið hefði verið að Icesave-málinu af þeim Svavari Gestssyni og Steingrími J. Sigfússyni.  Eitt af því sem Sigurður Már segir er að hann hafi leitað logandi ljósi að mynd af samninganefnd Svavars. Hún hafi aldrei verið tekin, kannski vegna þess að nefndin hafi aldrei öll komið saman.

Þá er enn óupplýst hver það var sem setti Svavars-samninginn í ómerkt umslag og stakk honum inn um tvær póstlúgur á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2009. Þá höfðu Jóhanna og Steingrímur J. neitað að upplýsa þjóðina um efni samningsins frá 5. júní. Þingflokkur Samfylkingarinnar samþykkti samninginn á sama fundi og hann var kynntur honum, innan VG komu fram efasemdir.

Það er sérkennilegt að Jóhanna og Steingrímur J. telji sig nú í stöðu til að neita að afturkalla landsdómsákæru á hendur Geir H. Haarde vegna virðingar fyrir góðum stjórnarháttum og að óhjákvæmilegt sé að refsa þeim sem hafi þá ekki í heiðri. Ég fjallaði um þetta í pistli hér á síðunni í dag.

Fimmtudagur 15. 12. 11 - 15.12.2011

Klukkan 12.00 á hádegi var ég í stofu 101 á háskólatorgi Háskóla Íslands þar sem Heimssýn efndi til fundar um evruna. Flutti ég ræðu ásamt Stefáni Jóhanni Stefánssyni, fyrrverandi vara-borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, en við erum báðir andvígir aðild Íslands að ESB. Hér má sjá punktana sem ég notaði.

Í ræðu minni vék ég að því að Eistlendingar ættu nú í höggi við minni hagvöxt eftir aðild þeirra að evru-svæðinu. Einn fundarmanna mótmælti því og sagði hagvöxt þar mikinn, 8,1%. Ég sagðist ekki hafa gögn við hendina til að sanna mál mitt en þau má hins vegar sjá hér.

Jacques Chirac, fyrrverandi Frakklandsforseti, var dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi í dag fyrir spillingu í borgarstjóratíð sinni í París 1990 til 1995. Ég sé ekki að verjandi hans tali nokkurs staðar um að þetta sé næsta stig sakfellingar við sýknu eins og Jakob R. Möller gerði eftir dóminn yfir Baugsfólkinu í skattamálinu á dögunum. Í Frakklandi átta menn sig á því, meira að segja lögmenn, að annað hvort eru menn sýknaðir eða sakfelldir.

Miðvikudagur 14. 12. 11 - 14.12.2011

Í dag ræddi ég við Sigurð Má Jónsson blaðamann í þætti mínum á ÍNN um bók hans Icesave samningarnir - afleikur aldarinnar? Sigurður Már rekur gang Icesave-málsins frá hausti 2008 fram á haust 2011 í bók sinni sem er góð heimild um þetta einstæða mál. Spurningamerkið í titli bókarinnar er óþarft.

Það er með ólíkindum að stjórnmálamenn sem stóðu að samningunum um Icesave skuli sitja áfram á ráðherrastólum og tala núna eins og þeir séu best til þess fallnir að verja málstað Íslands fyrir EFTA-dómstólnum.  Allar tilvitnanir í þessa menn fyrir dómstólnum úr umræðum um Icesave-málið fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl 2011 verða til þess að veikja málstað Íslands.

Enn sannaðist í dag hve DV  stendur nálægt Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Baugi en líkur hafa verið leiddar að því að fyrir nokkru hafi Jón Ásgeir átt hlut að því að leysa DV  úr fjárhagsvanda. Í dag segir frá stefnu Jóns Ásgeirs á hendur mér og milljón króna kröfu vegna prentvillu í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Jón Ásgeir vill 1 milljón króna í bætur vegna villurnar sem þegar hefur verið leiðrétt með afsökun minni. Í tilefni af því að Jón Ásgeir hefur komið stefnunni á framfæri við DV birti ég hér á síðunni greinargerð verjanda míns Jóns Magnússonar hrl. Hana má lesa hér.

Kolbeinn Ó. Proppé, blaðamaður á Fréttablaðinu. vitnar ranglega í orð mín í húskarlahorni blaðsins í dag. Rétt er að geta þess að Kolbeinn skipaði efsta sæti á framboðslista vinstri-grænna í suðurkjördæmi árið 2003. Hann náði ekki kjöri. Skrif hans í Fréttablaðið gefa til kynna að hann sé ekki hættur stjórnmálastörfum. Hann hyggst kannski bjóða sig fram að nýju í suðurkjördæmi úr því að Atli Gíslason hefur sagt skilið við vinstri-græna?

Þriðjudagur 13. 12. 11 - 13.12.2011

Ég skrifaði í dag pistil um uppnámið innan ESB og Ísland sem lesa má hér.

Nokkrar umræður hafa orðið um trjátoppa í Öskuhlíðinni og að þeir trufli flugumferð um Reykjavíkurflugvöll. Á sínum tíma var flugmálastjórn með aðsetur í bröggum á svæðinu sem Háskólinn í Reykjavík hefur lagt undir sig með byggingum og bílastæðum. Starfsfólkið í þessum bröggum hóf trjárækt í Öskjuhlíð undur forystu Agnars Kofoed Hansens flugmálastjóra.

Ég leit stundum inn í þessa bragga þegar ég lék mér þarna sem strákur og man eftir áhuganum á trjáræktinni. Það hefur áreiðanlega ekki vakað fyrir neinum af starfsmönnum flugmálastjórnar að loka Reykjavíkurflugvelli með of háum trjám.

Víða um lönd gera menn geilar í skóga svo að trjágróðurinn skapi ekki hættu fyrir flugumferð. Hvað er á móti því að gera það þarna? Að minnsta kosti er einkennilegt að þeir leggist gegn því sem samþykktu hinar miklu framkvæmdir milli Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur. Þar grær aldrei um heilt en skógur vex á ný vilji menn leyfa honum það.  Verði skógurinn í Öskjuhlíð grisjaður mun það aðeins ýta undir mannaferðir um hlíðina.

Áhugamenn um velferð Öskjuhlíðar ættu að huga að því að setja keðju eða hlið á veginn við Fossvogskirkjugarð. Bílaumferð niður eftir hlíðinni á þessum slóðum kallar á sóðaskap auk þess sem sumir reyna greinilega að aka þessa leið niður að Háskólanum í Reykjavík.

Mánudagur 12. 12. 11 - 12.12.2011

Í gær hafði ég orð á ólíku fréttamati hér á síðunni þegar sagt var frá könnun í Þýskalandi þar sem flestir aðspurðra töldu Þýskaland eiga betur heima utan ESB en innan.

Í dag var Össur Skarphéðinsson í Brussel að opna kafla (ekki jólapakka) með Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB. Össuri til trausts og halds birti Fréttablaðið niðurstöðu í skoðanakönnun sem sýnir að tæplega 65% þjóðarinnar vill fá tækifæri til að greiða atkvæði um niðurstöðu í viðræðunum við ESB ljúki þeim einhvern tíma. Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt því að enginn vill að þessu máli ljúki án þess að þjóðin segi álit sitt á niðurstöðunni.

Í samræmi við annað í málflutningi ESB-aðildarsinna túlka þeir þetta á þann veg að um stuðning við málstað þeirra sé að ræða. Þetta er oftúlkun. Fólk vill fá að kjósa því að það sér enga aðra leið til að binda enda á þá vitleysu sem hófst með samþykkt alþingis 16. júlí 2009. Meirihlutinn mun örugglega fella samning takist einhvern tíma að ná honum. Verði farið að þeim skilyrðum sem sett hafa verið í orði verður aldrei samið og er þá vísað til þess ESB sem var árið 2009.

tala menn í Brussel um ESB II, það er ESB eftir að Bretar sögðu skilið við evru-ríkin. Alþingi Íslendinga sótti ekki um aðild að ESB II. Hvernig væri að kanna aðildarskilyrðin þar áður en lengra er haldið?

Össur Skarphéðinsson var í Moskvu á dögunum. Hann snýr til baka og ritar lofgrein um valdhafana í Kreml í Morgunblaðið 9. desember. Greinin hefur ekki fyrr birst en mestu fjöldamótmæli verða gegn sjálfum Pútín. Greinin minnir helst á ræðu Össurar í Brussel sumarið 2010 þar sem hann lýsti þrá sinni eftir evrunni og blaðamenn hlógu. Það er fleira skrýtið í þessari grein eins og sjá má hér.

Sunnudagur 11. 12. 11 - 11.12.2011

Fréttamatið er ólíkt eftir fjölmiðlum. Nýtt dæmi er að finna í frásögnum af skoðanakönnun í Þýskalandi sem sýnir að 46% Þjóðverja telja Þýskaland betur sett utan ESB, 51% telja framtíð evrunnar neikvæða en 60% telja að Evópusambandið muni ekki liðast í sundur.

Ég sé að á mbl.is birta menn aðeins þann punkt úr þessari frétt að 60% Þjóðverja telji ESB ekki á leið til upplausnar. Ég skrifaði hins vegar frétt á Evrópuvaktina í kvöld þar sem ég lagði áherslu á hina punktana. Mér finnst í raun stórmerkilegt að flestir samkvæmt þessari könnun telji Þýskaland betur sett utan ESB.

Allar götur síðan Frakkar og Þjóðverjar hófu samstarfið sem síðan gat af sér ESB hefur það verið þungamiðja í þýskum stjórnmálum að ESB væri í raun forsenda fyrir tilvist Þýskalands nútímans, vexti þess og velgengni.


Laugardagur 10. 12. 11 - 10.12.2011

Þegar litið er á umræður um afstöðu Breta til þess að taka ekki þátt í evru-samvinnunni kemur í ljós hve grunnt er á óvild milli þjóða innan ESB þótt engri þeirra detti í hug að stofna til átaka.

Það kemur æ betur í ljós hve fráleit rökin eru fyrir aðild Íslands með vísan til þess að hún leiði til áhrifa á stefnu ESB. 

Íslenskir þingmenn sanna að þeir séu á skjön við heilbrigða skynsemi láti þeir eins og ekkert sé sjálfsagðra en halda áfram aðlögunarferlinu að ESB. Engin von er til þess að Össur Skarphéðinsson sjái að sér.


Föstudagur 09. 12. 11 - 9.12.2011

Á leiðtogafundi ESB í gær og í dag var ákveðið að taka evruna undan stjórnkerfi og sáttmálum ESB og semja um reglur henni til bjargar á milli evru-ríkjanna 17 og við ekki-evru-ríki sem stefna að því að taka upp evru eða eiga allt sitt undir henni eins og Danir. Þetta hlýtur að vekja þá spurningu hvort nauðsynlegt sé að semja við ESB til að geta tekið upp evru. Dugar ekki að gerast aðili að evru-samkomulagi evru-ríkjanna eins og að semja við Schengen-ríkin um aðild að Schengen?

Héraðsdómur var felldur í dag í skattamáli Baugsmannanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónsson og Kristínar Jóhannesdóttur. Þau voru fundin sek en sett á skilorð í eitt ár vegna þess hvernig ákæruvaldið hefur haldið á málinu. Er það vissulega gagnrýnisvert og ljóst að engin tímamörk sem saksóknari í málinu setti sér hafa staðist.

Viðbrögð Jóns Ásgeirs eru í samræmi við annað í málatilbúnaði hans. Hann telur að sakfelling í þessu máli sé „fullnaðarsigur“ fyrir sig og Jakob R. Möller hrl. segir að dómsorðið standi næst því að vera sýkna. Í sjálfu sér má það til sanns vegar færa að sakfelling standi alltaf næst því að vera sýkna því að almennt eru þessir tveir kostir í boði í sakamálum.

Ég hef áður sagt að fordæmi dómara í Baugsmálinu setji sérstökum saksóknara skorður í málum sem hann hefur til úrvinnslu. Hann þarf að huga að tímamörkum ekki síður en gera þurfti í þessu skattamáli Baugs og Baugsmálinu almennt.

Ég minni á að Jón Ásgeir hefur stefnt mér fyrir dómstóla vegna ritvillu í bók minni um Baugsmálið Rosabaugur yfir Íslandi. Jón Magnússon hrl., lögmaður minn, hefur lagt fram greinargerð í málinu. Ég veit ekki hvenær það verður tekið til meðferðar. Það verður fróðlegt að vita hvort dómarinn setur prentvillupúkann á skilorð og Jón Ásgeir telji það líka fullnaðarsigur sinn í þeim málaferlum.

Fimmtudagur 08. 12. 11 - 8.12.2011

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna hittu Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, á fundi í Brussel í dag. Þeir deildu um eldflaugavarnakerfi NATO sem hefur verið kappsmál Bandaríkjamanna allt síðan á dögum Ronalds Reagans. Fundi þeirra Reagans og Mikhails Gorbatsjovs í Höfða fyrir 25 árum lauk án samkomulags af því að Reagan hélt fast í rétt Bandaríkjamanna til að setja upp eldflaugavarnakerfi.

Eins og sést af þessari frétt telja menn almennt að enginn árangur hafi náðst á fundinum. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sem sat fundinn fyrir Íslands hönd er þó bjartsýnn og þótti honum Lavrov mildari í máli en hann vænti. Össur hitti Lavrov nýlega í Moskvu, kannski var hann grimmari við hann þar.

Athyglisvert að Össur minnist ekki á eldflaugavarnakerfi heldur talar um „skotflaugar“ sem er ekki orð sem menn nota almennt um kjarnorkueldflaugar. Frá því að Samfylkingin tók við stjórn utanríkisráðuneytisins hefur NATO tekið ákvarðarnir um að ráðast í uppsetningu eldflaugavarnakerfisins. Þetta er skynsamleg ákvörðun í ljósi þess sem er að gerast í Íran.

Hitt er ekki skynsamlegt fyrir Össur að setja á svið eitthvað leikrit í kringum fundinn með Lavrov um eldflaugarnar. Það er alvarlegt mál ef Rússar eru teknir til við að hóta vesturhluta Evrópu með eldflaugum til að ná pólitískum markmiðum sínum og hlutast til um innri málefni NATO.

Össur hefur brugðist við ábendingum um árverkni í öryggismálum með því að blása á þær hvort sem þær koma frá sænskum varnarmálasérfræðingum eða kanadíska hernum. Nú hefur hann setið fund með rússneska utanríkisráðherranum í höfuðstöðvum NATO og virðist sjá fundinn með allt öðrum augum en lýst er í fréttaskeytum. Hvað veldur?


Miðvikudagur 07. 12. 11 - 7.12.2011

Flutti í kvöld kynningarfyrirlestur um qi gong hjá Glóð, íþróttafélagi eldri borgara í Kópavogi.

Áhugi er vaxandi á því að stunda þessar mögnuðu æfingar. Í upphafi næsta árs verða þær í boði á Kanaríeyjum í ferð á vegum Sunnuferða. Í lok september 2012 kemur einn kunnasti qi gong meistarinn í Bandaríkjunum dr. Yang hingað til lands og verður með þriggja daga námskeið. Nú er unnt að stunda æfingarnar á tveimur stöðum í Reykjavík, í Garðabæ og Hafnarfirði undir merkjum Aflsins.


Þriðjudagur 06. 12. 11 - 6.12.2011

Í dag fékk ég tækifæri til að skoða varðskipið Þór í Reykjavíkurhöfn í fylgd Sigurðar Steinars Ketilssonar skipherra og manna hans. Ég kom að ákvörðunum um smíði skipsins á sínum tíma og fór í skipasmíðastöðina í Chile þegar lagður var kjölur að skipinu vorið 2008.

Þótt ég hefði gert mér í hugarlund hvernig skipið liti út áttaði ég mig á því fyrr en ég gekk um það í dag að Þór yrði svo glæsilegur. Hvergi er um neinn íburð að ræða en allt gert af smekkvísi og hagkvæmni. Allur tækjabúnaður er sem best verður á kosið og skipið hið fjölhæfasta. Kostnaður við smíði þess var tæpar 30 milljónir evra eða innan áætlunarinnar sem gerð var í upphafi.

Smíðasaga skipsins er kapítuli út af fyrir sig því að það lifði af bankahrun á Íslandi og jarðskjálfta í Síle á smíðatímanum. Tryggingasamningurinn sem var gerður vegna smíði skipsins reyndist vel eftir jarðskjálftann þegar nauðsynlegt reyndist að fara í saumana á öllu sem gert hafði verið um borð í því eftir að flóðbylgja vegna jarðskjálftanna gekk yfir það. Tafðist afhending skipsins um eitt ár vegna þessa.

Þór skapar ekki aðeins nýja vídd í hefðbundna starfsemi landhelgisgæslunnar. Skipið eykur starfssvið gæslunnar til mikilla muna vegna þess búnaðar sem er um borð í þágu mengunarvarna og botnmælinga fyrir utan togkraft skipsins sem er mun meiri en áður hefur þekkst hér á landi. Þá er skipið vel búið til að veita aðstoð í landi. Þar er búnaður til raforkuframleiðslu sem dugar til að veita byggðarlagi orku á neyðarstundu, slökkvibúnaður er öflugur og unnt er að setja þar upp stjórnstöð á vegum almannavarna ef nauðsyn krefst.

Forseti Sile hefur ákveðið að flotinn sem á stöðina þar sem Þór var smíðaður hætti slíkri starfsemi í þágu erlendra viðskiptavina. Ísfélagið í Vestmannaeyjum á togara í smíðum hjá fyrirtæki flotans og er það líklega síðasta skipið sem þar verður smíðað fyrir útlendinga.

Skip eru ekki fjöldaframleidd þannig að hvert þeirra er sérstakt meistaraverk. Reynsla af Þór er stutt en hún er góð. Á meðan skipið er í ábyrgð framleiðenda verður fylgst vel með öllu sem betur má fara undir þeirra smásjá.



Mánudagur 05. 12. 11 - 5.12.2011

Í dag ákvað samfylkingarþingmaðurinn Kristján Möller að nota formennsku sína í þingnefnd til að kalla umboðsmann Huangs Nubos, auðmanns frá Kína, fyrir sig til að heyra frá honum hvað þingmenn þurfi að gera til að Huang láti að sér kveða hér á landi. Er enn farið inn á nýjar brautir á vegum Samfylkingarinnar til að koma til móts við Huang. Skal enn lýst undrun yfir því að enginn fjölmiðill sjái ástæðu til að kynna almenningi hve hart Samfylkingin gengur fram í málinu.  Mætti til dæmis skoða hvernig þessi barátta fellur að þeim boðskap flokksins að hann berjist gegn sérhagsmunum og leggi sig alls ekki fram um að þjóna þeim.

Össur Skarphéðinsson tók sér fyrir hendur í dag að rangfæra orð sérfræðinga kanadíska hersins í tengslum við áform Huangs eins og lesa má hér.

Það skýrist dag frá degi að hverju Angela Merkel og Nicolas Sarkozy vilja stefna innan Evrópusambandsins. Þau vilja breyta skipulaginu til að herða tök á ríkjum, að minnsta kosti evru-ríkjum. Hér eru ESB-aðildarsinnar á borð við Jón Baldvin Hannibalsson og Guðmund Gunnarsson teknir til við að tala um að við ættum að áskilja okkur rétt að standa utan aðildar að evrunni. Þetta bendir til þess að eitthvað annað vaki fyrir þessum mönnum en aðild að ESB. Það á leita eftir undanþágu á öllum sviðum. Einfaldasta leiðin til að gulltryggja þessar undanþágur en eiga gott samstarf við ESB felst í aðild að evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Sunnudagur 04. 12. 11 - 4.12.2011

Fórum klukkan 16.00 í Gunnarshús við Dyngjuveg, hús Gunnars Gunnarssonar skálds, þar sem Rithöfundasamband Íslands hefur aðsetur. Þar lék Gunnars Gunnarsson sellóleikari einleiksverk eftir Bach við góðar undirtektir áheyrenda. Vat þetta hátíðleg og ógleymanleg stund.

Í dag er þess minnst að 150 ár eru liðin frá fæðingu Hannesar Hafstein, fyrsta ráðherrans. Af því tilefni var Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu opinn almenningi á mbl.is mátti lesa að þetta væri í „fyrsta sinn sem bústaðurinn er opinn almenningi“. Þetta er ekki rétt á sjötta áratugnum var bústaðurinn opinn almenningi 17. júní þar sem ríkisstjórnin tók á móti gestum.

Um þessa helgi rífast ráðherrar enn um Huang Nubo. Ég fjalla um málið í pistli hér á síðunni.

Kolbeinn Ó. Proppé er furðufugl meðal fjölmiðlamanna. Skrif hans um stjórnmál í Fréttablaðið hníga jafnan að því að gera hlut stjórnarflokkanna og þó einkum VG sem mestan og bestan. Skrifin minna á hvernig skrifað var um Baug og Baugsmenn í blaðið fyrir hrun.

Á dögunum sagði ég frá samtali okkar Hannesar Hólmsteins á ÍNN og því sem hann hefði sagt um Svavar Gestsson og Svandísi dóttur hans þegar þau nutu sérréttinda nomenkláturunnar, forystusveitar kommúnista, í Austur-Berlín. Kolbeinn rétti Svandísi hjálparhönd með aulafyndni í húskarlahorni Fréttablaðsins. Svandís nýtir sér hjálpina og reynir að verða enn fyndnari á kostnað austur-þýskra kommúnistaflokksins á fésbókarsíðu sinni.

Þetta minnir allt á vandræðalega flissið sem sem upphefst í þessum söfnuði þegar minnst er á uppruna hans og fortíð - hvorugt breytist þó við aulabrandarana.

Laugardagur 03. 12. 11 - 3.12.2011

Það er með ólíkindum að Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra skuli gefa embættismönnum sínum fyrirmæli um að aðstoða Huang Nubo við að koma sér fyrir hér á landi á þann hátt sem honum þyki best. Katrín grípur til þessara aðgerða trú hollustu forystumanna Samfylkingarinnar við Huang.

Þegar Huang Nubo var hér í leit að fjárfestingarkostum var embættismaður í utanríkisráðuneytinu í fylgd með honum og þeir óku í bifreið sem utanríkisráðuneytið lét þeim í té í umboði Össurar Skarphéðinssonar. Huang naut lögfræðilegrar ráðgjafar Lúðvíks Bergvinssonar, fyrrverandi þingflokksformanns Samfylkingarinnar. Tryggvi Harðarson, samfylkingarmaður og vinur Huangs, er sveitarstjóri í Þingeyjarsveit. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, ritaði greinargerð og lagði fyrir ríkisstjórnina 9. nóvember þar sem hann dó taum Huangs og lagði að innanríkisráðherra að taka umsókn hans um undanþágu vel.

Samfylkingin hefur verið Huang Nubo innan handar og kveikt áhuga hans á að fjárfesta hér á landi. Hún ætlar ekki að gera endasleppt við hann og nú tekur Katrín Júlíusdóttir hann að sér.

Innan úr Samfylkingunni hafa heyrst raddir um að neitun Ögmundar hafi verið ólögmæt. Katrín Júlíusdóttir hefur nú tekið ábyrgðina á því að leiða Huang að nýju um landið, hún hlýtur að gæta að lögmæti afskipta sinna.

Ég skrifaði einnig um þetta á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.




Föstudagur 02. 12. 11 - 2.12.2011

Deilan vegna nýs fangelsis í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu er óskiljanleg nema hún sé sett í pólitískt ljós og skýrð á þann veg að Samfylkingin ætli að ná sér niðri á Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. 

Í allt sumar veltu menn því fyrir sér í fjölmiðlum hvort Ögmundur stefndi að einkaframkvæmd eða venjulegri ríkisframkvæmd. Trúr stefnu sinni og óvild í garð einkaframtaksins valdi Ögmundur að berjast fyrir byggingunni sem venjulegri framkvæmd ríkisins sem veitt yrði fé til á fjárlögum. Hann er nú lentur í ógöngum vegna andstöðu stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar.

Í um hálfa öld hafa menn unnið að því að reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Alltaf hefur verið  brugðið fæti fyrir það á síðustu stundu. Í minni ráðherratíð var unnið að málinu samkvæmt áætlun sem gerði ráð fyrir framkvæmdum á Litla Hrauni áður en þær hæfust í Reykjavík. Haustið 2008 var tillaga um fjárveitingu til Litla Hrauns tekin út úr fjárlagafrumvarpinu vegna bankahrunsins. Það var mikil skammsýni.

Rögnu Árnadóttur tókst að fá fé til að taka Bitru í notkun sem fangelsi. Bitra stendur skammt fyrir austan Selfoss.

Enginn hefur hag af því að vega að fangelsisrekstri í Árborg. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að loka kvennafangelsinu í Kópavogi og hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Því hefur verið valinn staður á Hólmsheiði. Enginn er sérstaklega ánægður með staðinn en mikilvægt er að þetta fangelsi rísi þar sem samgöngur til Litla Hrauns eru auðveldar. Í því felst gagnkvæmur styrkur.

Þessi uppákoma núna er til marks um stjórnleysi undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur. Að sjálfsögðu á hún að sjá til þess að þingmenn Samfylkingarinnar standi að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um fangelsi. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, búsettur á Selfossi telur sig styrkjast í sessi með því að segja ríkisstjórninni stríð á hendur í málinu.

Þetta minnir mig á uppreisn samfylkingarmanna gegn mér þegar gripið var til nauðsynlegra aðgerða við breytingar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Uppreisnin rann út í sandinn enda leyfði málstaðurinn ekki annað. Hún ætti einnig að gera það í þessu tilviki. Lúti Ögmundur í lægra haldi hlýtur hann að pakka saman í ráðuneytinu.

Fimmtudagur 01. 12. 11 - 1.12.2011

Samtal okkar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um bók hans Íslenskir kommúnistar á ÍNN er nú komið inn á netið og má sjá það hér.

Ég fylgdist með viðræðum Guðna Ágústssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar á Hrafnaþingi á ÍNN í kvöld og heyrði ekki betur en Jón Baldvin teldi að við ættum að semja við ESB um aðild með fyrirvara um að við hefðum sömu stöðu gagnvart evrunni og Danir. Þetta er furðuleg skoðun í ljósi þess að helsta röksemd manna eins og Jóns Baldvins fyrir aðildarumsókninni hefur verið ágæti þess að taka upp evruna.

Innan ESB eru tvö ríki undanþegin skyldu til að taka upp evru, Danmörk og Bretland. Öllum öðrum ríkjum ber að gera það fyrr en seinna eftir að þau eru dæmd hæf til þess. Danir höfnuðu því á sínum tíma í þjóðaratkvæðagreiðslu að taka upp evru. Það er fráleitt að ætla að ESB semji við einhvern um aðild á þann veg að hann fái sérstöðu Dana. Svíar höfnuðu einnig í þjóðaratkvæðagreiðslu að taka upp evru. Þeim ber hins vegar að gera það því að þeir hafa ekki sama fyrirvara og Danir. Fyrst þurfa sænsk stjórnvöld að ákveða að tala þátt í gjaldmiðlasamstarfinu, ERM II. Þau vilja  ekki gera það af því að enginn í Svíþjóð sér hag af því að taka upp evruna.

Í dag fór ég í Gunnarsholt þar sem Rotary-klúbburinn á Hvolsvelli boðaði til fróðlegrar ráðstefnu um eldgosavá sem Ísólfur Gylfi Pálmason, forseti klúbbsins og sveitarstjóri í Rangárþingi eystra stjórnaði af röggsemi. Fjölmargir fyrirlestrar voru fluttir sem brugðu ljósi á það sem gerst hefur hér á Suðurlandi og hvað kann að vera í vændum. Alvarlegustu eftirköst eldgossins í Eyjafjallajökli er framburðurinn í ánum suður undir Eyjafjöllum. Þar er um mikinn óleystan vanda að ræða. Vegagerðin glímir við hann fyrir ofan þjóðveg 1 en Landgræðsla ríkisins fyrir neðan.

Eftir ráðstefnuna sýndi Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri okkur nokkrum myndarlega og fróðlega sögusýningu sem komið hefur verið á fót í gömlu hesthúsi vestan við meginbyggingarnar í Gunnarsholti. Þar er einnig góð aðstaða til fræðiiðkana.