Dagbók: september 2009

Miðvikudagur, 30. 09. 09. - 30.9.2009

Við Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, ræddum saman í þætti mínum á ÍNN, sem sýndur verður þar í kvöld klukkan 21.30. Þáttinn má nálgast á www.inntv.is. Viðræður okkar snerust um utanríkis- og öryggismál með sérstakri áherslu á norðurslóðir.

Í tilefni af afsögn Ögmundar Jónassonar úr embætti heilbrigðisráðherra í dag ritaði ég pistil og líkti ákvörðun Ögmundar við afsögn Jóhönnu Sigurðardóttur 21. júní 1994. Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, líkti afsögn Ögmundar við brottför Björgvins G. Sigurðssonar 25. janúar sl. Sá samanburður er ekki sannfærandi. Þá nefndi Guðni Th. afsögn Jóhanns Sæmundssonar úr utanþingsstjórninni 1942 til 1944. Hvernig getur ópólitískur ráðherra sagt sig úr ópólitískri stjórn á pólitískum forsendum?

Næsta skrýtið er að hlusta á vinstri-græna þingmenn tala á þann veg, að enginn brestur sé í stjórnarsamstarfinu. Jóhanna var hins vegar ekki eins örugg með sig í fréttum kvöldsins. Í pistli mínum tel ég, að forsætisráðherratími Jóhönnu sé að renna sitt skeið. Hennar tími hefur nú staðið í átta raunalega mánuði.

 

Þriðjudagur, 29. 09. 09. - 29.9.2009

Í hádegi fluttu tveir prófessorar erindi í Norræna húsinu, Christopher Coker frá London School of Economics og Valur Ingimundarson frá Háskóla Íslands. Coker ræddi um stöðu Atlantshafsbandalagsins (NATO) og samskipti Bandaríkjanna og Evrópuríkja. Hann telur ekki skynsamlegt að stækka NATO með því að verða við óskum frá Georgíu og Úkraínu um aðild. Hann sagði auðveldara að hefja stríð en ljúka því, eins og sannaðist í Bosníu, Írak og Afganistan. NATO væri í raun ekki fært um að heyja stríð.

Miklar umræður eru nú í Bandaríkjunum um Afganistanstríðið. Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, hefur verið í Washington til viðræðna við ríkisstjórn Obama um næstu skref í stríðinu. Obama hefur fylgt þeirri stefnu, að barist skuli af þunga en nú er margt, sem bendir til þess, að hann vilji endurskoða þessa stefnu.

Valur Ingimundarson ræddi um Norðurskautið og stefnu ríkjanna, sem eiga land að Norður-Íshafinu. Hann verður gestur minn á sjónvarpsstöðinni ÍNN klukkan 21.30 á morgun 30. september. Við ætlum að ræða þetta mál. Sjá má þáttinn á www.inntv.is.

 

Mánudagur, 28. 09. 09. - 28.9.2009

Á Kastrup-flugvelli komst ég ekki hjá því frekar en aðrir, sem sátu í nágrenni mannsins, sem var í tölvusímtali tímunum saman, að heyra, að hann var að koma frá Íslandi. Þar virðist hann stunda einhver viðskipti. Hann sagðist lítið geta hreyft við þeim vegna ástandsins í landinu. Líklega væri um tapað fé að ræða, enda stefndi allt í annað hrun á Íslandi, að minnsta kosti undir þeirri ríkisstjórn, sem nú sæti.

Þetta var boðskapurinn, sem ég heyrði í Kastrup-flugstöðinni, ári eftir hrunið. Á ráðstefnunni í síðustu viku um þróun mála á norðurslóðum  í Kaupmannahöfn var meðal annars rætt um líkur á því, að Grænland yrði sjálfstætt. Nefndi einn fundarmanna Ísland sem dæmi um, að eyríki í norðri gætu ráðið við sjálfstæði sitt og fór þá hláturkliður um salinn.

Clive Archer, prófessor emeritus við Manchester háskóla, sem oft hefur komið til Íslands og sat í pallborði á ráðstefnunni sagði, að vissulega mætti álykta á þann veg, að Íslendinga hafi skort þekkingu og reynslu til að takast á við tækifærin í hnattvæddu fjármálakerfi.

Ef marka má sjónvarpið er Danmörk á öðrum endanum yfir því, að Barack Obama og frú hafa skyndilega ákveðið að koma til Kaupmannahafnar í lok vikunnar til að vinna því stuðning, að Chicago verði Olympíuborg árið 2016. Danir hafa velt því fyrir sér mánuðum saman, hvort Obama verði á loftlagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í lok desember. Síðan ákveður hann allt í einu að koma til að beita áhrifum sínum gagnvart Alþjóðaolympíunefndinni.

Sunnudagur, 27. 09. 09. - 27.9.2009

Erum komin að nýju til Sjálands að loknum rúmlega 1000 km akstri um Fjón og Jótland. Safnið um H. C. Andersen í Odense gefur góða yfirlitsmynd af skáldinu. Hann var kominn á efri ár, þegar hann hlaut viðurkenningu heimabæjar síns.

Ég endurtek þá skoðun mína, eftir að hafa farið yfir blogg og önnur skrif á heimavelli, að framtíð blaða ræðst af því, hvort þau standast breytta tíma og nýjar leiðir til að miðla fréttum og skoðunum. Ritstjórar skipta vissulega miklu en mestu skiptir, að blöð flytji og kynni efni sitt á þann hátt, að einhver vilji kaupa þau eða auglýsa í þeim.

Í kvöld bárust fréttir af sigri Angelu Merkel í Þýskalandi og tapi sósíaldemókrata. Ný stjórn kristilegra og frjálslyndra verður mynduð í landinu. Áform um skattalækkanir eru boðuð.  Sósíalistum, gömlum kommúnistum og sósíal-demókrötum, skattahækkunarflokkunum, var hafnað. Í Þýskalandi vita menn, að haldi ríkið sér til hlés eru meiri líkur á að efnahagur batni en ryðji það einkaframtakinu til hliðar, eins og er að gerast hjá okkur Íslendingum.

 

Laugardagur, 26. 09. 09. - 26.9.2009

Ókum um Jótland og gistum síðan í Gl. Ry við rætur Himmelbjerget, sem við klifum að sjálfsögðu.

 

Föstudagur, 25. 09. 09. - 25.9.2009

Fórum með ferju frá Böjde á Fjóni til Fynshavn á Jótlandi og ókum þvert yfir það og síðan með ströndinni allt norður undir Thisted, um 350 km leið. 

Dagblöð berjast víða í bökkum og þeim fækkar óðfluga, einkum í Bandaríkjunum. Nyhedsavisen sem Gunnar Smári Egilsson hleypti af stokkunum hér í Danmörku í nafni Baugs, leið undir lok og stórfé tapaðist. Danskir blaðaútgefendur þurftu að taka á honum stóra sínum til að blöð þeirra héldu lífi. Er enn mikil óvissa í dönskum blaðaheimi.

Morgunblaðið heldur enn velli og fjármagnssterkir aðilar komu að því að tryggja útgáfu þess eftir bankahrunið. Þeir hafa nú gripið enn á ný til sparnaðarráðstafana. Mörgum gömlum og góðum samstarfsmönnum mínum á blaðinu á sínum tíma hefur verið sagt upp störfum.

Nýir ritstjórar, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, hafa verið ráðnir að blaðinu.

Skiptir mestu, að nýjum eigendum takist að halda lífi í Morgunblaðinu við núverandi aðstæður. Þeir hafa fest þar mikið fé.

Baugsmiðlarnir hafa verið, eru og verða málpípur Bónusfjölskyldunnar og vina hennar. Hvernig þeir halda velli, þegar Baugsveldið er hrunið, er rannsóknarefni. Fjármálaeftirlitsins? Rannsóknarnefndar alþingis? Sérstaks saksóknara?

 

Fimmtudagur, 24. 09. 09. - 24.9.2009

Ókum frá Kaupmannahöfn til Faaborg á Mið-Fjóni. Ég hafði aldrei áður séð hið mikla mannvirki, Stórabeltisbrúna, sem tengir Sjáland og Fjón.

Utanríkisráðuneytið hefur svarað ósk Bændasamtaka Íslands um að þýða spurningalistann frá ESB neitandi. Svarið kemur á óvart miðað við hátíðlegar yfirlýsingar á alþingi á liðnum vetri, þegar ályktun um íslenska málstefnu var samþykkt. Þar segir meðal annars í greinargerð, að markmið samþykktarinnar sé, að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.

Og síðan orðrétt:

„Þá er átt við vandaða íslensku sem nýtist sem tjáningarmiðill við hvers kyns kringumstæður. Framtíðarhorfur tungumáls ráðast fyrst og fremst af stöðu þess innan málsamfélagsins en ekki af stærð málsamfélagsins. Ef tungumál er notað á öllum sviðum er staða þess sterk. Á hinn bóginn er staða hvaða tungumáls sem er veik ef það er ekki notað eða jafnvel ekki talið nothæft nema á sumum sviðum samfélagsins og það látið víkja fyrir öðrum málum. Staða íslenskrar tungu verður best treyst með því að nota íslensku sem víðast í íslensku samfélagi og á sem fjölbreyttastan hátt þannig að engin svið verði út undan. Þar er mikilvægt að þjóðin sjálf taki einarða afstöðu með íslenskri tungu.“

Utanríkisráðuneytið ber við tíma- og fjárskorti. Þess vegna verði íslenskan að víkja. Hver setur tímamörkin? Ráðuneytið sjálft á kostnað íslenskunnar. Hver skammtar fjármunina? Að lokum alþingi. Reynist ályktun alþingis um íslenska málstefnu einskis virði, þegar til kastanna kemur? Ber utanríkisráðuneytinu ekki að sjá til þess að íslenskan verði ekki út undan gagnvart ESB-sviðinu? Er það best kynnt fyrir Íslendingum á ensku? 

Miðvikudagur, 23. 09. 09. - 23.9.2009

Sat í dag ráðstefnu á vegum Dansk Institut for Militære Studier í Nordatlantens Brygge-húsinu í Kaupmannahöfn um þróun mála á norðurskautinu, undir heitinu On Thin Ice - Climate Change and Arctic Security in the 21st Century. Sjónarmið Dana með hliðsjón af Grænlandi, Bandríkjamanna, Rússa og Kínverja voru sérstaklega kynnt, auk þess sem John Ikenberry, prófessor við Princeton-háskóla, flutti fyrirlestur um stöðu og þróun alþjóðamála.

Þetta er enn ein ráðstefnan, sem haldin er um geopólitískar breytingar í okkar heimshluta. Einkennilegt er, að umræður um íslensk utanríkis- og öryggismál skuli ekki frekar snúast um þessar breytingar og áhrif þeirra á stöðu Íslands en spurninguna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, ætlar einmitt að selja Evrópusambandinu Ísland út á þessar breytingar. Hann veit sem er, að áhrifaríki innan sambandsins hafa meiri áhuga á að komast að Norðurskautinu en að Ísland gerist aðili að ESB.

Enn sannar þessi ráðstefna mér, hve fráleita og skammsýna ákvörðun Bandaríkjastjórn tók, þegar hún kallaði varnarliðið frá Íslandi.

Ég sé á vefsíðum, að Ólafur Ragnar hefur sagt eitthvað um íslenska bankamenn við Bloomberg-fréttasjónvarpið, síðan dregið það til baka og kennt fréttamanni um vitleysuna. Ég hef áður lagt til, að uatnríkisráðuneytið eigi vitni að viðtölum Ólafs Ragnars við erlenda fjölmiðla. Eftirlitsmaðurinn gæti að minnsta kosti staðfest, að Ólafur Ragnar hefði ekki sagt neina vitleysu við fréttamanninn.

Þriðjudagur, 22. 09. 09. - 22.9.2009

Bændasamtökin hafa farið þess á leit við utanríkisráðuneytið, að í samskiptum við þau og almennt innan íslensku stjórnsýslunnar verði notuð íslenska til að undirbúa svör til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna 2.500 spurninga hennar. Fyrsta bréf sitt rituðu samtökin 11. september. Utanríkisráðuneytið hefur ekki enn svarað því. Kannski þurfa Bændasamtökin að skrifa ráðuneytinu á ensku, svo að það svari?

Mánudagur, 21. 09. 09. - 21.9.2009

Meðvindur var svo mikill  (200 km) með Icelandair-vélinni til Kaupmannahafnar í morgun, að ferðin tók 2 tíma og 25 mínútur - við fórum á meira en 1000 km hraða að sögn flugstjórans.

Óperuhúsið í Kaupmannahöfn er glæsilegt og sýningin á Eugen Onegin, sem við sáum þar í kvöld, var skemmtileg, uppsetningin eftirminnileg og söngurinn.  Ég er hins vegar ekki aðdáandi tónlistar Peters Tjajkovskijs.

 

Sunnudagur, 20. 09. 09. - 20.9.2009

Þótt spáð hefði verið mikilli rigningu á Suðurlandi í dag, var veðrið gott í Fljótshlíðarrétt í morgun. Í fyrrinótt gránuðu fjöll eins og sjá mátti á Heklu, þegar við héldum af stað í smalið og það þurfti að skafa frost af bílrúðum í birtingu við rætur Fljótshlíðar. Í morgun var hins vegar, hvassara, hlýrra og meiri væta. Fjöldi manns var í réttunum og lauk þeim  að mestu uppúr hádeginu.

Í kvöldfréttum var boðað, að auka ætti tekjuöflun ríkissjóðs um 28 milljarði króna með því að hækka skatta og finna nýja. Vinstri-grænir hafa aldrei skilið, að auka megi tekjur ríkssjóðs með því að lækka skatta. Þótt tölur hafi sannað þetta, hafa þær sannanir ekki dugað til að hafa áhrif á skoðanir Steingríms J. og Ögmundar. Nú hafa þeir ákveðið með Samfylkingunni að lækka laun einstaklinga og hækka á þá skatta. Flest fyrirtæki eru beint eða óbeint komin undir forsjá ríkisins. Gengist er undir Icesave-skuldaokið og látið eins og það sé illmennska að sætta sig ekki möglunarlaust við það. Slegin er skjaldborg um þjóðina út á við með því færa stjórn fiskveiða í hendur Evrópusambandsins og leggja af íslenskan landbúnað. Um þetta allt hefur ríkisstjórnin myndað 20/20 sóknaráætlun undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Engan þarf að undra, að þeir, sem þannig stjórna, segist ætla að vaða eld og brennistein til að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum.

Laugardagur, 19. 09. 09. - 19.9.2009

Smölun okkar Fljótshlíðinga gekk vel í dag í prýðilegu veðri. Það liðu tólf tímar, frá því að ég fór að heiman og kom heim aftur. Ég sat mestan tímann á hestbaki, á Breka mínum, sem reyndist mér vel, hræðist hvorki keldur né einstigi um lækjargil, þótt sleip séu eftir miklar rigningar undanfarið

Fé hefur fækkað síðan ég smalaði síðast, 2006. Dilkarnir koma vel af fjalli. Beitarlandið er grösugt og þar sést viða í víði, sem er skýrt merki um, að ekki sé um ofbeit að ræða. Bændur sjá merki þess að skordýrum fjölgar, því að fuglar tæta landið meira en áður.

Ég fór austan Rangár norður fyrir Hafrafell og inn undir Austurdal, áður við var snúið og féð síðan rekið austan Þríhyrnings niður í gegnum Lambalækjarlandið og í réttarhólfið við Goðaland. Réttað verður á morgun.

Í 1. gr. laga um ríkisábyrgð vegna Icesave segir.

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Fráleitt er láta sér til hugar koma, að ríkisstjórnin geti breytt þessu ákvæði með bráðabirgðalögum, þótt Jóhanna og Steingrímur J. velti þeim kosti fyrir sér.

Hinn 5. september birti ég eftirfarandi tillögu hér á síðunni:

Hér er tillaga um málsmeðferð í Icesave-málinu eftir samþykkt alþingis á fyrirvörunum: 

Íslensk stjórnvöld sendi skriflega orðsendingu til stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi, þar sem tilkynnt er um fyrirvarana og þeir skilmerkilega tíundaðir. Óskað verði skriflegs svars frá Bretum og Hollendingum með samþykki þeirra, þar sem tekið yrði fram að fyrirvararnir séu jafngildir öðrum ákvæðum samkomulagsins og ekki beri að túlka nein ákvæði upphaflegs samningstexta á annan veg en leiddi af fyrirvörunum.

Á þennan hátt geta málsvarar fyrirvaranna á alþingi tryggt, að þeir verði örugglega virtir. Hér yrði einnig gengið til afgreiðslu málsins fyrir opnum tjöldum en ekki á lokuðum fundum. Icesave-málið er prófsteinn á heilindi ríkisstjórnarinnar við gæslu hagsmuna þjóðarinnar út á við. Falli hún á þessu prófi, fær hún einnig endanlega falleinkunn á ESB-prófinu, hvað sem spurningunum 2.500 líður.


 

Föstudagur, 18. 09. 09. - 18.9.2009

Það rigndi töluvert í Fljótshlíðinni í dag en ég bjó mig undir göngurnar á morgun, þegar spáð er betra veðri.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, tók sögulega ákvörðun og kynnti hana í gær um að falla frá áformum um gagneldflaugakerfi í Tékklandi og Póllandi. Tvær ástæður eru tilgreindar: Íranir séu ekki eins nálægt því að eignast langdrægar eldflaugar með kjarnavopnum og áður var talið. Bandaríkjamenn ætli að beita annarri og einfaldari tækni til að snúast gegn eldflaugahættunni.

Kúvending Bandaríkjastjórnar minnir á einhliða sinnaskipti Jimmys Carters, þegar hann tilkynnti, að hann væri hættur við að flytja nifteindarsprengjur til V-Þýskalands. Helmut Schmidt, kanslari, tók sinnaskiptunum mjög illa og taldi þau til marks um, að ekki væri unnt að treysta Bandaríkjamönnum, þeir skildu póltíska bandamenn sína eftir á berangri, ef og þegar þeim hentaði.

Svipaðar raddir heyrast nú frá Póllandi og Tékklandi. Þar var litið á bandarísku gagneldflaugastöðvarnar sem fótfestu gegn hugsanlegum yfirgangi Rússa. Stjórnmálamenn lögðu hart að sér við að sannfæra kjósendur um nauðsyn stöðvanna eins og Schmidt forðum.

Obama segist að sjálfsögðu ekki ætla að slá neitt af gagnvart Rússum. Hið sama sagði Carter á sínum tíma en þó var þess vænst, að Rússar myndu draga úr hervæðingu sinni í Austur-Evrópu, því að nifteindarsprengjan hafði verið fleinn í holdi þeirra eins og gagneldflaugastöðvarnar nú. Rússar drógu ekki í land á tímum kalda stríðsins heldur færðust í aukana gagnvart Vestur-Evrópu. Hvað skyldu þeir gera nú gagnvart nágrönnum sínum, Georgíu og Úkraínu?

Ég skrifaði pistil um ritstjóraskipti á Morgunblaðinu.

Fimmtudagur, 17. 09. 09. - 17.9.2009

Var í Háskólanum í Reykjavík klukkan 13.30 og ræddi við MBA-nema um nýskipan lögreglumála undir þeim formerkjum að lýsa hlutverki leiðtoga við breytingastjórn. Kanadískur prófessor hefur skrifað um ferlið frá því í nóvember 2003 fram til 1. janúar 2007, þegar unnið var að nýskipan lögreglumála með fækkun umdæma úr 26 í 15.

Líflegar umræður voru um efnið og spurningar fleiri en tíminn leyfði. Er gaman að kynnast því, hve þátttakendur í náminu eru virkir í tímum sem þessum. Spurningunum rigndi yfir mig.

Á leiðinni austur í Fljótshlíð heyrði ég fréttir af óformlegu svari Breta og Hollendinga við Icesave-fyrirvörunum. Þeir hafna greinilega mikilvægum þætti fyrirvaranna og þingflokkur sjálfstæðismanna segir ekki unnt að samþykkja svörin. Jóhanna Sigurðardóttir virtist vilja hespa málið af, sem kemur ekki á óvart, því að það hefur frá upphafi verið stefna hennar og Samfylkingarinnar. Steingrímur J.  var á móti fyrirvörunum, svo að honum er sama, þótt Bretar og Hollendingar séu það líka.

Hið furðulega í þessu máli er, að ríkisstjórnin vill samþykkja afarkosti en alþingi tók fram fyrir hendur á henni. Nú eru oddvitar ríkisstjórnarinnar enn á máli þeirra, sem vilja setja þjóðinni afarkosti.

Fram í myrkur vorum við að ná í hesta og járna til að búa okkur undir leitirnar um helgina.

Miðvikudagur, 16. 09. 09. - 16.9.2009

Í dag hitti ég Guðna Ágústsson og tók við hann viðtal í þátt minn á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Viðfangsefnið varð alvarlegra í samtali okkar en ég vænti. Við því var þó að sjálfsögðu að búast með vísan til þess, að rætt var um bankahrunið og stöðu stjórnmála á líðandi stundu.

Tilefni þess, að ég ræddi við Guðna er viðtal Jakobs F. Ásgeirssonar við hann í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar skýrir Guðni í fyrsta sinn sína hlið mála, frá því að hann sagði skilið við beina þátttöku í stjórn landsmála 17. nóvember 2008.

Guðni sagði, að skömmu eftir bankahrunið hefði samfylkingarfólk tekið til við að undirbúa stjórnarslit við sjálfstæðismenn með þeim rökum, að þeir mættu ekki eiga ítök í endurreisninni, fá yrði nýja menn í hana. Snýr þetta að hinu sama og ég segi í grein í Þjóðmálum um bækur um hrunið, að í raun hafi Samfylkingin viljað snúa sér að samstarfi við aðra strax fyrstu dagana í október. Það sýni bréf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til Geirs H. Haarde frá 8. október 2008.

Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, bendir á þá augljósu leið út úr húsnæðisvanda fangelsismálastofnunar að auglýsa eftir húsnæði. Þegar ég orðaði þá leið um árið, að huga að einkaframkvæmd til fjölgunar fangarýma, ruku of margir upp til handa og fóta af hneykslan. Nú heyri ég engar gagnrýnisraddir á hugmynd Rögnu. Stundum getur verið erfitt að vera á undan tímanum.

Þriðjudagur, 15. 09. 09. - 15.9.2009

Alþingi samþykkti 16. júlí að óska eftir viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Í skoðanakönnun á vegum Samtaka iðnaðarins, sem birt var í dag, tveimur mánuðum eftir að umræður ESB-aðild voru í hámarki, kemur fram, að andstaða við aðild að ESB hefur aukist meðal landsmanna á þeim tíma, sem síðan er liðin, þrátt fyrir komu sendimanna ESB til landsins og alls kyns yfirlýsingar frá útlöndum um, að Íslandi yrði fagnað sem nýjum félaga í klúbbnum og reynt að flýta inngöngu eins og frekast sé kostur.

Olli Rehn og félögum hans í stækkunardeild ESB er ljóst, að þeim er ekki fagnað hér á landi á sama hátt og annars staðar. Þeim er einnig ljóst, að annar stjórnarflokkurinn er andvígur aðild, þótt hann hafi samið um að styðja ósk um viðræður til að ná í ráðherrastóla. Þá skýrist fyrir þeim núna, að meðal almennings er ekki áköf þrá eftir að komast í ESB. Spyrja má: Hvers vegna skyldu þeir leggja mikið á sig til að ljúka mati á ósk Íslands um  viðræður?

Óðagotið við að svara 2.500 spurningum ESB undir stjórn utanríkisáðuneytisins er með öllu óskiljanlegt. Hvers vegna er lagt svona hart að ráðuneytum að svara þessum spurningum á mettíma? Við hvern er verið að keppa? Væri ekki nær, að embættismenn einbeittu sér að einhverju öðru?

Málsmeðferð hér heima fyrir frá 16. júlí undir forystu utanríkisráðuneytisins hefur ekki orðið til þess að afla ESB-málstað ríkisstjórnarinnar fylgis. Þótt gert sé tvennt af öllu, umsókn afhent tvisvar og spurningalistar afhentir tvisvar, hefur það hvorki orðið til að auka traust né vinsældir.  

Mánudagur, 14. 09. 09. - 14.9.2009

Samkvæmt fréttum RÚV hefur utanríkisráðuneytið áform um að birta svörin við 2.500 spruningum ESB á netinu. Það eykur gegnsæi. Samkvæmt fréttinni er verið að knýja fram svör ráðuneyta um þessar mundir, svo að utanríkisráðuneytið hafi tíma til að samræma þau fyrir 16. nóvember. Erfitt er að átta sig á nauðsyn þessa hraða.

Jafnframt kemur fram, að í svörunum kunni að birtast upplýsingar um öryggis- og varnarmál, sem þurfi að fara leynt. Æskilegt væri, að þessi fullyrðing yrði skýrð betur. Ísland ræður ekki yfir eigin herafla og er því utan þess samstarfs hjá ESB - eða hvað? Til að verða gjaldgeng í samstarfi á sviði öryggismála þarf að setja löggjöf um íslenska leyniþjónusti. Íslendingar eru aðilar að Schengen-samstarfinu en öryggisgildi þess sést til dæmis af þátttökunni í Europol, Evrópulögreglunni, sem Ísland tengist á grundvelli Schengen, af því að við erum utan ESB.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, ritaði tímabæra grein í Morgunblaðið  sunnudaginn 13. september um landamæravörslu lögreglunnar og gildi Schengen-samstarfsins fyrir landamæravörsluna. Það er lífsseigur misskilningur, að Schengensamstarfið opni landið fyrir útlendingum, það eru EES-reglurnar. Án aðildar að Schengen og Frontex, landamærastofnun Evrópu, stæðum við mun verr að vígi við landamæravörslu. Sigríður Björk segir meðal annars:

„Einnig má nefna annan mikilvægan þátt í starfsemi lögreglunnar á Suðurnesjum, en það eru samskiptin við Landamærastofnun Evrópu, Frontex, sem embættið annast fyrir hönd Íslands. Samskiptin við Frontex krefjast mikillar sérþekkingar lögreglumanna í flugstöðvardeildinni. Samstarfið milli aðildarlandanna er bæði mikið og náið og krefst stöðugrar árvekni. Krefjandi þjálfun á alþjóðlegum vettvangi er því mikilvægur þáttur í störfum lögreglumannanna. Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu krefst einnig sérhæfðrar þekkingar og nákvæmra vinnubragða við vegabréfaskoðun svo hindra megi för eftirlýstra glæpamanna inn í landið og annarra er óæskilegir teljast af ýmsum ástæðum.“

Með hinni nýju flugvél landhelgisgæslunnar hafa skilyrði til eftirlits á hafi tekið byltingarkenndum breytingum. Hún er fullkomnasta eftirlitsvélin með fasta viðveru á hafsvæðinu frá Grænlandi til Noregs.

Sunnudagur, 13. 09. 09. - 13.9.2009

Ég vakti máls á því í pistli hér á dögunum, að eðlilegt væri að þýða 2.500 spurningar ESB til Íslendinga á íslensku og einnig birta svör við þeim á íslensku á netinu, til að ekkert færi á milli mála. Vegna þessa hef ég sætt gagnrýni frá Friðriki Jónssyni, formanni framsóknarmanna á Akranesi og starfsmanni utanríkisráðuneytisins. Hann segir á bloggsíðu sinni, að þetta sé tæplega marktækt sjónarmið í umræðum um ESB-aðildina. Hvort ég hafi ekki átt samskipti um Schengen-málefni og annað á ensku. Það sé háttur íslenskra embættismanna að semja við aðrar þjóðir á ensku.

Að sjálfsögðu eiga íslenskir embættismenn almennt ekki samskipti við aðrar þjóðir á íslensku. Aðild að Evrópusambandinu er hins vegar mál af þeirri stærð, að um hana gilda sérreglur. Til dæmis er ljóst, að ekki verður af aðild nema meirihluti landsmanna samþykki hana í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við þær aðstæður skiptir miklu, að allar upplýsingar séu við hendi kjósenda, þar á meðal spurningar og skilyrði Evrópusambandsins.

Oft heyrist kvartað undan því, að fólk viti ekki um hvað ESB-aðild snúist. Til að auðvelda mönnum að átta sig á því, má benda á spurningalista ESB. Hann kemur þó ekki að gagni að þessu leyti nema hann sé á íslensku. Þótt embættismenn ræði við annarra þjóða menn á ensku, er ekki unnt að leggja mál um stöðu þjóðarinnar undir atkvæði hennar og segja kjósendum að lesa enska texta til að átta sig á því, hvað hangir á spýtunni.

ESB-aðildarsinnum eins og Friðriki Jónssyni kann að liggja mikið á að komast í fyrirheitna landið. Meirihluti þjóðarinnar er hins vegar annarrar skoðunar og honum á að gefa tækifæri til að átta sig sem best á öllum málavöxtum. Varla er Friðrik á móti því? Hann getur ekki talið, að góð kynning á spurningum og skilyrðum ESB dragi enn úr áhuga Íslendinga á aðild?

Laugardagur, 12. 09. 09. - 12.9.2009

 Í fréttum RÚV klukkan 08.00 mátti heyra þessa frétt:

„Væru Írar ekki í Evrópusambandinu væru þeir jafn illa staddir og Íslendingar, stuðningur og öryggisráðstafanir Evrópusambandsins komu í veg fyrir að Írland stefndi í gjaldþrot eins og Ísland. Þetta segir Margot Wallström, fyrsti varaforseti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í viðtali við dagblaðið Evening Herald í Dyflinni. Wallström er á Írlandi til að afla Lissabon-sáttmálanum fylgis. Írar höfnuðu honum í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní í fyrra en greiða atkvæði um hann að nýju 2. október. Wallström segir Evrópusamstarfið mikla blessun fyrir Íra, ekki síst á erfiðleikatímum eins og um þessar mundir.

Enginn þurfi að elska Evrópusambandið, menn eigi hins vegar að nýta möguleika þess. Það sé enginn tilviljun að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu þegar þeir sjái það skjól sem sambandið veiti Írum og þá samstöðu sem þeir njóti þar á erfiðum tímum.“

Ég hef ekki skoðað þetta viðtal í Evening Herald  í Dyflinni. Sé rétt eftir Wallström haft, sýnir það aðeins, hve málsvarar ESB leyfa sér að ganga langt í áróðri sínum. Þarna segir Wallström, að Ísland sé gjaldþrota, af því að landið sé utan ESB. Siðan eru lokaorðin merkileg. Íslendingar hafa ekki sótt um aðild, þeir hafa sótt um að ræða við ESB og taka síðan ákvörðun um aðild. Í Brussel líta menn ekki þeim augum á málið og skrökva síðan að Írum til að fá þá í lið með Lissabon-sáttmálanum.

Hér á landi er látið í veðri vaka, að sú meginfrétt hafi farið fram hjá öllum, að OIli Rehn hafi í ræðu sinni í Háskóla Íslands 9. september gefið til kynna, að fyrir lægi ESB-áætlun í þágu efnahags Íslendinga, ef þeir gerðust ESB-aðilar. Þeir Össur og Olli hafi gengið frá einhverju leynilegu samkomulagi um þetta, en málið farið fram hjá fjölmiðlamönnum, þó hafi verið minnst á það í hádegisfréttum miðvikudaginn 9. september. 

Olli Rehn kvartaði undan því í ræðu sinni hér, að sögusagnir og samsæriskenningar væru notaðar til að sverta ESB. Hvernig væri, að hann og Össur segðu afdráttarlaust frá því, ef þeir hafa samið um einhver efnahagsúrræði fyrir Íslendinga? Eða er hér aðeins verið að kveikja villuljós eins og frú Wallström gerði í Evening Herald?

Föstudagur, 11. 09. 09. - 11.9.2009

Ræddi við þá félaga í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Ég sagðist stoltur af framgangi lögreglunnar við að upplýsa innbrot síðustu daga og nú í dag stórfellt smygl eiturlyfja. Þetta tækist ekki nema með yfirlegu og greiningarstarfi. Auðvitað væri nauðsynlegt að fjölga lögreglumönnum. Þeir, sem væu við störf stæðu sig með miklum ágætum.

Þeir spurðu um fangelsismál. Ég sagði, að unnið hefði verið eftir áætlun um uppbyggingu fangelsa. Við niðurskurð fjárlaga árið 2009 hefði áætlunin raskast. Ég fagnaði því hins vegar, að Páll Winkel, fangelsismálastjóri, hefði viðrað samstarf við einkaaðila um húsnæði fyrir fanga, það er fangelsi. Þetta hefði ég nefnt fyrir nokkru og þá hefðu menn brugðist illa við.

Nú þykir mér eins og meiri skilningur sé á því en áður, að ríkið þurfi ekki endilega að eiga húsnæði, sem nota má sem fangelsi. Að sjálfsögðu skiptir ekki máli, hver er eigandi fangelsa heldur að þau nýtist til að framfylgja lögum og rétti.. 

Fimmtudagur, 10. 09. 09. - 10.9.2009

Í dag var þess minnst með hátíðlegri athöfn í Listaháskóla Íslands í Laugarnesi að 10 ár eru liðin frá því að Listaháskóli Íslands tók til starfa undir stjórn Hjálmars H. Ragnarssonar, rektors. Skólinn hefur vaxið og dafnað á þessum áratug og skapað sér sess hér heima og í alþjóðlegu samstarfi. Hugmyndafræðin á bakvið hann rætist þó ekki til fulls, fyrr en starfsemi hans verður öll undir einu þaki en hann starfar enn á þremur stöðum.

Hér má lesa ræðu, sem ég flutti við setningu skólans.

Í dag ritaði ég pistil hér á síðuna um spurningalista ESB. Einkennilegt er, ef þess er krafist, að honum skuli svarað á ensku. Ég spyr: Er íslenska ekki lengur mál íslensku stjórnsýslunnar? Verða svörin ekki birt á íslensku á vefsíðu utanríkisráðuneytisins?

Miðvikudagur, 09. 09. 09. - 9.9.2009

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, flutti í dag erindi í hátíðarsal Háskóla Íslands í tilefni af komu sinni hingað til að afhenda Jóhönnu Sigurðardóttur 2500 spurningar frá framkvæmdastjórn ESB, sem hún þarf að fá svarað í nóvember, svo að hún geti lagt mat á aðildarumsókn Íslands. Spurningarnar eru birtar á netinu.

Nýlega var sagt frá því, að Svartfellingar hefðu ráðið 1000 manns til að svara sambærilegum lista vegna ESB-aðildarumsóknar þeirra. Hér er ætlunin, að embættismenn ráðuneyta svari í hjáverkum. Svörin við spurningunum eru misjafnlega löng, þeim ber að skila á ensku. Nefnt er, að blaðsíður með svörunum hafi í sumum löndum nálgast 50.000. Í Baugsmálinu var sagt, að málsskjölin væru um 20.000 blaðsíður og þótti mörgum nóg um.

Í dag fluttu fjölmiðlar fréttir af því, að umboðsmaður alþingis hefði 4. september gefið álit á ráðningu Einars Karls Haraldssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns Össurar Skarphéðinssonar, til Landspítalans. Umboðsmaður gagnrýnir, hvernig að málinu var staðið af hálfu Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra spítalans, og segir hana til dæmis hafa skýrt rangt frá því, hvað knúði á um ráðningu Einars Karls. Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú ráðið Einar Karl sem upplýsingafulltrúa sinn. Samkvæmt áliti umboðsmanns hefði átt að auglýsa það starf en ekki ráða Einar Karl beint.

Hulda Gunnlaugsdóttir hefur nú verið ráðin til að aðstoða Ögmund Jónasson í heilbrigðisráðuneytinu. Spyrja má, hvort Ögmundur hefði ekki átt að auglýsa það starf.

Ráðherrar þurfa ekki að auglýsa starf eins aðstoðarmanns en meginreglan er, að önnur störf skuli auglýst. Eftir höfðinu dansa hins vegar limirnir. Úr því að sjálf Jóhanna, sem í stjórnarandstöðu var alltaf með vöndinn á lofti gagnvart ráðherrum, ræður Einar Karl án auglýsingar, telja minni spámenn í ríkisstjórninni sér heimilt að gera slíkt hið sama.

Stöð 2 sagði í dag, að 12 ráðherrar væru nú með 17 aðstoðarmenn.

 

Þriðjudagur, 08. 09. 09. - 8.9.2009

Í dag fékk ég að kynnast TF SIF, hinni nýju flugvél landhelgisgæslunnar, og fullkomnum tæknibúnaði um borð í henni. Vélin var tekin í notkun 1. júlí og hefur reynst afar vel. Tækjakostur hennar veldur byltingu í öllu eftirliti á Norður-Atlantshafi. Svíar eiga þrjár eins vélar og hefur reynst hagkvæmt að hafa átt samleið með þeim. Miklu skiptir, að þannig sé um hnúta búið, að vélin nýtist sem best og ætti til dæmis að huga að enn nánara samstarfi við Dani og Norðmenn.

Danir hafa ákveðið að efla styrk sinn á norðurslóðum með því að sameina herstjórnir sínar í Færeyjum og Grænlandi. Er á döfinni að velja stað fyrir nýja, sameiginlega herstjórn. Brýnt er fyrir landhelgisgæsluna að tengjast henni sem best. Með nýja varðskipinu Þór næsta sumar og nýju flugvélinni ráða Íslendingar yfir fullkomnustu eftirlits-, leitar- og björgunartækjum, sem gagnast munu þjóðinni og öllum, sem leggja leið sína um N-Atlantshaf, í marga áratugi.

 

 

Mánudagur, 07. 09. 09. - 7.9.2009

Qi gong æfingar hófust að nýju að Efstaleiti í morgun klukkan 08.10 og var þátttaka góð. Gunnar Eyjólfsson leiddi fyrsta tímann. Ákveðið hefur verið að bjóða einnig tíma klukkan 07.00 á sama stað og sömu daga, það er mánudaga, miðvikudaga og föstudaga.

ESB-aðildarsinnar, sem segja veika krónu helstu ástæðu áhugans á aðild, hafa ekki vakið sérstaka athygli á ummælum Nóbelsverðlaunahafans Josephs Stiglitz um að Íslendingar eigi að halda í krónuna sína. Hann bar saman Svía og Finna, en báðar þjóðir glímdu við erfiða fjármálakreppu á níunda áratugnum. Svíar halda í krónuna sína og hafa um langt árabil búið við gott atvinnuástand og raunar þurft að flytja inn vinnuafl. Finnar eru með evru. Þar er viðvarandi atvinnuleysi upp á 10%.

Hitt er síðan dæmigert, að Steingrímur J. Sigfússon verður kindarlegur, þegar Stiglitz orðar þann kost, að Ísland losi um tengslin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Fyrir þá, sem muna það ekki, töldu vinstri-grænir undir forystu Steingríms J. óráðlegt að halla sér að AGS. Nú segir Steingrímur J. að menn verði að hugsa AGS-málið vel. Stjórn AGS hefur ekki treyst sér til að taka mál Íslands á dagskrá síðan stjórn mála hér komst í hendur Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J.

Sunnudagur, 06. 09. 09. - 6.9.2009

Í fréttum sjónvarpsins var sagt, að ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja fram tillögur um endurupptöku á eignarskatti og erfðafjárskatti samhliða því sem tekjuskattar og virðisaukaskattur verða hækkaðir.  Laun Jóhönnu Sigurðardóttur hafa verið sett sem hámarkslaun hjá ríkinu. Viðskiptum við útlönd er stjórnað með gjaldeyrishöftum. Stór hluti fyrirtækja landsins er í forsjá ríkisvaldsins. Ákvarðanafælni hefur einkennt stjórn bankakerfisins. Loks verður dregið saman í rekstri ríkis og sveitarfélaga eins og frekast er kostur.

Öllum er okkur ljóst, að gera verður ráðstafanir til að styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Hækkun skatta er ekki rétta leiðin til þess. Lækkun skatta hefur leitt til meiri umsvifa og þar með hærri tekna ríkissjóðs. Hækkun skatta dregur úr framkvæmdavilja og þrengir fjárhagslegt svigrúm einstaklinga og fyrirtækja. Stefnan, sem lýst var í sjónvarpinu, hljómaði eins og hefndarstefna af hálfu vinstri-grænna undir forystu Steingríms J. Sigfússonar - hefndarstefna gegn þeim, sem stóðu að skattalækkunum, þrátt fyrir andmæli vinstri-grænna. Að hækka skatta núna er líkast því að sparka í liggjandi mann og halda, að það flýti fyrir bata hans.

Vilji vinstri-grænir ná sér niðri á sjálfstæðismönnum, eins og sýnist þrauta-röksemd Steingríms J. fyrir að svíkja öll helstu kosningaloforð sín, ættu þeir að láta sér nægja að ráðast á þá með skömmum og svívirðingum, en ekki láta heiftina bitna á öllum almenningi með því að hrinda fráleitri efnahagsstefnu sinni í framkvæmd.

Morgunblaðið tekur undir með Þorsteini Pálssyni í dag með kröfu um að sjálfstæðismenn leggi ríkisstjórninni lið við að hrinda ESB-aðildarstefnu hennar í framkvæmd. Næst verður þess krafist, að sjálfstæðismenn leggi Steingrími J. lið við að hækka skatta, eins og Morgunblaðið vildi, að Icesave-samningurinn færi hraðleið Steingríms J. í gegnum þingið. Nú leyfir hann sér að segja, að ákvarðanir alþingis breyti engu um samninginn en hælir sjálfum sér í sömu andrá sem þingræðissinna.

 

 

Laugardagur, 05. 09. 09. - 5.9.2009

Mér sýnist á samtali þeirra Kolbrúnar Bergþórsdóttur og Þorsteins Pálssonar í Morgunblaðinu í dag, að Þorsteinn telji, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að rétta ríkisstjórninni hjálparhönd til að koma umsóknarferlinu gagnvart Evrópusambandinu af stað. Þetta er einkennilegt sjónarmið.

Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar í ESB-málum geta sjálfum sér um kennt, hvernig málið hefur klúðrast. Óðagotið á alþingi, vesældarlegur texti í áliti meirihluta utanríkismálanefndar og málatilbúnaðurinn allur hefur í raun borið dauðann í sér. Að það sé hlutverk sjálfstæðismanna að blása lífi í andvana fædda aðildarumsókn er fjarri öllu lagi.

Aðildarsinnum innan Sjálfstæðisflokksins hefði verið nær að fylkja sér á bakvið samþykkt landsfundar flokksins og tryggja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu í því skyni að ná sem víðtækastri sátt í málinu. Í stað þess völdu þeir leið sammala.is og núverandi ógöngur.

Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, kemur í næstu viku með 2.500 spurningar til stjórnarráðsins. Embættismenn hafa fengið fyrirmæli um að svara þeim á methraða. Til hvers? Er ekki annar stjórnarflokkanna á móti aðild? Þarf hann lengri tíma til að máta hana?

Hér er tillaga um málsmeðferð í Icesave-málinu eftir samþykkt alþingis á fyrirvörunum: 

Íslensk stjórnvöld sendi skriflega orðsendingu til stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi, þar sem tilkynnt er um fyrirvarana og þeir skilmerkilega tíundaðir. Óskað verði skriflegs svars frá Bretum og Hollendingum með samþykki þeirra, þar sem tekið yrði fram að fyrirvararnir séu jafngildir öðrum ákvæðum samkomulagsins og ekki beri að túlka nein ákvæði upphaflegs samningstexta á annan veg en leiddi af fyrirvörunum.

Á þennan hátt geta málsvarar fyrirvaranna á alþingi tryggt, að þeir verði örugglega virtir. Hér yrði einnig gengið til afgreiðslu málsins fyrir opnum tjöldum en ekki á lokuðum fundum. Icesave-málið er prófsteinn á heilindi ríkisstjórnarinnar við gæslu hagsmuna þjóðarinnar út á við. Falli hún á þessu prófi, fær hún einnig endanlega falleinkunn á ESB-prófinu, hvað sem spurningunum 2.500 líður.

 

 

Föstudagur, 04. 09. 09. - 4.9.2009

Í morgun ók upp í Reykholt í Borgarfirði og flutti þar stutt setningarávarp á ráðstefnu um forna þingstaði við N-Atlantshaf. Þingvellir eru þar í fyrsta sæti og eini staðurinn, sem hefur verið festur á heimsminjaskrá UNESCO. Hugmyndin er, að þingstaðir í öðrum löndum verði hluti af raðskráningu með Þingvelli sem flaggskip. Nú hefur fengist fé úr sjóðum Evrópusambandsins til að halda þessu verkefni lifandi og stuðla að frekari rannsóknum. Íslendingar, Norðmenn, Færeyingar, Skotar og Manarbúar koma að verkefninu.

Í fyrra sat ég ráðstefnu um sama efni í Gulen í Noregi, þar sem menn hafa reist minnisvarða um Gulaþing. Magne Bjergene hafði frumkvæði að þessu verkefni í Noregi og sýndi okkur mikla vináttu og gestrisni í ferðinni. Hann er nú látinn og sömu sögu er að segja um Sigurð K. Oddsson, þjóðgarðsvörð, sem var frumkvöðull í málinu hér fyrir hönd Þingvallanefndar. Minntist ég þeirra beggja í ávarpsorðum mínum.

Ég skrifaði pistil hér á síðuna í dag um mat norska sendiherrans gagnvart ESB á EES-samningnum, sem er að sjálfsögðu í fullu gildi.

Fimmtudagur, 03. 09. 09. - 3.9.2009

Hér er tenging á samtal okkar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Svartbók kommúnismans á sjónvarpsstöðinni ÍNN, sem fyrst var sent 2. september.

Egill Helgason telur, að athugasemd mín hér á síðunni í gær um íhlutun OECD í íslensk innanríkismál byggist á því, sem hann kallar „móðgunargirni“. Ef ég ætti að finna eitthver gildishlaðin orð yfir þessa skoðun Egils dytti mér í hug „minnimáttarkennd“ eða „útlendingasmjaður“.

Íslensk fjölmiðlun er orðin svo heltekin af því, að Íslendingar verði að bukka sig og beygja, heyrist eitthver gagnrýni frá útlöndum, samanber hnjáliðamýkt Morgunblaðsins gagnvart Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu, að nú verða menn að leita út fyrir landsteinana til að kynnast viðhorfum álitsgjafa, sem setja íslensk málefni í eðlilegt samhengi. Þetta gerðist í Icesave og einnig nú þegar OECD birtir skýrslu sína. Þá snýr norskur blaðamaður, Thomas Vermes á norska fréttavefnum ABC, sér til málsvara OECD og spyr, hvort nokkuð sé meira að marka þá núna, en þegar OECD lofaði frelsisvæðingu bankanna sem allir telji nú að eigi mestan þátt í „efnahagsharmleik Íslands“.

Í greininni rifjar Vermes upp umsögn í skýrslu samtakanna árið 2006:

„Fjármálamarkaðurinn á Íslandi blómstrar og aðgangur að fjármagni hefur batnað mjög. Eftirlit með  starfsemi á fjármálmörkuðum hefur verið aflétt, viðskiptabankar hafa verið einkavæddir og geirinn opnaður fyrir alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Þessi frjálshyggjustefna hefur sýnt aðdáunarverðan árangur og skal haldið áfram.“ 

Nú segja málsvarar OECD, að eftirlitið á Íslandi hafi brugðist. Bankarnir hafi orðið alltof stórir, til að lúta stjórn kerfisins. Þeir hafi orðið fyrir höggi, sem OECD hafi ekki séð fyrir. Nú myndu þeir leggja meiri áherslu á gildi eftirlits og að bankakerfið yrði ekki of stórt. 

Þegar álitsgjafinn Egill segir, að það sé „móðgunargirni“ að spyrja spurninga vegna skýrslu OECD og ráða þaðan til Íslendinga, sýnir það enn, hve ósýnt honum er um að setja mál í samhengi.

 

 

Miðvikudagur, 02. 09. 09. - 2.9.2009

Í kvöld kl. 21.30 var ég með annan þátt minn á sjónvarpsstöðinni ÍNN og ræddi við Hannes Hólmstein Gissurarson umSvartbók kommúnismans, sem var að koma út hjá Háskólaforlaginu í þýðingu Hannesar. Hafi einhver verið í vafa fyrir þáttinn um skoðanir okkar Hannesar á kommúnismanum, var þeim vafa eytt í samtali okkar.

Ástæða er til að velta fyrir sér, hvernig staðið er að því á vegum Reykjavíkurborgar að halda götum, gangstéttum, bílastæðum og grænum svæðum hreinum. Þegar fjölgar í borginni eftir sumarleyfi eykst ruslið enn á þessum svæðum. Skólar ættu að hafa það sem hluta af kennslu sinni í lífsleikni að fela nemendum að halda lóðum og næsta umhverfi skólanna hreinu, á þetta bæði við um framhaldsskóla og grunnskóla. Þá verða seljendur matar og drykkjarvöru, sem unnt er að neyta utan dyra að bera ábyrgð á hreinlæti í næsta nágrenni sínu. Starfsmenn á vegum Reykjavíkurborgar verða að hætta að seta kíkinn á blinda augað gagnvart þessu rusli. Frágangur á ruslatunnum við biðstöðvar strætisvagna eða sundstaði er óviðunandi. Augljóst er, að stundum gera menn sér leik að því að opna þessar tunnur og draslið liggur síðan óhreyft jafnvel sólarhringum saman. Fyrir nokkrum misserum var kynnt átak til að setja nýja tunnur víðar en í miðborginni. Hvað varð um það? Ég hlakka til að sjá boðskap frambjóðenda í borgarstjórnarkosningunum um leiðir til að uppræta ruslið.

Í dag var skýrt frá svartri skýrslu OECD um efnahagsástandið hér á landi. Sérfræðingar OECD sjá ástæðu til að blanda sér í íslensk stjórnmál með því að hvetja til upptöku evru á grundvelli ESB-aðildar. Þeir gera þetta örugglega ekki nema vegna þess að ríkisstjórnin hefur gefið grænt ljós til þess. Sé svo ekki, ætti ríkisstjórnin að mótmæla þessari íhlutun í mál, sem ekki er á könnu OECD. 

Steingrímur J. Sigfússon segir, að embættismenn ræði við Breta og Hollendinga um fyrirvara alþingis vegna Icesave-samninganna í kyrrþey! Hann viti ekki hvort hann eða Jóhanna Sigurðardóttir eigi eftir að ræða málið við stjórnmálamenn í löndunum. Sorgarsaga Icesave-málsins heldur áfram í höndum hinnar duglausu ríkisstjórnar. 

 

Þriðjudagur, 01. 09. 09. - 1.9.2009

Í dag eru 70 ár frá upphafi annarrar heimsstyrjaldarinnar. Stalín og Hitler gerðu samning um að skipta Evrópu á milli sín og nasistar réðust inn í Pólland þennan dag fyrir 70 árum. Stalín sendi her sinn inn í landið tveimur vikum síðar. Hann lét drepa foringja í her og lögreglu Póllands í Katyn-skógi og síðan beita alla harðræði, sem sögðu sannleikann um voðaverkin.

Furðulegt er, hvað íslenskir fjölmiðlar gera lítið úr þessum sögulega atburði eða áhrifum hans. Víða um heim er efnt til minningarathafna og vissulega er tilefni til þess hér.

Fór í hádeginu í dag og hlýddi á Thomas Devine, sérstakan ráðgjafi Bandaríkjastjórnar um uppljóstrun (whistleblowing),  flytja erindi í Háskólanum í Reykjavík. Í lögum um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins eru í fyrsta sinn sett ákvæði um vernd uppljóstrara í íslenska sakamálalöggjöf og líklega er ákvæðið einstakt á Norðurlöndunum. Áður var svipað ákvæði komið hér í samkeppnislöggjöfina.

Enska orðið whistleblower (flautari) um þá, sem vekja athygli út fyrir sitt nánasta starfsumhverfi á einhverju, sem þeir telja brjóta í bága við lög og reglur, hefur jákvæðan tón. Devine sagði að á sumum tungum væru þessir menn kallaðir hringjarar eða vitaverðir. Þetta eru einnig orð með jákvæðum tóni. Íslenska orðið „uppljóstrari“ hefur ekki endilega jákvæðan tón. Vissulega eru þeir, sem „kjafta frá“, ekki alltaf hátt skrifaðir í hópnum. Miklu skiptir að takist að vinna málstað þeirra stuðning sem flestra til að auka þeim kjark.

Meðferð mála af þessu tagi er viðkvæm. Af orðum Devines má ráða, að í Bandaríkjunum hafi það skilað ríkissjóði stórfé, að búið hafi verið í haginn fyrir þá, sem telja sér skylt að láta aðra vita af því, ef þeir telja til dæmis illa farið með opinbert fé.