16.9.2009

Miðvikudagur, 16. 09. 09.

Í dag hitti ég Guðna Ágústsson og tók við hann viðtal í þátt minn á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Viðfangsefnið varð alvarlegra í samtali okkar en ég vænti. Við því var þó að sjálfsögðu að búast með vísan til þess, að rætt var um bankahrunið og stöðu stjórnmála á líðandi stundu.

Tilefni þess, að ég ræddi við Guðna er viðtal Jakobs F. Ásgeirssonar við hann í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar skýrir Guðni í fyrsta sinn sína hlið mála, frá því að hann sagði skilið við beina þátttöku í stjórn landsmála 17. nóvember 2008.

Guðni sagði, að skömmu eftir bankahrunið hefði samfylkingarfólk tekið til við að undirbúa stjórnarslit við sjálfstæðismenn með þeim rökum, að þeir mættu ekki eiga ítök í endurreisninni, fá yrði nýja menn í hana. Snýr þetta að hinu sama og ég segi í grein í Þjóðmálum um bækur um hrunið, að í raun hafi Samfylkingin viljað snúa sér að samstarfi við aðra strax fyrstu dagana í október. Það sýni bréf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til Geirs H. Haarde frá 8. október 2008.

Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, bendir á þá augljósu leið út úr húsnæðisvanda fangelsismálastofnunar að auglýsa eftir húsnæði. Þegar ég orðaði þá leið um árið, að huga að einkaframkvæmd til fjölgunar fangarýma, ruku of margir upp til handa og fóta af hneykslan. Nú heyri ég engar gagnrýnisraddir á hugmynd Rögnu. Stundum getur verið erfitt að vera á undan tímanum.