14.1.2014 22:40

Þriðjudagur 14. 01. 14

Frakklandsforseti hefur þann sið að efna til mikils blaðamannafundar í upphafi árs til að óska fjölmiðlamönnum árs og friðar og þakka samstarf á liðnu ári. François Hollande forseti gerði þetta í dag í glæsilegri umgjörð Elysée-hallar. Um 600 blaðamenn voru á fundinum og þar sat öll ríkisstjórnin einnig í um tvær klukkustundir og hlustaði á pólitískan leiðtoga sinn. Hann nýtur minnsta trausts allra forseta í Frakklandi síðan slíkar mælingar hófust, hefur talan 22% um vinsældir Hollandes verið nefnd síðustu daga.

Hollande kynnti nýja efnahagsstefnu með lækkun skatta á fyrirtæki og niðurskurði ríkisútgjalda um 50 milljarða evrur fram til 2017. Hann fór í fótspor François Mitterrands, eina sósíalíska forsetans á undan honum. Mitterrand ætlaði að beita sósíalískum aðferðum meira að segja þjóðnýtingu til að ná árangri á níunda áratugnum en hvarf frá því vegna stöðnunar í efnahagslífinu.

Á blaðamannafundinum var Hollande spurður hvort hann hefði gengið í lið með frjálslyndum mönnum. Hann sagðist vegar sósíal-demókrat, hann hefði verið kosinn af vinstrimönnum en hann væri raunsær.

Hollande sagðist ekki vilja ræða sambandið við sambýliskonu sína Valérie Trierweiler, einkamál ættu að ræða á einkavettvangi en málið mundi skýrast áður en kæmi að Bandaríkjaför í febrúar en þangað hefur þeim verið boðið. Trierweiler er í áfalli á sjúkrahúsi vegna frétta um ástarsamband Hollandes við leikkonuna Julie Gayet.