Fimmtudagur 30. 01. 14
Dr. Richard North flutti í hádeginu í dag fyrirlestur í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, á vegum Evrópuvaktarinnar, Rannsóknaseturs um nýsköpun og hagvöxt og Alþjóðamálastofnunar HÍ. Fundurinn var vel sóttur og var Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra meðal fundarmanna.
Kjarninn í máli Norths er að ekki gefist tími til að semja um ný aðildarkjör Breta að ESB fyrir 2017. Þeir eigi að vísa til 50. gr. Lissabon-sáttmálans um úrsögn úr ESB. Mestu skipti fyrir þá að viðhalda aðild að innri markaði ESB. Það gerist með aðild að EFTA og EES-samningnum. Þróunin sé hins vegar á þann veg með hnattvæðingunni að innri markaðurinn verði varinn með alþjóðasamningnum og þá hætti EES að skipta máli. EFTA og aðildarríki EFTA hafi bein áhrif á gerð alþjóðlegra samninga gegn viðskiptahindrunum, þau standi jafnfætis ESB þar hafi aðildarríkin hins vegar ekki neinn beinan rétt. Hann hafnar þeirri skoðun að EES-ríkin séu áhrifalaus. Hann hefur ekkert á móti nánara samstarfi ESB-ríkja en vill ekki aðild Breta að því og telur víst að Bretar hafni ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Undanfarna hef ég farið með Richard North til fundar við fulltrúa ýmissa aðila auk þess sem Ingimundur Sigfússon, fyrrverandi sendiherra, aðstoðaði hann. North er þjóðkunnur bloggari í Bretlandi og hefur sagt frá komu sinni hingað eins og má sjá hér.