Áfall fyrir skólakerfið
Hvers vegna skyldu nemendur ekki hafa „dálæti“ á að keppa í PISA? Kennarar sem eru andvígir samanburðarprófum, innlendum og erlendum, ráða meiru í þessu efni en nemendur
Enn einu sinni kemur eins og reiðarslag yfir þjóðina þegar skólakerfið stenst illa alþjóðlegan samanburð ef marka má kannanir. Árangur nemenda er metinn á alþjóðavísu með svonefndum PISA-könnunum. Vissulega eru þær ekki fullkomnar frekar en önnur mannanna verk en þær eru þó viðurkenndur kvarði og hvað sem líður samanburði milli þjóða má nota hann til að átta sig á hvort framfarir hafi orðið innan sama skólakerfis. Í ljós kemur að hér hefur ekkert breyst til batnaðar milli kannana frá 2012 og miðað við skólakerfin annars staðar á Norðurlöndunum fær íslenska kerfið falleinkunn.
Fyrir þá sem hafa fylgst með umræðum um þessi mál í tvo áratugi eru viðbrögðin nú önnur en þau voru fyrir aldamótin þegar heitar umræður urðu, meðal annars fyrir tilstuðlan þeirra sem vinna að skólamálum, um að nauðsynlegt væri að grípa til róttækra aðgerða í því skyni að bæta innra starf skólanna. Krafan var meðal annars um að lengja kennaranámið. Nú segja ýmsir að lenging þess leiði til kennaraskorts. Almennt má segja að krafan um lengra nám eftir að grunnhæfni hefur verið náð sé næsta undarleg þegar litið er til örra breytinga. Þær krefjast nýrrar hæfni og þekkingar sem aðeins er unnt að afla með símenntun.
Þess verður vart meðal íslenskra grunnskólakennara að þeir vilja einfaldlega gera lítið úr PISA-könnununum. Nýkjörinn formaður þeirra gerði þetta í sjónvarpsviðtali á dögunum. Védís Árnadóttir í Noregi sem stundað hefur kennslu hér á landi og í Noregi segir á Facebook í dag (9. febrúar):
„PISA kannanirnar eru nefnilega lagðar fyrir unglinga, sem hafa að jafnaði ekkert sérstakt dálæti á prófum og könnunum. Þeir eru því margir hverjir fljótir að átta sig á því að þeim beri alls engin skylda til þess að svara þessum könnunum af neinni alvöru eða metnaði. Margir gera þetta með hangandi hendi, þótt eflaust megi finna einhverja sem virkilega reyna að láta ljós sitt skína.
Sem grunnskólakennari, sem hefur verið viðstaddur við framkvæmd könnunarinnar, get ég staðfest það að þó nokkrir reyna ekki einu sinni að leysa verkefnin, skila þeim jafnvel auðum.
Og þar sem ég hef reynslu bæði úr íslenska skólakerfinu og því norska get ég ennfremur staðfest að hér hjá frændum okkar er ekkert sem augljóslega bendir til meiri færni norskra grunnskólanemenda í helstu kjarnagreinum grunnskólans. Af Norðmönnum mættum við þó læra margt, rétt eins og þeir af okkur.“
Ástæða er til að staldra við orðin um að nemendur hafi „ekkert sérstakt dálæti á prófum og könnunum“. Þetta er hluti vandans. Innan skólakerfisins og meðal stjórnenda þess er ekki lögð áhersla á að þjálfa nemendur til að ná ákveðnu markmiði með því að taka próf eða sanna getu sína með könnunum. Samanburður milli skóla er bannorð og farið er með allt sem getur stuðlað að honum eða samanburði milli sveitarfélaga sem trúnaðarmál. Þetta er sérstaklega áberandi í Reykjavík þar sem meirihlutinn undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hefur beinlínis lagst gegn því að viðhorf borgarbúa til þjónustu Reykjavíkurborgar sé kannað.
Þegar rætt er um „dálæti“ nemenda hér fyrir ofan er ástæða til að efast um að sú lýsing sé rétt. Nemendur hafa mikið „dálæti“ á margvíslegri keppni eins og best sést þegar til hennar er efnt utan og innan skóla. Hvers vegna skyldu þeir ekki hafa „dálæti“ á að keppa í PISA? Kennarar sem eru andvígir samanburðarprófum, innlendum og erlendum, ráða meiru í þessu efni en nemendur. Að bregðast við PISA niðurstöðunum með því að hallmæla PISA lofar ekki góðu um framhaldið.