Alþingi rannsakar sjálft sig öðru sinni vegna landsréttardómara
Þetta er ekki fyrsta orrustan í þessu stríði. Jafnan leggjast fréttamenn ríkisútvarpsins á sveif með dómurunum enda vilja þeir ráða hver situr í stól fréttastjóra ríkisútvarpsins.
Ríkisútvarpið lætur ekki að sér hæða taki það sér fyrir hendur að reyna að ýta ráðherra til hliðar. Nú beina starfsmenn fréttastofunnar spjótum að Sigríði Á. Andsersen dómsmálaráðherra og leita logandi ljósi að stjórnmálamönnum sem vilja að hún segi af sér. Áfram verður líklega róið á þau mið því að lítið veiddist í morgun (23. janúar).
Rætt var við Pál Magnússon, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Hann svaraði á þennan veg:
„Að tala um afsögn ráðherra af þessum ástæðum finnst mér algjörlega út í hött og mér finnst að menn ættu bara aðeins að minnka gargið og þvargið í kringum þetta og horfa á hvert er efni málsins. Það er ekkert tilefni til ráðherraafsagnar í þessu máli. Hvaða ráðherra úr hvaða flokki sem væri ætti í hlut,“ sagði Páll Magnússon í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Í sama þætti var rætt við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmann og formann Viðreisnar, Hún sagðist sammála Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins færi yfir málið, hún krefðist ekki afsagnar ráðherrans.
Í grein í Morgunblaðinu í morgun segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrv. hæstaréttardómari, réttilega að þetta sé barátta um völd, dómaraelítan vilji ráða hverjir skipi embætti dómara.
Þetta er ekki fyrsta orrustan í þessu stríði. Jafnan leggjast fréttamenn ríkisútvarpsins á sveif með dómurunum enda vilja þeir ráða hver situr í stól fréttastjóra ríkisútvarpsins.
Grein sinni lýkur Jón Steinar á þessum orðum:
„[E]r ljóst að ráðherrann tók alls ekki þá ákvörðun [um skipun dómaranna] sem hér var fjallað um. Það gerði Alþingi. Hafi skort eitthvað á rannsókn málsins áður en ákvörðun var tekin hlutu það að vera þeir sem ákvörðun tóku sem brugðust þeirri skyldu. Það hlutu þá að hafa verið alþingismennirnir, sem ákváðu að ráða aðra en málssóknarmenn í embættin. Aðalatriðið er allt að einu, að ekkert skorti á rannsókn málsins, hvorki hjá ráðherra né Alþingi, áður en ákvörðun var tekin.
Það er svo alveg stórbrotin niðurstaða [hjá hæstarétti] að sá sem sækir um starf og fær það ekki geti krafist miskabóta á þeim grundvelli að æra hans hafi meiðst við að verða ekki skipaður í embætti. Þetta er auðvitað bara hlægileg vitleysa. Mikið hlýtur þeim dómurum að liggja á sem dæma svona.
Nauðsynlegt er að þjóðin átti sig á því að dómaraelítan er í valdabaráttu. Hún vill fá að ráða því hverjir hljóti laus dómaraembætti. Og hún virðist ekki hika við að misnota á grófan hátt dómsvald sitt til að kenna þeim ráðherra lexíu sem ekki beygir sig í duftið.
Málið er mjög alvarlegt og kallar á viðbrögð af hálfu Alþingis. Endurskoða verður reglur um skipan nýrra dómara og uppræta þá með öllu áhrif sitjandi dómara við val milli umsækjenda.“
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands gerði sér grein fyrir lokaábyrgð alþingismanna í þessu máli. Í yfirlýsingu hans frá 8. júní 2017 vegna skipunar dómara í landsrétt segir:
„Hinn 6. júní ákvað ég að afla staðfestingar á þeirri atvikalýsingu sem fram hafði komið í fjölmiðlum og mér höfðu einnig borist eftir öðrum leiðum. Einnig vildi ég vita hvort skrifstofa Alþingis og lögfræðingar þar teldu hugsanlegt við nánari athugun að ekki hefði verið staðið rétt að atkvæðagreiðslunni 1. júní. Ég fól forsetaritara að afla upplýsinga frá skrifstofu Alþingis um tilhögun atkvæðagreiðslunnar, aðdraganda hennar og umræður á undirbúningsfundum
þingmanna, með hliðsjón af áðurnefndu bráðabirgðaákvæði dómstólalaga og ákvæðum þingskapa um atkvæðagreiðslur.“
Niðurstaða forseta Íslands var ótvíræð:
„Með hliðsjón af öllum þeim málavöxtum sem hér hafa verið raktir komst ég að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu ekki átt sér stað við undirbúning og tilhögun
atkvæðagreiðslunnar 1. júní [um skipun dómara] og hún hefði verið í samræmi við lög, þingvenju og þingsköp.“
Einsdæmi er að forseti Íslands óski eftir sérstakri athugun á vinnubrögðum alþingis áður en hann ritar undir erindi sem þaðan berst. Kæmist stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis nú að því að öll „sök“ í þessu máli hvíldi á herðum dómsmálaráðherra yrði það aðeins til að kóróna fáránleikann í málflutningi þeirra sem krefjast afsagnar ráðherrans. Það var niðurstaða rannsóknar á vegum alþingis að beiðni forseta Íslands að réttilega hefði verið staðið að gerð tillögunnar til forseta. Ætlar þingnefnd nú að éta það ofan í sig?