20.8.2018 10:04

Alvaran í borgarráði

Þetta er nýmæli í samskiptum kjörinna fulltrúa og embættismanna sem er alvarlegra en andlitsgrettur við fundarborð borgarráðs.

Það er fengur að því að Kolbrún Bergþórsdóttir skuli skrifa leiðara í Fréttablaðið. Hún hefur löngum verið óhrædd við að segja skoðun sína á mönnum og málefnum og hikar ekki við að kasta sér í djúpu laugina. Hún gerir það í dag með því að taka afstöðu til atviksins í borgarráði á dögunum þegar Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG og fyrrverandi forseti borgarstjórnar, greip til þess ráðs að reka út úr sér tunguna framan í Mörtu Guðjónsdóttur (D) af því að henni var um megn að sitja undir stingandi augnaráði Mörtu.

Í leiðaranum gerir Kolbrún ekki greinarmun á því sem kjörnir borgarfulltrúar gera annars vegar og embættismenn borgarinnar hins vegar þegar hún segir um borgarfulltrúana: „Þeir eyða ómældum tíma í að bera hver annan alls kyns sökum og orð eins og „einelti“, „leki“ og „trúnaðarbrestur“ koma þar mjög við sögu.“ Þarna vitnar Kolbrún í orð borgarstarfsmanna sem tekið hafa upp á því að rífast við borgarfulltrúa og hóta þeim kærum fyrir siðanefnd sveitarfélaga. Þetta er nýmæli í samskiptum kjörinna fulltrúa og embættismanna sem er alvarlegra en andlitsgrettur við fundarborð borgarráðs.

Angry-woman-wideÞá er spurning hvort ástæða sé til þess nú á tímum #metoo o.fl. að gagnrýna þótt borgarfulltrúi sem telur að sér hafi verið sýnd óvirðing á fundi bóki andmæli sín. Það er í samræmi við tíðarandann. Menn láta ekki átölulaust vaða yfir sig á skítugum skónum.

Vissulega er rétt hjá Kolbrúnu að menn eiga að haga sér skikkanlega á vinnustað. Borgarstjórn er þó ekki frekar en alþingi neinn venjulegur vinnustaður. Á sínum tíma varð til dæmis Steingrími J. Sigfússyni (VG), núverandi forseta alþingis, svo heitt í hamsi að hann gekk að Geir H. Haarde forsætisráðherra þar sem hann sat við borð sitt í þingsalnum og tók í axlir hans. Bóka hefði átt andmæli við slíkri framgöngu væri það tíðkað í þingsalnum.

Í borgarstjórn urðu þáttaskil í kosningunum í maí 2018. Meirihluti féll en hélt samt áfram sem meirihluti með nýju flokksbroti. Nýja fólkið beitir nýjum aðferðum og gamli (nýi) meirihlutinn fer á taugum ásamt embættismönnunum. Kjörnu fulltrúarnir verða kallaðir til ábygðar í kosningum en ekki embættismennrnir sem misskilja stöðu sína. Ráði kjörnir fulltrúar ekki við að láta embættismennina skilja stöðu sína er voðinn vís. Það er alvara þessa máls.