Brexit og óskaniðurstaða Íslendinga
Fyrir þá sem þekkja til EES-samningsins og úrræðana sem EFTA-ríkin utan ESB hafa til þess að skapa sér sérstöðu eru þessar yfirlýsingar um Bretland sem nýlendu ESB stórundarlegar.
Deilurnar vegna úrsagnar Breta úr ESB, Brexit, hafa áhrif á umræður hér á landi. Hörðustu úrsagnarmenn í Bretlandi vilja ekki halda í neitt sem snertir innri markaðinn og tala þess vegna illa um sambærilegt fyrirkomulag og felst í EES-samningnum.
Í dag er til dæmis sagt frá því í breska blaðinu The Sun að Theresa May, forsætisráðherra Breta, hafi lagt til innan stjórnar sinnar að Bretar eigi áfram aðild að innri markaði ESB að hluta, það er vegna viðskipta með vörur, þjónustuviðskipti verði utan innri markaðarins. Segir blaðið að úrsagnarmenn í ríkisstjórninni hafi hafnað tillögunni enda felist í henni „samsæri til að valda vandræðum við Brexit“. Það komi ekki til greina að eiga neina aðild að regluverki innri markaðarins, við það yrði Bretland lítið annað en „nýlenda ESB“ að eilífu.
Fyrir þá sem þekkja til EES-samningsins og úrræðana sem EFTA-ríkin utan ESB hafa til þess að skapa sér sérstöðu eru þessar yfirlýsingar um Bretland sem nýlendu ESB stórundarlegar og aðeins til að staðfesta þá skoðun að um öfgakenndan málflutning sé að ræða, til dæmis hjá Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta. Vandi EFTA-ríkjanna í samskiptum við ESB á EES-grundvelli er tregða af hálfu stjórnenda þessara ríkja til að láta reyna á sérstöðu þeirra.
Á meðan ESB-aðildarbröltið var stundað af hálfu íslenskra stjórnvalda hlóðust upp óafgreidd EES-mál innan stjórnkerfisins. Í raun hefur aldrei tekist að hrinda nægilega vel í framkvæmd sjálfstæðri stefnu íslenskra stjórnvalda í samskiptum við ESB á grundvelli EES-samningsins.
Hófsöm niðurstaða í Brexit-viðræðunum þjónar hagsmunum EFTA-ríkjanna best. Verði viðurkennt meira svigrúm til að hafna innleiðingu ESB-reglna fellur það að helstu gagnrýninni á EES-fyrirkomulagið eins og það er nú – þetta svigrúm er þó einskis virði sé aldrei gerð tilraun til að nýta það og henni fylgt eftir á skipulegan hátt.
Theresa May flytur ræðu á öryggisráðstefnunni í München laugardaginn 17. febrúar. Þar kynnir hún hugmyndir um framtíðarsamstarf Breta við ESB í öryggismálum.
Í breska blaðinu The Sunday Times segir að hún leggi fram „stórt tilboð“ um framhald samstarfs á þessu sviði, meðal annars verði Bretar áfram aðilar að Europol, Evrópulögreglunni, og handtökutilskipun Evrópu. Þetta skiptir okkur Íslendinga máli vegna aðildar okkar að þessu Evrópusamstarfi í krafti Schengen-aðildarinnar en Bretar eru utan Schengen-samstarfsins.
Óskaniðurstaða Íslendinga í Brexit-viðræðunum er aðild Breta að EFTA og nýr EES-samningur með aðild Breta og Svisslendinga. Fyrir þessu einfalda og skýra markmiði ættu íslensk stjórnvöld að beita sér.