4.4.2020 10:41

COVID-19 og „hittingur“ presta

Ritreglur auðvelda en hefta ekki. Þær skapa stöðugleika í stað upplausnar eins og aðrar reglur.

Menn hafa mismunandi skoðanir á efni ritreglna og jafnvel á því hvort setja eigi slíkar reglur. Þær eru þó víða settar og koma þeim að góðum notum sem vinna við skriftir. Stórfjölmiðlar og fréttastofur gefa út eigin ritreglur. Þær auðvelda ekki aðeins starfsmönnum þeirra að leysa úr álitaefnum sem jafnan vakna við miðlun frétta eða annars efnis heldur skapa einnig traustvekjandi yfirbragð á fjölmiðlunum.

Í ársbyrjun 1989 gáfu Morgunblaðið og Ríkisútvarpið út ritið Málfar í fjölmiðlum eftir Árna Böðvarsson. Átti ég þar hlut að máli sem aðstoðarritstjóri blaðsins á þeim tíma. Við sem skrifuðum erlendar fréttir í Morgunblaðið á þeim tíma efndum reglulega til gæðafunda í því skyni að samræma málfar okkar. Fundirnir leiddu meðal annars til þess að við áttuðum okkur betur en ella á því hve álitamálin voru mörg.

669956Gengið í prósessíu til prestastefnu í Háteigskirkju árið 2013. (Biskupsstofa)

Ritið Málfar í fjölmiðlum varð til þess að árið gaf Almenna bókafélagið út bók Árna Böðvarssonar Íslenskt málfar árið 1992. Í formála Málfars í fjölmiðlum fer Árni í stuttu máli yfir viðleitni hér á landi til að vanda þetta málfar og segir:

„Þessum leiðbeiningum er ætlað að vera tæki handa fjölmiðlafólki til að auðvelda því að vanda mál sitt, velja rétt orð á réttum stað og beita réttum beygingum. [...] Rit af þessu tagi eru algeng með menningarþjóðum sem leggja rækt við tungu sína...“

Árið 2011 gaf JPV útgáfa út rit Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undir ritstjórn Jóhannesar B. Sigtryggssonar, Handbók um íslensku. Þar er að finna ritreglur.

Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun, skrifar um íslenskt mál í Morgunblaðið í dag (4. apríl) og segir meðal annars:

„Hin alþjóðlega skammstöfun COVID-19 er mynduð svona: CO(rona), VI(virus), D(isease); og talan 19 bendir á árið 2019 þegar veiran kom upp. Skammstöfun þessi gefur tilefni til að minna á íslenskar ritreglur (þær eru auðfundnar á vefnum, ritreglur.arnastofnun.is; uppfærðar 2016 og 2018, með fjölda skýringardæma). Samkvæmt reglunum ber að rita slíkar skammstafanir eingöngu með hástöfum og án punkta, sbr. HABL, SARS, HIV o.s.frv. Samsetta orðið COVID-19-faraldur skal rita svo, með bandstriki sem tengir skammstöfunina við seinni hlutann.“

Fram til þessa hef ég aðeins notað stórt C þegar ég nefni veiruna í textum. Nú veit ég betur.

Í fyrirsögn í Morgunblaðinu sagði föstudaginn 3. apríl að vegna COVID-19 yrði enginn „hittingur“ í ár hjá prestum þjóðkirkjunnar. Þegar texti fréttarinnar er lesinn sést að með orðskrípinu „hittingur“ er vísað til sjálfrar prestastefnunnar: „Prestastefnan er ævagömul í sögunni, hefur verið haldin allt frá 12. öld, eða í meira en 800 ár. Er því um að ræða eitt elsta samkomuhald Íslandssögunnar,“ segir í fréttinni.

Frjálsræði í málfari helst í hendur við framvindu samfélagsins. Ritreglur auðvelda en hefta ekki. Þær skapa stöðugleika í stað upplausnar eins og aðrar reglur.

.