29.10.2017 11:47

Ekkert ákall um vinstri stjórn

Vinstri blokkin fær aðeins 38,2% atkvæða. Að segja það ákall um vinstri stjórn er fráleitt. Það hvílir á borgaraflokkunum að mynda stjórn.

Að morgni sunnudags 30. október 2016, daginn eftir þingkosningar, hafði Benedikt Jóhannesson, nýkjörinn á þing sem formaður Viðreisnar, samband við Óttar Proppé, þingmann og formann Bjartrar framtíðar. Þeir sammæltust um að standa saman í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Í viðræðunum gekk á ýmsu fram til 9. janúar 2017 þegar flokksstofnanir Sjálfstæðismanna, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar samþykktu sáttmála nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Fram á síðustu stundu reyndu vinstrisinnar að spilla fyrir stjórnarmynduninni með vísan til þess að Bjarni hefði ekki birt fyrir kosningar skýrslu um aflandseignir.

Merkasta verk ríkisstjórnarinnar var að afnema höftin. Hún náði þó aldrei flugi og naut lítilla vinsælda í könnunum. Nú er hún öll eftir kosningarnar 28. október 2017. Stjórnarflokkarnir töpuðu samtals 12 þingmönnum: Sjálfstæðismenn 5, Viðreisn 3 og Björt framtíð 4.

Benedikt Jóhannessyni var bylt í eigin flokki og fékk ekki nema 2,1% atkvæða í kjördæmi sínu enda var það stefna Viðreisnar að líta á hagsmuni sjómanna og bænda sem sérhagsmuni og lýsti flokkurinn andstöðu við þá þótt hann berðist fyrir sérhagsmunum þeirra fjármagnseigenda sem að baki honum standa og vilja upptöku evru. Var bæði formanni og varaformanni flokksins fórnað í kosningabaráttunnu vegna þessa.

1003613Leiðtogar flokkanna átts sem eiga fulltrúa á þingi eftir kosningarnar 28. október 2017 ræða saman í sjónvarpssal.

Björt framtíð varð að engu í kosningunum. Hún taldi sér það til sérstaks ágætis að hafa sprengt ríkisstjórnina á næturfundi þar sem einhver hópur fólks kom saman og taldi sér trú um stórhneyksli sem síðan varð að engu. Þegar Björt framtíð fór í stjórnina var afstaða manna innan flokksins könnuð rafrænt og vildi 51 fara í stjórn en 18 ekki.

Með stjórnarslitum Bjartrar framtíðar og rökunum fyrir henni var tónninn sleginn. Ásakanir um spillingu Sjálfstæðismanna einkenndu baráttuna fyrstu vikurnar og lagði vefsíðan Stundin sitt af mörkum með upprifjun mála úr skjölum slitabús Glitnisbanka. Fréttastofa ríkisútvarpsins gekk í lið með Stundinni meðal annars með blekkingarfrétt að kvöldi laugardags 21. október, viku fyrir kjördag. Þá var úrslitatilraun gerð til að halda í lífi í spillingartalinu.

Skoðanakannanir sýndu mikið fylgi vinstri grænna (VG) auk þess sem Samfylkingin sótti í sig veðrið, Píratar héldu sig í skjóli þessara flokka með minnkandi fylgi. Smám saman skýrðist sú mynd í hugum kjósenda að valið stæði á milli þessara vinstrisinnuðu skattahækkunarflokka og flokka þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði forystu.

Kannanir lokadagana fyrir kosningar sýndu breytingar á fylginu Sjálfstæðisflokknum í vil. Aðförin að flokknum tókst ekki á þann veg sem andstæðingar hans vonuðu. Fylgi VG dróst saman og að lokum bætti flokkurinn ekki við sig nema einum þingmanni.

Miðflokkurinn sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og fyrrv. formaður Framsóknarflokksins, stofnaði sunnudaginn 8. október, bauð fram menn sem höfðu verið virkir í flokksstarfi Sjálfstæðismanna. Sama má segja um frambjóðendur Fólks flokksins og frambjóðendur Viðreisnar.

Þetta er meginvandi Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir: hefðbundið fylgi hans dreifist víða. Til að ná fyrri styrk og komast upp fyrir 30% í fylgi sem er eina leiðin til að skapa hér festu í stjórnmálum þarf forysta flokksins að finna leið til að sameina krafta borgaralegra afla á nýjan leik.

Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru sigurvegarar kosninganna. Innan Miðflokksins er hópur frjálshyggjumanna og Flokkur fólksins höfðar til hóps kjósenda sem Sjálfstæðisflokkurinn verður að nálgast; hann hefur sótt styrk sinn í varðstöðu um hagsmuni þessa fólks. Viðreisn sem gerir lítið úr hagsmunum bænda og sjómanna er málsvari hóps sem einnig hefur rúmast innan Sjálfstæðisflokksins.

Öll sjónamiðin sem ríkja í Miðflokknum, Flokki fólksins og Viðreisnar eiga sér málsvara í Sjálfstæðisflokknum annars væri hann ekki, þrátt fyrir allt, stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum landsins.

Framsóknarflokkurinn getur vel við úrslitin unað miðað við stofnun nýs flokks, honum til höfuðs. Samfylkingin fjölgaði þingmönnum sínum eftir afhroðið 2016 en náði ekki sama fylgi og hún hafði í kosningunum 2013. Þegar litið er til þingflokks Samfylkingarinnar er hann ekki til stórræða og ekki heldur þingflokkur Pírata en helsta einkenni þingmanna hans er hjáseta í atkvæðagreiðslum á alþingi.

Sé litið til málefna má slá því föstu að skattahækkanir verði ekki efst á dagskrá nýs þings, ESB-málið liggur áfram í dái. Líklegt er að tekist verði á um útlendingamál og nauðsyn nýrra aðferða við löggæslu. Óvissa einkennir afstöðu til kjara- og félagsmála. Umræður verða um afnám verðtryggingar en fylgjendur evru-aðildar eru fáir.

Hlutur fjölmiðla og samfélagsmiðla í kosningabaráttunni er sérstakt íhugunarefni. Sjónarmið Stundarinnar, Kjarnans, og fréttastofu ríkisútvarpsins urðu undir. Tilraunir til að beita þessum miðlum á flokkspólitískan hátt misheppnuðust eins og best sést á því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, höfuðóvinur þeirra, náði miklum árangri í kosningunum. Miðlun pólitískra frétta héðan til erlendra miðla er mjög bjöguð svo að ekki sé meira sagt. Lygar og rangfærslur einkenna margt af því sem sagt er. Upplýsingafölsun er stunduð héðan. Með hliðsjón af áhuga erlendra miðla af því sem hér gerist ætti utanríkisþjónustan heima og erlendis að stórauka fræðslu um íslensk stjórnmál.

Hitt er rétt að hafa í huga að líklega skilja engir erlendir fréttamenn hvers vegna ríkisstjórn springur við jafngóðar efnahagslegar aðstæður og hér ríkja. Þeir hljóta að halda að stórkostlegt þjóðfélagsmein búi að baki þótt aðeins er um uppnám í skipulagslausum stjórnarflokki að ræða, flokki sem síðan er máður af spjöldum sögunnar í kosningum. Hvað segir það um eðli hneykslisins?

Sjö flokkar áttu þingmenn á þinginu 2016 til 2017. Nú eru þingflokkarnir átta. Það flækir stjórnarmyndun. Viðurkenni stjórnmálamenn hins vegar hvar línan er í raun dregin af kjósendum sjá þeir að mörkin eru á milli: Sjálfstæðisflokks, Miðflokks, Framsóknarflokks, Flokks fólksins og Viðreisnar annars vegar og VG, Samfylkingar og Pírata hins vegar.

Hér eru úrslitin (alls kusu 81,2%) og fjöldi þingmanna, innan sviga breytingar frá kosningunum 2016:

B: Framsóknarflokkur: 10,7%, 8 þingmenn, (0)

C: Viðreisn: 6,7%, 4 (-3)

D: Sjálfstæðisflokkur: 25,2%, 16, (-5)

F: Flokkur fólksins 6.9%, 4 (+4)

M: Miðflokkurinn 10,9%, 7 (+7)

P: Píratar 9,2%, 6 (-4)

S: Samfylking 12,1%, 7 (+4)

V: Vinstri græn 16,9%, 11 (+1)

Af þessum tölum sést að vinstri blokkin fær aðeins 38,2% atkvæða. Að segja það ákall um vinstri stjórn er fráleitt. Það hvílir á borgaraflokkunum að mynda stjórn. Hún verður að vera fjögurra flokka með Sjálfstæðismönnum, Miðflokksmönnum, Framsóknarmönnum og Flokki fólksins eða Viðreisn. Ég hallast að BDFM.