22.3.2018 11:23

Facebook í skammarkrókinn

Getgátur um að mannkyni sé í raun stjórnað af leynilegum, óþekktum öflum án þess að við gerum okkur grein fyrir því hafa alla tíð fylgt manninum.

Fyrir þá sem komið hafa að stjórnmálastarfi kemur spánskt fyrir sjónir að gert sé svona mikið veður út af því að fyrirtækið Cambridge Analytica hafi safnað upplýsingum til að meta skoðanir fólks og selt þær stjórnmálaflokkum eða öðrum sem hafa hag af því að ná til almennings. Það sem stjórnmálaflokkar gera í þessu efni er barnaleikur hjá framtaki stórfyrirtækja, til dæmis þeirra sem selja ferðir til annarra landa.

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook.

Eftir að hafa sent fyrirspurn um hagkvæma ferð til einhvers áfangastaðar rignir yfir mann á Facebook og annars staðar á netinu upplýsingum um það sem er í boði á þessum áfangastað. Þetta má rekja til þess að saklaus fyrirspurn verður að söluvöru og eitt leiðir af öðru. Er þetta gott eða slæmt? Það fer eftir mati hvers og eins.

Fyrir einu og hálfu ári hófst rannsóknarverkefnið Blóðskimun til bjargar hér á landi. Rúmlega helmingur þjóðarinnar 40 ára og eldri samþykkti á netinu að taka þátt, 87.770 manns, og er það líklega einstakt í heiminum. Þetta er stærsta skimunarrannsókn eftir krabbameini í beinmerg, sem gerð hefur verið. Blóðsýni úr 35 þúsund manns eru þegar komin og algerar frumniðurstöður líka. Þær hafa þegar leitt í ljós að 1500 manns eru með forstig mergæxlis. Þar af eru 1000 manns sem ekki höfðu hugmynd um það. Tíu manns hafa auk þess verið greind með mergæxli og eru komin í krabbameinsmeðferð.

Með samþykki sínu sögðu þátttakendur í rannsókninni að færu þeir í blóðrannsókn, án tillits til tilefnis, fengju þeir sem standa að blóðskimuninni vegna mergæxlis hluta af sýninu sent sér.

Af fúsum og frjálsum vilja leggja menn sitt af mörkum til þessarar einstöku rannsóknar. Gera þeir það ekki einnig á annan hátt með því að eiga samskipti við fyrirtæki sem nýta sér upplýsingar sem myndast við netnotkun eða nýtingu samfélagsmiðla?

Hafi Cambridge Analytica brotið lög taka rétt yfirvöld væntanlega á því en hitt er rétt sem Hulda Þórisdóttir stjórnmálasálfræðingur segir að fyrirtækið hafi í raun ekki gert neitt annað en auglýsingastofur og stjórnmálaflokkar hafi hingað til gert til að ná til kjósenda.

Hún sagði á rás 2 að morgni fimmtudags 22. mars:

„Þetta var bara ekki kerfi sem gerði neitt gagn. Þannig að öll þessi læti um að þarna hafi verið notaðar sálfræðilegar upplýsingar til að ná til okkar í gegnum undirmeðvitundina, eða höfða til okkar dýpsta ótta, eru ekki réttar.[...]

Þetta hefur ekki góð áhrif á traust fólks á lýðræðið. En mögulega hefur þetta góð áhrif og er sterkara ákall á verndun persónuupplýsinga. Fólk passar sig enn betur á netinu en áður og er kannski meðvitaðra um hvaða verðmæti felast í þeirra fótspori á netinu og á samfélagsmiðlum.“

Getgátur um að mannkyni sé í raun stjórnað af leynilegum, óþekktum öflum án þess að við gerum okkur grein fyrir því hafa alla tíð fylgt manninum. Nú fá þær nýja vængi og Facebook fær að kenna á því!