11.10.2020 11:23

Feneyjanefnd gegn upplýsingaóreiðu

Full ástæða er til að efna til úttektar á vegum forsætisráðuneytisins vegna „upplýsingaóreiðu“ í tengslum við stjórnarskrármálið.

Full ástæða er til að efna til úttektar á vegum forsætisráðuneytisins vegna „upplýsingaóreiðu“ í tengslum við stjórnarskrármálið. Þar beita þeir sem halda enn fast í tillögur stjórnlagaráðs sem var hafnað af alþingi í mars 2013 uppi upplýsingahernaði sem einkennist af rangfærslum. Dæmi um óheiðarleg vinnubrögðin birtist í frétt í Morgunblaðinu laugardaginn 10. október. Þar stóð:

„Vegna auglýsingar um stjórnarskrármál í Morgunblaðinu 8. október og fréttar um málið í blaðinu daginn eftir hefur utanríkisráðuneytið sent frá sér áréttingu. Í henni segir að meðal þátttakenda á Kulturnat í Kaupmannahöfn í október 2019 hafi verið norræna ráðherranefndin en Ísland fór þá með formennsku í nefndinni. Eitt af menningaratriðum þar var hluti af kórverkinu „In Search of Magic - A Proposal for a New Constitution for the Republic of Iceland“ eftir Libiu Castro & Ólaf Ólafsson. „Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn greiddi listamönnunum þóknun fyrir vinnuframlag þeirra á Kulturnat, eins og venja er. Ekki hefur verið um frekari stuðning við þetta verkefni að ræða af hálfu utanríkisþjónustunnar,“ segir í yfirlýsingunni og jafnframt að ranghermt sé að utanríkisráðuneytið sé á meðal bakhjarla listgjörnings í Hafnarhúsinu í Reykjavík 3. október. Þaðan af síður hafi ráðuneytið stutt undirskriftasöfnun vegna stjórnarskrármála eins og ráða hafi mátt af auglýsingu í blaðinu. „Utanríkisráðuneytið átelur þessa villandi framsetningu og hefur komið athugasemdum á framfæri við þá sem að þessu verkefni standa.““

Hér hefur því verið haldið fram að þetta framtak Libiu Castro, sem líkir ástandi hér á landi við það sem var á Spáni í einræðistíð Francos, og Ólafs Ólafssonar hafi breytt kafla stjórnarskrármálsins sem stóð frá hausti 2012 til vors 2013 í listrænan gjörning.

Nyja-Stjornaskra-1-1024x683Þessi mynd um nýja stjórnarskrá sem listrænan gjörning birtist á dv.is

Feneyjanefndin, nefnd stjórnarskrárfræðinga Evrópuráðsins, gaf í mars 2013 stjórnlagaráðstillögunum falleinkunn, eftir það hafnaði alþingi þeim. Í áliti sem birt var föstudaginn 9. október 2020 áréttar Feneyjanefndin þessa falleinkunn en hvetur til þess að stjórnvöld skýri betur fyrir almenningi hvers vegna ekki er tekið undir stjórnlagaráðstillögunar sem hafnað var 2013.

Feneyjanefndin er í raun að mælast til þess að stjórnvöld fari í saumana á upplýsingafölsunum sem beitt er í stjórnarskrármálinu. Samband ungra sjálfstæðismanna hefur lagt sitt af mörkum til þess undanfarið með samantekt á sérstakri vefsíðu um stjórnarskrármálið.

Þeir sem standa að stjórnarskrármálinu á grundvelli tillagna sem alþingi, stjórnarskrárgjafinn, hefur hafnað hefta í raun efnislegar umræður um stjórnarskrármálið.

Það er brýnt að fara að ráðum Feneyjarnefndarinnar og greiða úr þeim blekkingarvef sem ofinn hefur verið vegna tillagnanna frá 2012. Hann snýr að aðferðafræði þar sem öllum ráðum er beitt til að villa almenningi sýn, nú síðast undirskriftasöfnun undir dauðan bókstaf.