13.10.2020 15:51

Google beitt í veiruumræðum

Myers segir að það veki skelfingu að beitt sé ritskoðun til að hindra umræður um annan kost gegn kórónuveirunni.

Hér var fyrir skömmu birtur útdráttur úr Great Barrington-yfirlýsingunni sem samin var að frumkvæði heimskunnra lækna og má þar nefna Martin Kulldorff frá Harvard Medical School, Sunetru Gupta frá Oxford University og Jay Bhattacharya frá Stanford University Medical School.

Birting yfirlýsingarinnar hefur vakið miklar umræður og jafnframt reiði. Á vefsíðunni spiked má til dæmis lesa grein eftir Fraser Myers. Hann segir að gúggli menn í enskumælandi löndum orðin „Great Barrington Declaration“ vísi Google þeim ekki á yfirlýsinguna sjálfa heldur á greinar þar sem hún sé gagnrýnd – í sumum þeirra sé lítið annað að lesa en óhróður um þá sem rita undir yfirlýsinguna.

Google vilji til dæmis að menn lesi helst árásargrein frá alkunnum samsærissmiðum á vefsíðunni Byline Times þarf sem dylgjað sé með að vísindamennirnir hafi annarleg og skuggaleg markmið þegar þeir leggist gegn samfélagslegri bannstefnu til að sigrast á veirunni. Hér á landi er þessum sjónarmiðum Byline Times hampað á vefsíðu Grapevine.

Myers segir að það veki skelfingu að beitt sé ritskoðun til að hindra umræður um annan kost gegn kórónuveirunni. Það þurfi þó alls ekki að koma á óvart. Allt frá því að COVID-19-faraldurinn komst í hámæli hafi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og ríkisstjórnir um heim allan varað við því sem á ensku er nefnt infodemic eða COVID–upplýsingaóreiðu eins og það er íslenskað af þjóðaröryggisráði sem setti niður sérstakan hóp til að rannsaka útbreiðslu falsana um COVID-19 hér á landi.

Index_1602604187400

Myers segir að varúðarráðstafanir af þessu tagi megi réttlæta gegn þeim sem selji gervilyf gegn veirunni eða beiti fölsunum til að hafa fé af fólki með kynningu á tilgangslausum aðferðum. Alþjóðleg upplýsingatæknifyrirtæki hafi í baráttunni gegn upplýsingafölsunum hins vegar valdið skaða með því að ýta þeim til hliðar sem hafa aðra skoðun en þá viðteknu á því hvernig túlka beri COVID-gögn og takast á við faraldurinn af opinberri hálfu.

Ritskoðun sé alvarlegt vandamál fyrir vísindin. Þau dafni í andrúmslofti frjálsra skoðanaskipta þar sem setja megi fram tilgátur og láta reyna á þær. Nú hafi hins vegar Google og aðrir með svipað vald ákveðið að bregða fæti fyrir slíkar umræður. Myers bendir hins vegar á að þeim vísindamönnum fjölgi sem vari við hættunni af samfélagslegum bannreglum, þetta eigi ekki aðeins við um vísindamenn að baki Great Barrington-yfirlýsingunni heldur einnig fulltrúa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og ýmsa sérfræðinga í ráðgjafahópi breskra stjórnvalda, SAGE. Það standist ekki að láta eins og þeir sem séu annarrar skoðunar dreifi „röngum upplýsingum“.

Frans Meyer segir í lok greinar sinnar:

„Það er mikið í húfi í umræðunum um bannreglurnar (e. lockdown) – hvaða ákvörðun sem tekin er hefur gífurleg áhrif á líf, frelsi, heilsu og fjölda margt annað. Að tæknirisi noti umtalsvert vald sitt til að kæfa eitt sjónarmið í umræðunum verður ekki kennt við annað en óhugnað.“