Helga Vala sakar þingmenn um „fúsk“
Hvorki líftími frumvarpa né aukin notkun á tölvum kemur í stað vandaðra vinnubragða þingmanna sjálfri.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, segir í Fréttablaðinu í dag (19. febrúar): „Lagasetning á Íslandi er oft óttalegt fúsk sem er unnin í fljótheitum.“ Helga Vala settist á alþingi eftir kosningarnar í lok október 2017 og með komu hennar á þingið og formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætti fúskinu að ljúka. Það sem af er formannsferli hennar í nefndinni lofar ekki góðu um að þar leggi menn sig endilega fram um að stunda gæðaeftirlit með lagasetningu, formaðurinn hefur sýnt mestan áhuga á að eltast við dómsmálaráðherrann í von um að koma höggi á hann.
Nefndaskipan alþingis hefur verið kollvarpað frá því sem áður var og fjöldi starfsmanna sem veitir þingmönnum aðstoð hefur margfaldast. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir: „Löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis verður styrkt á kjörtímabilinu með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka.“
Þegar ég settist á þing fyrir rúmum aldarfjórðungi tíðkaðist að lagafrumvörp sem voru til meðferðar í þingnefnd voru samlesin upphátt af nefndarmönnum með höfund frumvarpsins eða annan sérfróðan mann utan þings á fundinum. Þar gafst þingmönnum færi á að spyrja um og fá svör við spurningum um álitamál. Að lokinni yfirferðinni sem gat tekið marga fundi ef um löng lagafrumvörp var að ræða hittust nefndarmenn til að „taka mál úr nefndinni“ eins og sagt var og þar skildi leiðir milli meiri og minni hluta ef svo bar undir.
Hvort þetta tryggði betri lög eða ekki skal ekki fullyrt. Hitt er víst að nefndarmenn voru vissir í sinni sök, ef svo má orða það, þeir höfðu farið gaumgæfilega yfir hverja grein frumvarpsins og vissu um hvað það snerist. Afstöðu sína mótuðu þeir í samvinnu við þingflokk sinn og viðkomandi ráðherra ef svo bar undir.
Hafa þessir starfshættir lagst af? Ég veit það ekki. Hefði einhver þingmaður kennt gömlu aðferðina við „fúsk“ hefðu félagar hans tekið hann á beinið. Í Fréttablaðinu segir:
„Breytingar á líftíma frumvarpa, innleiðing tölvutækni við vinnslu þingskjala auk auðkenningar á breytingartillögum er meðal þess sem tveir þingmenn sjá fyrir sér að gæti leyst úr vandanum.“
Þessir tveir þingmenn eru Helga Vala Helgadóttir, sem telur til bóta að þingmál myndu lifa út kjörtímabilið í stað þess að falla dauð niður í lok hvers þings, og Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson sem segir:
„Það er oft gífurleg tímapressa á þinginu og lítill eða enginn fyrirsjáanleiki um hvaða mál verða kláruð hvenær. Þingmenn eru ítrekað settir í þá stöðu að kynna sér stór og viðamikil mál á stuttum tíma. [...]
Það er þreytandi hvernig lítið er gert úr því þegar þingmenn kvarta yfir skorti á tíma og fyrirsjáanleika. Þetta er stofnun sem snýst um að fara með ágreiningsefni og því er undirliggjandi hvati til að láta eins og þetta sé ekki vandamál.“
Helgi Hrafn lagði árið 2015 fram þingsályktunartillögu um tölvutækt snið þingskjala og auðkenningu breytingartillagna.
Hvaða heila brú er í skoðun Helga Hrafns? Varla skapar tölvutæknin „fyrirsjáanleika“ í störfum þingsins. Honum ráða þingmenn sjálfir. Þeir vilja ekki taka sér til fyrirmyndar reglur og hefðir í þingum annars staðar um skipulag umræðna og þar með tíma þingmanna. Litið er á „hálftíma hálfvitanna“ sem heilaga stund, hana eigi frekar að lengja en stytta.
Hvorki líftími frumvarpa né aukin notkun á tölvum kemur í stað vandaðra vinnubragða þingmanna sjálfri. Skorti þingmenn tíma til að fara gaumgæfilega yfir frumvörp í nefndum verða þeir að skapa sér hann með því að breyta eigin vinnubrögðum.