8.4.2020 12:47

Hömlur hverfa stig af stigi

Líklegt er að þjóðir verði ekki samstiga að þessu leyti frekar en í varnaraðgerðum gegn veirunni.

Umræður snúast nú æ meira um leiðir út úr lokunum vegna COVID-19. Norska ríkisstjórnin kynnti í gær hvernig hún sér fyrir sér að taka megi skref fyrir skref eftir páska. Í Danmörku hafa stjórnvöld einnig boðað skref-fyrir-skref áætlun. Líklegt er að þjóðir verði ekki samstiga að þessu leyti frekar en í varnaraðgerðum gegn veirunni.

Hagfræðingurinn Paul Krugman, dálkahöfundur The New York Times, var gestur í GPS, sjónvarpsþætti Farheed Zakaria, á CNN sunnudaginn 5. apríl. Krugman sagðist nota þá líkingu að efnahagsástandið væri eins og læknar hefðu ákveðið að setja sjúkling í dá. Þeir hefðu af ásettu ráði dregið mjög úr heilastarfsemi hans til að gefa sjúklingnum færi á að ná sér eftir alvarlegt högg. Til þessa hefðum við ekki orðið vitni að efnahagssamdrætti í hefðbundnum skilningi, hann yrði vegna þess að eyðsla minnkaði og þar með eftirspurn.

Núna hefði verið skrúfað fyrir atvinnu- og efnahagsstarfsemi af ásettu ráði til að sporna gegn útbreiðslu sjúkdóms. Síðan hefðu menn áhyggjur af því sem sigldi i kjölfarið: minni neysla og eftirspurn; fólk hefði minna fé en áður handa á milli. Þess vegna kæmi líklega til hefðbundinnar efnahagskreppu í sama mund og færi að rofa til að nýju. Við blasti atvinnuleysi sem jafna mætti við það sem varð í kreppunni miklu, enginn vissi hve það yrði langvinnt.

Zakaria spurði Krugman hvort hætta væri á að menn settu hjóls atvinnulífsins of snemma af stað. Krugman sagði mikla hættu á því. Það yrði að halda öllu markvisst í skefjum þar til örugg tök hefðu náðst á faraldrinum. Krugman sagði suma halda að hagfræðingar vildu að allt færi sem fyrst af stað að nýju. Þetta væri ekki rétt. Alvarlegir hagfræðingar væru sammála um að betra væri að gera þau mistök að bíða of lengi heldur en að fara of snemma af stað. Reynslan af leiðinni út úr spænsku veikinni 1918-19 segði að nú ættu menn ekki að hugsa um peninga eða landsframleiðslu heldur um björgunaraðgerðir og aðstoð við fólk sem byggi við skort. Allir vildu eðlilegt ástand að nýju en ótímabær skref í þá átt fjölgaði ekki aðeins þeim sem féllu fyrir veirunni heldur stuðluðu í raun að enn lengri efnahagsvanda.

IMG_1088Það vorar.

Í Morgunblaðinu í dag (8. apríl) segir:

„Vinna vegna afléttingar samkomubanns og annarra takmarkana á daglegu lífi fólks er enn í gangi og verður áætlun um slíkt kynnt eftir páska. Þórólfur [Guðnason sóttvarnalæknir] sagði að sömuleiðis þyrfti að skipuleggja það hvernig við ætluðum að standa að komu ferðamanna hingað til lands.

„Tilgangurinn er náttúrlega að tryggja það að við fáum ekki aftur faraldur hér í sumar eða haust,“ sagði Þórólfur, en erlendis hefur faraldurinn sums staðar sprottið upp eftir að takmörkunum hefur verið aflétt.“

Magnús Gottfreðsson, prófessor og læknir í smitsjúkdómum, segir á ruv.is í dag (8. apríl) að mikilvægt sé að slaka alls ekki á aðgerðum á þessari stundu:

„Það má ímynda sér að ef einhverjum myndi detta í hug að aflétta hömlum í dag, þá er alveg klárt mál að þetta myndi blossa upp aftur.“

Hér verður fylgt þeirri stefnu að stíga varlega og hægt til jarðar.