4.4.2018 9:02

Ingimundur Sigfússon - minning

Ingimundur var einstakur vinur vegna hlýju sinnar. Hann sýndi ótrúlega ræktarsemi en var jafnframt dómharður um menn og málefni ef svo bar undir.

Í dag er vinur minn Ingimundur Sigfússon borinn til grafar í Dómkirkjunni. Ég skrifaði minningargrein um hann í Morgunblaðið og birti hana einnig hér:

Það liðu ekki nema fimm vikur frá því að Ingimundur, vinur minn, greindist með krabbameinið þar til það varð honum að aldurtila. Hann tók úrskurði læknanna af æðruleysi og bjó sig undir það sem verða vildi. Allt gerðist það þó of hratt fyrir okkur sem nutum samvista hans, áhuga hans á að lifa lífinu lifandi og fylgjast með framvindu mála hér og á alþjóðavettvangi. Þegar rætt var við hann um þýsk stjórnmál var aldrei komið að tómum kofanum og í fyrra voru þau Valgerður í innsta vinahring þeirra sem fylgdu Helmut Kohl, fyrrv. Þýskalandskanslara, til grafar.

Traustið sem Ingimundur naut í Þýskalandi þar sem hann átti greiðan aðgang að æðstu mönnum var í anda allrar lífsgöngu hans. Óvænt og ungur að árum tók hann forystu í rekstri Heklu við fráfall föður síns. Oft minntist hann þeirra sem sýndu honum traust á þeim árum, þar á meðal föður míns. Milli þeirra skapaðist vinátta sem ég tók í arf og bar aldrei skugga á hana.

Myndin er tekin á gönguferð um Reykjavík fyrir brotthvarf byggingakrananna 2008.

Ingimundur var einstakur vinur vegna hlýju sinnar. Hann sýndi ótrúlega ræktarsemi en var jafnframt dómharður um menn og málefni ef svo bar undir. Fyrir öllu hafði hann góð og gild rök, ósanngirni var honum ekki í blóð borin.

Eftir að hafa verið einstakir fulltrúar Íslands í sendiráðunum í Þýskalandi og Japan vildu Ingimundur og Valgerður helst dvelja á jörð sinni, Þingeyrum. Hvergi leið honum betur. Ingimundur og Valgerður hlutu landgræðsluverðlaunin árið 2016 fyrir stórfellda uppgræðslu á jörðum sínum Sigríðarstöðum og Þingeyrum. Á þeim eru stærstu sjávarsandar í Húnavatnssýslum

Ingimundur lét verulega að sér kveða á sviði menningarmála. Þau Valgerður ýttu einnig Þingeyraverkefninu úr höfn, það er rannsóknum sem reistar eru annars vegar á fornleifagreftri á gamla klausturstaðnum og hins vegar á bókmenningunni sem blómstraði í klaustrinu. Áhugi Ingimundar og umhyggja fyrir vísindamönnunum sem gengu til liðs við verkefnið var öllum einstök hvatning.

Þessi mynd er tekin á Þingeyrasandi 30. ágúst 2010.

Fyrst og síðast minnumst við Rut góðs vinar sem jafnan var boðinn og búinn að leggja því lið sem bar hæst hverju sinni hvort sem það var á sviði tónlistar í Þingeyrakirkju eða stjórnmála.

Í prófkjöri kom ekki annað til greina en að bjóða mér aðstöðu í húsi Heklu við Laugaveg. Ingimundur setti þar upp skilti með áletruninni: Þeir fiska sem róa.

Nokkrum árum áður hafði hann drifið mig í Talskólann til Gunnars Eyjólfssonar og Baldvins Halldórssonar og varð það til þess að leiðir okkar Gunnars tengdust síðar vegna sameiginlegs áhuga á qigong.

Ógleymanleg er ferðin með Ingimundi og sonum hans, Vali og Sigfúsi, frá Wolfsburg í Vestur-Þýsklandi um Austur-Þýskaland til Prag í ársbyrjun 1990 til að kynnast mannlífinu nokkrum mánuðum eftir fall kommúnismans.

Yfir minningunum er gleði og birta, þakklæti fyrir vináttu og mikla umhyggju.

Erfitt að meta sálarstyrk. Þegar dauðinn nálgaðist og ekkert varð að gert sýndi Ingimundur þann styrk af mikilli reisn. Sú minning gerir sorgina léttbærari.

Við flytjum Valgerði, Vali og Sigfúsi og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Ingimundar Sigfússonar.

Uppfært síðdegis:

Jarðarförin var látlaus og hátíðleg. Dómkirkjan var þéttsetin. Prestur var sr. Hjálmar Jónsson. Organisti: Kári Þormar. Einsöngvari: Ágúst Ólafsson og söng hann Ständchen eftir Franz Schubert. Fiðluleikari: Rut Ingólfsdóttir sem lék Air eftir Bach og Máríuvers eftir Pál Ísólfsson. Sellóleikari: Inga Rós Ingólfsdóttir sem lék Litanie eftir Schubert. Kammerkór Dómkirkjunnar söng en Útfararstofa Íslands, Sverrir Einarsson, hafði umsjón útfararinnar. Boðið var til erfis að athöfn lokinni í Hörpu (2. hæð).