8.10.2020 9:57

Lækningin sögð verri en veikin

Lýst er „þungum áhyggjum“ af því að sú stefna sem nú ráði í baráttunni gegn COVID-19-faraldrinum valdi líkamlegum og geðrænum skaða.

Á netinu er unnt að rita undir yfirlýsingu sem kennd er við Great Barrington, bæ í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum. Hún varð til í bænum laugardaginn 3. október 2020 í málstofu hugveitunnar American Institute for Economic Research. Síðan hafa þúsundir lækna, heilbrigðisstarfsmanna og almennra borgara ritað undir yfirlýsingu um markvissa vernd í stað alhliða hafta gegn COVID-19-faraldrinum.

Hvarvetna magnast umræður um að of langt sé gengið í sóttvarnaaðgerðum. Margt einkennist af innantómum upphrópunum. Annað er betur ígrundað. Hér er útdráttur úr Great Barrington-yfirlýsingunni.

Screen-Shot-2020-10-06-at-3.52.14-PMFrumkvöðlar Great Barrington-yfirlýsingarinnar: Martin Kulldorff, Harvard-læknaskólanum, Sunetra Gupta, Oxford-háskóla, og Jay Bhattachayra, Stanford-háskóla, við byggingu American Institute of Economic Research í Great Barrington.

Lýst er „þungum áhyggjum“ af því að sú stefna sem nú ráði í baráttunni gegn COVID-19-faraldrinum valdi líkamlegum og geðrænum skaða. Í yfirlýsingunni segir að núverandi stefna hafi hörmulegar afleiðingar bæði til skemmri og lengri tíma: bólusetningum barna fækki; hjartasjúkdómar versni; krabbameinsskoðunum fækki og geðræn heilsa versni. Dauðsföllum fjölgi því umfram það sem þyrfti að vera á komandi árum og þyngstu byrðarnar leggist á verkafólk og yngsta fólk samfélagsins. Það sé alvarlegt óréttlæti að halda námsmönnum utan skóla.

Það leiði til óbætanlegs tjóns að beita þessum aðferðum þar til bóluefni komi til sögunnar, það bitni sérstaklega þungt á þeim sem minna mega sín.

Nú sé vitað að meira en þúsund sinnum meiri líkur séu á því að aldraðir og veikburða falli fyrir COVID-19 en ungt fólk. Raunar sé COVID-19 hættuminni fyrir börn en margt annað, þar með inflúensa.

Með því að byggja upp ónæmi meðal fólks minnki líkur á smiti – einnig í áhættuhópum. Vitað sé að hvarvetna ráði á endanum hjarðónæmi meðal manna, það er að nýsmit nái stöðugleika. Að ná þessu verður auðveldara með bóluefni (án þess að bóluefnið sé forsendan). Fækka eigi dauðsföllum og draga úr félagslegu tjóni þar til hjarðónæmi næst.

Það verði best gert með því að leyfa þeim sem búa við minnstu hættuna að lifa eðlilegu lífi og byggja upp ónæmi gagnvart veirunni með náttúrulegu smiti á sama tíma og þeir sem eru varnarlausir njóti verndar. Þetta sé markviss vernd.

Í þessu skyni þurfi að huga sérstaklega vel að smitvörnum hjá starfsfólki hjúkrunarheimila. Eftirlaunaþegar í heimahúsum eigi að fá dagvörur sendar heim til sín. Þeir eigi, sé þess kostur, helst að hitta fjölskyldur sínar utan dyra, Það sé unnt að setja um þetta framkvæmanlegar reglur, þekking til þess sé fyrir hendi hjá heilbrigðisstarfsfólki.

Tafarlaust eigi að leyfa þeim sem ekki búa við áhættu að lifa eðlilegu lífi. Einfalt hreinlæti eins og að þvo sér um hendur og að halda sér heima með veikindi lækki hjarðónæmis-þröskuldinn. Skólar og háskólar skuli vera opnir og kennsla fara fram í þeim. Leyfa beri íþróttaiðkun. Ungt fólk sem býr við litla áhættu ætti frekar að fara á vinnustað en vinna að heiman. Opna skuli veitingastaði og aðra starfsemi. Heimila beri listflutning, tónlist, kappleiki og aðra menningarstarfsemi. Þau sem búa við meiri áhættu megi taka þátt ef þau vilja en samfélagið í heild nýtur verndarinnar sem veitt er þágu varnarlausa hópsins af þeim sem hafa byggt upp hjarðónæmið.