10.1.2019 10:19

Liðsstjórar „herskáu stéttabaráttunnar“

Þau atriði sem framkvæmdastjóri Eflingar nefnir skipta vissulega máli en eru aukaatriði þegar litið er til meginefnis pistilsins.

Eftir að pistill gærdagsins birtist hér á síðunni í gær barst bréf frá Viðari Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Eflingar stéttarfélags, þar sem segir meðal annars:

„Það er rangt að fjármálastjóri eða nokkur starfsmaður Eflingar hafi „fengið fyrirmæli um að fara í veikindaleyfi.“ Leyfi vegna veikinda, fæðingarorlofs o.s.frv. eru samnings- og lögbundin réttindi sem starfsmenn Eflingar nýta sér að eigin frumkvæði að uppfylltum skilyrðum þegar tilefni er til. Stjórnendur Eflingar reyna að sjálfsögðu ekki að hafa áhrif á það hvenær eða hvernig starfsmenn félagsins nýta sér þau réttindi. Fullyrðingar um slíkt eru rógburður.“

Felist „rógburðurinn“  í að fara rangt með hvernig Viðar og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, komu fram við tvo starfsmenn Eflingar væri forvitnilegt að vita hvað Viðar segir um vitnisburð starfsmannanna sjálfra sem birtist 28. nóvember 2018 á visir.is og lesa má hér.

Skuli eitthvað að því fundið sem sagt var um þetta mál hér í gær felst réttmæt gagnrýni í því að ekki hafi verið nógu fast að orði kveðið um framkomu Viðars í garð þessara tveggja starfsmanna. Konurnar „hrökluðust“ að eigin sögn í veikindaleyfi vegna framgöngu Viðars og hafa „upplifað algjört niðurbrot“.

Marx200Í bréfi sínu tekur Viðar jafnframt til varna fyrir fjárgreiðslur Eflingar til Öldu Lóu Leifsdóttur blaðamanns fyrir störf hennar og segir: „Hvergi hefur komið fram athugasemd frá fjármálastjóra vegna reikninga frá Öldu Lóu, enda með öllu óskiljanlegt á hvaða forsendum fjármálastjóri hefði sett getað fram slíka athugasemd.“

Þau atriði sem framkvæmdastjóri Eflingar nefnir skipta vissulega máli en eru aukaatriði þegar litið er til meginefnis pistilsins. Hann snerist um að með því að stofna „félagssvið“ innan Eflingar væri sköpuð leið til að verkefnaráða Gunnar Smára Egilsson, leiðtoga Sósíalistaflokksins, til starfa fyrir félagið.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (10. janúar) er fjallað um þessa nýju áherslu í starfi Eflingar og réttilega sagt: „Því miður starfar núverandi forysta Eflingar eins og hún hafi einhver allt önnur markmið en að bæta kjör félagsmanna sinna og telur sig bersýnilega ekki bera nokkra ábyrgð á bættum hag þeirra eða annarra landsmanna.“

Hér á þessari vefsíðu hefur ítarlega verið fjallað um fjármálaumsvif Gunnars Smára Egilssonar í áranna rás eins og unnt er að sjá með því að nota leitarvél síðunnar. Þetta eru skrautlegar sviptingar eins og til dæmis þessi frétt á mbl.is frá 4. maí 2016 sýnir. Þeir sem þar eru nefndir til sögunnar eru að sjálfsögðu einstaklega vel til þess fallnir að leiða „herskáu stéttabaráttuna“ sem nú er boðuð í nafni Eflingar.