15.7.2017 23:00

Minning Snorra í Reykholti

Í dag var þess minnst í Reykholti í Borgarfirði að 70 ár eru um þessar mundir frá því að Norðmenn gáfu okkur Íslendingum styttuna af Snorra Sturlusyni sem stendur fyrir framan gamla héraðsskólahúsið þar.

Í dag var þess minnst í Reykholti í Borgarfirði að 70 ár eru um þessar mundir frá því að Norðmenn gáfu okkur Íslendingum styttuna af Snorra Sturlusyni sem stendur fyrir framan gamla héraðsskólahúsið þar.

Í kynningu Snorrastofu á athöfninni sagði: 

„Fullyrða má að einhver merkasti viðburður í sögu [Borgarfjarðar]héraðsins á seinni tímum hafi verið afhending Snorrastyttunnar í júlímánuði 1947 – en þá var haldin fjölmennasta þjóðhátíð í sögu héraðsins.  Hátíðarhöldin 1947 voru  í  undirbúningi í áratugi – og var ótrúlega mikið við haft, þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnir Íslands og Noregs tóku þátt í hátíðarhöldunum og talið er að á milli 10 og 14 þúsund manns hafi komið í Reykholt til að taka þátt í hátíðinni sem markaði djúp spor í menningarvitund þjóðarinnar. Nú þegar 70 ár eru liðin frá því að styttan af Snorra Sturlusyni eftir norska myndhöggvarann Gustav Vigeland var afhjúpuð við fjölmenna  og virðulega athöfn, í júlímánuði 1947 er því verðugt tilefni til afmælishátíðar – og sögusýningar.“

Athöfnin fór fram í þéttsetinni Reykholtskirkju og síðan var gengið í hátíðarsal gamla skólahússins  og skoðuð sýning um viðburðinn 1947. Þar sést hve viðamikið þetta verkefni var og snerist í raun um miklu meira en Snorrastyttuna.

Óskar Guðmundsson rithöfundur lýsti aðdragandanum í eftirminnilegu erindi og benti á að Norðmenn lögðu rækt við Snorra og verk hans fyrr en við Íslendingar.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrv. forseti Íslands, setti hátíðarathöfnina í kirkjunni. Nú er rúmt ár liðið frá því að hann lét af embætti forseta Íslands og man ég ekki eftir að hafa séð eða heyrt að hann hafi látið að sér kveða við athöfn sem þessa síðan. 

Ólafur Ragnar er önnum kafinn vegna Arctic Circle og stóð meðal annars nýlega fyrir 600 manna ráðstefnu í Washington í samvinnu við Wilson Center. 

Hér má lesa ávarp mitt.