Miðvikudagur, 09. 11. 05.
Evrópunefndin kom saman í hádeginu í dag, en síðdegis flaug ég til London vegna funda, sem ég mun sitja í Cambridge-háskóla á morgun og föstudag.
Eftir komu mína til London frétti ég, að Tony Blair hefði tapað fyrstu atkvæðagreiðslu í breska þinginu á þeim átta árum, sem hann hefur setið sem forsætisráðherra. Tekist var á um lagafrumvarp, þar sem mælt var fyrir um heimild lögreglunnar til að halda grunuðum hryðjuverkamönnum 90 daga í gæsluvarðhaldi án þess að birta þeim ákæru. Blair barðist fyrir 90 dögunum en varð að sætta sig við 28 daga, í stað 14 núna. Stjórnarandstaðan segir, að breska ríkisstjórnin og lögreglan hafi nú lengsta tíma allra lýðræðislegra ríkisstjórna til að halda mönnum í gæsluvarðhaldi án þess að birta þeim ákæru og alls ekki hafi verið þörf á 90 dögum.
Í BBCvelta menn því fyrir sér, hve lengi Blair eigi eftir að sitja sem forsætisráðherra. Dagar hans séu í raun taldir, spurningin sé, hve virðuleg brottför verði. Hann eigi ekki sjö dagana sæla, eftir að 49 af eigin þingmönnum hans snerust gegn honum. Þeir geti hæglega gert það aftur, eftir að hafa gert það í máli, sem forsætisráðherrann taldi snerta öryggi ríkisins, hvorki meira né minni.