23.3.2006 22:11

Fimmtudagur, 23. 03. 06.

Frumvarp, sem ég flutti sl. þriðjudag um ný vegabréf með lífkennum, hefur ekki vakið mikla athygli í fjölmiðlum. Það er skrýtið vegna þess að fyrr í vetur skrifaði til dæmis Morgunblaðið töluvert um þetta mál og þá sérstaklega frá sjónarhóli ljósmyndara, sem töldu að sér vegið með því, að almenningur gæti sjálfur tekið af sér rafræna mynd hjá sýslumanni eða lögreglu, þegar sótt væri um hið nýja vegabréf. Mig minnir einnig að blaðið hafi látið í ljós vanþóknun á því, að rætt væri um, að hin nýju vegabréf yrðu dýrari en þau, sem nú eru útgefin og komu til sögunnar 1999 með tölvulesanlegri rönd.

Samkomulag náðist við ljósmyndara um, að þeir gætu sent rafræna mynd af umsækjanda til útgefanda vegabréfs og þannig yrðu þeir ekki endilega af viðskiptum vegna nýju vegabréfanna. Í ræðu minni vegna frumvarpsins skýrði ég frá því, að það hefðu tekist svo hagstæðir samningar um tæki til að framleiða vegabréfin ( en það verður gert í Reykjanesbæ og skapar 4 ný störf), að ekki þyrfti að hækka verð á vegabréfum vegna breytingarinnar.

Morgunblaðið gerði verði á vegabréfum svo hátt undir höfði, að það birti nöldurleiðara um málið 30. nóvember 2005, þar sem sagði meðal annars:

„Það væri athyglisvert að sjá greiningu á þeim kostnaði sem liggur að baki útgáfu vegabréfa hér á landi. Þótt að sjálfsögðu verði að gæta fyllsta öryggis og beita nýjustu tækni við útgáfu þessara mikilvægu skilríkja er erfitt að gera sér í hugarlund að beinn kostnaður réttlæti þessa háu gjaldtöku.“

Kvartaði blaðið sérstaklega undan því, að menn þyrftu að greiða hátt verð fyrir flýti-afgreitt vegabréf, en sú þjónusta hefur verið einstaklega góð hjá útlendingastofnun. Skyldi Morgunblaðið rita fagnaðarleiðara núna vegna hins óbreytta verðs?  

Það er fjallað um þessi e-vegabréf í fagritinu CardTechnology og sagt frá því, að almennt hækki þau í verði: Ástralíu úr 115 USD í 129 USD; Hong Kong úr 41 USD í 59 USD; Tékklandi úr 8 USD í 37 USD; Þýskalandi úr 31 USD í 71 USD; Bretlandi úr 82 USD í 91 USD; Bandaríkjunum úr 85 USD í 97 USD. Gjaldtakan verður óbreytt í Belgíu 85 USD og Tælandi 50 USD. Hér er gjald fyrir vegabréf fyrir þá, sem eru á aldrinum 18-66 ára 5.100,- kr en 10.100- kr. fyrir hraðafgreiðslu.