25.3.2006 11:40

Laugardagur, 25. 03. 06.

Klukkan 10.42 var hringt til mín og mér tilkynnt sem hluta af æfingunni Bergrisinn, að eldsumbort væru að hefjast í Kötlu og gerðar hefðu verið ráðstafanir til að virkja samhæfingarmiðstöð almannavarna og kalla saman fund vísindamanna til að leggja mat á stöðuna. Um hálftíma síðar var mér tilkynnt, að rýming fólks á svæðinu væri að hefjast.

Í færslu hér á síðuna í gær vitnaði ég í Ólaf Teit Guðnason, þar sem hann fjallaði meðal annars um blaðamennsku DV. Dæmi um það, hvernig DV tekur á málum, sem snerta mig má sjá í svonefndri fréttakýringu í blaðinu í dag eftir Jakob Bjarnar Grétarsson en þar ræðir hann skipun dómara í hæstarétt og gefur þessa skýringu á því, að ég skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson dómara þar:

„Heimildir DV herma að það skipti máli þegar Björn skipaði óvænt Ragnheiði Torfadóttur rektor við MR, 7. apríl 1995. Meðal umsækjanda þá var Ólafur Oddsson menntaskólakennari. Svo sjálfsagt mun Davíð hafa þótt að Ólafur fengi stöðuna að hann hafði ekki fyrir því að árétta það við Björn. Svo mjög varð Davíð við, samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV, að hann horfði í gegnum Björn næsta árið, yrti hvorki á hann né svaraði símhringingum hans. Þessi meðferð varð svo til þess að Björn hikaði hvergi, þótt það væri gegn öllu öðru, að skipa Ólaf Börk.“

Allt í þessari tilvitnuðu klausu er rangt annað en það, að Ólafur Oddsson, gamall félagi minn úr Háskóla Íslands og hálfbróðir Davíðs, sótti um að verða rektor MR ásamt Ragnheiði Torfadóttur  og ég skipaði Ragnheiði. Dagsetningin er röng - ég varð ekki ráðherra fyrr en 23. apríl 1995 og lýsing Jakobs á samskiptum okkar Davíðs er uppspuni frá upphafi til enda. Ég veit ekki hverjir það eru, sem gera Jakob að ósannindamanni, því að ekki lætur hann heimildamanna sinna getið. Jakob hafði ekki frekar nú en áður, þegar hann skrifar eitthvað til að gera lítið úr hlut mínum, samband við mig til að hafa það sem sannara reynist. Miðað við fyrri vinnubrögð Jakobs kæmi mér ekki á óvart, að hann hefði samið það, sem Ólafur Teitur taldi einsdæmi í fjölmiðlarýni sinni og ég nefndi hér í gær.