23.8.2006 20:19

Miðvikudagur, 23. 08. 06.

Evrópunefnd kom saman til fundar í hádeginu.

Ég hef ekki áttað mig til fulls á því, fyrr en ég horfði á Kastljósið í kvöld, um hvað ágreiningurinn er einkum núna vegna Kárahnjúkastíflunnar. Þar hittust þeir og ræddu málið undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar: Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Guðmundur Páll Ólafsson, náttúruunnandi og rithöfundur.

Ágreiningurinn á lokadögum stíflugerðarinnar snýst um aðgang að lokaðri skýrslu Landsvirkjunar, sem er afhent af þeim, sem ber ábyrgð á gerð hennar, en ekki bókaverði Landsvirkjunar. Skýrslan hefur til dæmis verið afhent Guðmundi Páli. Spurningin er um það hvað felst í orðunum „lokuð skýrsla“. Friðrik sagði skýrsluna ekki trúnaðarmál en Guðmundur Páll taldi svo vera, enda hefði blaðamaður ekki fengið skýrsluna fyrr en klukkutíma, eftir að hann bað um hana.

Þá er deilt um það, hvers vegna Grímur Björnsson jarðfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) fær ekki að tjá sig opinberlega um niðurstöður sínar eftir lestur á skýrslum  hjá Landsvirkjun um gerð stíflunnar og rannsóknir vegna hennar. Grímur hefur setið stjórnarfund Landsvirkjunar og rætt við starfsmenn hennar og óháða matsmenn og sagt álit sitt. Friðrik segir OR ráða því, hvaða reglur gilda um málfrelsi starfsmanna hennar. Guðmundur Páll gefur til kynna, að OR sé beitt þrýstingi í málinu.

Í Morgunblaðinu sunnudaginn 20. ágúst var sagt frá því, að Grímur Björnsson hefði veitt Morgunblaðinu vilyrði fyrir ýtarlegu viðtali þar sem hann ætlaði að tjá sig sem vísindamaður. Þegar taka átti viðtalið tjáði Grímur blaðamanni Morgunblaðsins að hann mætti ekki tjá sig um málefni samkeppnisaðila og því gæti hann ekki veitt umrætt viðtal.

Loks er deilt um það, hvort lýðræðisleg ákvörðun hafi verið tekin um Kárahnjúkastífluna. Friðrik segir svo vera, enda hafi alþingi samþykkt hana og ýmsar sveitarstjórnir. Guðmundur Páll segir það ekki til marks um lýðræði.

Guðmundur Páll talaði á þann veg, að líklegt væri, að stíflan brysti. Friðrik andmælti því og sagði málflutning Guðmundar Páls minna sig á hrakspárnar um, að Hvalfjarðargöngin yrðu ónothæf vegna leka og Búrfellsvirkjun gagnslaus vegna ísmyndunar.

Eftir að hafa hlustað á rökræður þeirra Friðriks og Guðmundar Páls er enginn vafi í mínum huga um, að Friðrik hafði miklu meira til síns máls en Guðmundur Páll. Kannski er ekki að marka mig, vegna þess að ég er fyrir löngu bólusettur gegn samsæriskenningum og heimsslitaspám.