4.1.2007 21:38

Fimmtudagur, 04. 01. 07.

Myndskeiðið, sem birt var úr eftirlitsmyndavélinni á kínverska sendiráðshúsinu að Garðarstæti 41, og sýndi hrottalega árás ungra pilta á friðsama vegfarendur, hefur vakið óhug. Myndskeiðið sannar einnig gildi eftirlits af þessum toga, því að foreldrar piltanna komu þeim sama kvöld undir manna hendur og málið er upplýst.

Ákvörðun lögreglunnar um að senda myndskeiðið til birtingar er ein hlið sýnilegrar löggæslu. Hún felst ekki einvörðungu í því, að lögreglumenn séu sýnilegir, heldur einnig hinu, að beitt sé öðrum úrræðum, þar á meðal að lögreglan sýni almenningi þá, sem ógna öryggi borgaranna í því skyni að hafa hendur í hári þeirra.

Þegar ég las fréttayfirlit nýársdags rakst ég á þetta úr kvöldfréttum sjónvarps ríkisins:

„Vegna umfjöllunar um hleranir í svipmyndum af innlendum vettvangi í gærkvöld, skal það tekið fram að flestar kröfur dómsmálaráðuneytisins um dómsúrskurði til hlerana á árunum 1949 til 1968, voru lagðar fram í ráðherratíð Bjarna Benediktssonar, þáverandi dómsmálaráðherra, samkvæmt rannsókn Guðna Th. Birgissonar, sagnfræðings. Ranglega var sagt að ráðherrann hefði sjálfur heimilað hleranir.

Leiðrétting síðar í fréttatímanum: Og Guðni Th. sagnfræðingur sem við vorum að vitna í hér áðan er að sjálf sögðu Jóhannesson en ekki Birgisson. Við biðjumst velvirðingar á mistökunum.“

Í þessum fréttaannáli sjónvarpsins á gamlársdag sagði:

„Rannsóknir sagnfræðings á hlerunum skóku þjóðfélagið á árinu. Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur: Frá árinu 1949 til 1968 voru kveðnir upp átta úrskurðir um símahleranir. Skrifstofur Sósíalistaflokksins og Þjóðviljans voru hleraðar, heimasímar nokkurra þingmanna og skrifstofa ASÍ. Þjóðaröryggi var sagt í húfi í tengslum við NATO-slaginn á Austurvelli og í landhelgisdeilunni við Breta. Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra heimilaði í flestum tilvikum hleranirnar en Jóhann Hafstein einu sinni. “

Ég veit ekki, hver vakti athygli fréttastofunnar á þessum rangfærslum hennar, en athyglisvert er, að hún biðst velvirðingar á þeim mistökum, að segja Guðna Th. Jóhannesson Birgisson en ekki á því, að fara með rangt mál um það, hvernig staðið var að ákvörðunum um símhleranirnar.