5.2.2007 10:12

Mánudagur, 05. 02. 07.

Fór í Laugardalslaugina og var kominn ofan í rúmlega 06.30 en var svo andstuttur að ég treysti mér ekki til að synda meira en 200 metra. Síðan fór ég qi gong og þar var mér einnig brugðið vegna þess, hve andstuttur ég var.

Sat síðan fund með ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og að honum loknum með málefnanefnd flokksins um réttarfarsmálefni fram til klukkan 13.00.

Við Þórður Harðarson læknir hittumst reglulega til að fylgjast með því að blóðþrýstingur minn sé í lagi og í vikunni höfðum við einmitt mælt okkur mót með löngum aðdraganda. Hittumst við 13.15 heima hjá mér og undir kl. 14.00 var ég kominn á bráðamóttöku LSH við Hringbraut, við hlustun heyrði Þórður ekkert í hægra lunganu og hafði samband við Halldóru Björnsdóttiur lækni á bráðamóttökunni, sem tók vel á móti mér með samstarfsfólki sínu. Við myndatöku kom í ljós, að hægra lungað var fallið saman.

Þá tók Bjarni Torfason skurðlæknir við mér og setti „dren“ eða brjóstholskera inn í brjóstholið. Það er slanga sem komið er fyrir í bilinu milli lungans og brjóstveggjarins. Sog er sett á slönguna og myndast þá neikvæður þrýstingur inni í brjóstholinu sem gerir það að verkum að lungað þenst út aftur. Ég var staðdeyfður á meðan Bjarni setti kerann inn í brjóstholið og síðan var ég tengdur soginu. Tók þetta ekki nema nokkrar mínútur og var ekki mjög sársaukafullt. Nokkurn tíma tók lungað að þenjast út og var sárt, þegar það lagist aftur að brjóstveggnum. Ég þarf að vera með kerann í mér á meðan gatið á lunganu er að gróa.

Þessi sjúkdómur nefnist loftbrjóst og nokkrar ástæður eru sagðar fyrir honum og er ástæðan gjarnan sú, að litlar blöðrur hafa myndast á yfirborði lungans. þær springa og gat kemur á lungað. Þá lekur loft úr lunganu inn í brjósthol og hluti lungans eða allt lungað fellur saman, hjá mér féll allt lungað saman.

Fumlaust, af frábærri kunnáttu og vinsemd var tekið á móti mér hér á spítlanum. Ég varð að afboða mig af þingi, þar sem voru óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á dagskrá og síðan utandagskrárumræða um svonefnda leynisamninga með varnarsamningnum.