28.4.2007 22:03

Laugardagur, 28. 04. 07.

Með ólíkindum er að hlusta á vangaveltur í þá veru, að með samkomulaginu við Norðmenn um, að orrustuflugvélar þeirra geti athafnað sig á Keflavíkurflugvelli, sé verið að stíga svipað skref og gert var með Gamla sáttmála árið 1262. Þá er einnig einkennilegt að heyra, að það geti kostað Íslendinga mörg hundruð milljónir að standa við sinn hluta samkomulagsins.

Hvort þessi misskilningur allur á uppruna sinn í norskum eða íslenskum fjölmiðlum, veit ég ekki. Hitt er ljóst, að með vísan til brottfarar varnarliðsins og þó sérstaklega bandaríska flughersins, hafa vaknað spurningar um, hver fyllti tómarúmið eftir bandarísku orrustuvélarnar í íslenskri lofthelgi.

Hermálanefnd NATO var hér á ferð í dymbilvikunni og þá var látið í veðri vaka, að hún myndi fljótt, og jafnvel fyrir páska, taka af skarið um afstöðu sína til öryggisgæslunnar í lofti. Af Morgunblaðinu í morgun mál helst ráða, að innan NATO sé þetta mál enn í lausu lofti.