6.5.2007 20:23

Sunnudagur, 06. 05. 07.

Nicolas Sarkozy var kjörinn forseti Frakklands í dag og tekur við störfum 17. maí. Vinstrisinnar í Frakklandi töpuðu í dag þriðju forsetakosningunum í röð og af umræðum í franska sjónvarpinu má ráða, að nú hefjist enn og aftur átök innan raða franskra sósíalista um forystumenn og stefnumál. Laurent Fabius, sem er einn af leiðtogum franskra sósíalista, var þráspurður um það, hver mundi leiða sósíalista í komandi þingkosningum í Frakklandi, hann vék sér undan að svara beint með þeim orðum, að það yrði samhent forysta.

Það verður spennandi að fylgjast með því, hvort og hvernig Sarkozy tekst að hrinda róttækum stefnumálum sínum í framkvæmd. Tekst honum í raun að breyta frönsku þjóðfélagi á þann veg, sem hann hefur lofað? Margir forystumenn Frakka hafa áður kveðið fast að orði um nauðsyn breytinga, án þess að koma þeim í framkvæmd.

Eitt af átakaefnum í forsetakosningunum í Frakklandi var lengd vinnutímans. Sósíalistar hafa viljað 35 tíma vinnuviku og Royal, frambjóðandi þeirra, sagði í sjónvarpskappræðunum við Sarkozy, að hún vildi halda fast í þessa reglu, fólk ætti ekki að vinna of lengi, þá kæmust fleiri inn á vinnumarkaðinn. Sarkozy segist ekki vilja setja þak á vinnutímann - hitt stuðli að meiri vexti að leyfa sem flestum að vinna sem mest. Atvinnuleysi er mikil meinsemd í Frakklandi, einkum meðal ungs fólks.

Nú hefjast vangaveltur um, hvern Sarkozy gerir að forsætisráðherra, þegar hann sest í forsetastólinn. De Villepin, núverandi forsætisráðherra, og skjólstæðingur Jacques Chiracs, fráfarandi forseta, mun áreiðanlega víkja, því að samband þeirra Sarkozys byggist ekki á gagnkvæmum trúnaði.