20.5.2007 21:38

Sunnudagur, 20. 05. 07.

Játningar Ágústínusar voru ritaðar 397 til 401 eða fyrir rúmum 1600 árum og eru enn til eftirbreytni, enda gaf Hið íslenska bókmenntafélag þær út á síðasta ári í þýðingu herra Sigurbjörns Einarssonar biskups. Þar segir meðal annars:

„Þá eru og slík verk óhæfa, sem í er fólgin löngun til þess að vinna öðrum mein, skömm eða skaða. Þau stjórnast af hefndarhug, eins og þegar fjandmenn skiptast við, eða ábatavon, svo sem þegar stigamaður ræðst á vegfaranda. Þá getur valdið hræðsla um illt af annars hendi, er menn vilja firra sig, eða öfund - sá, sem illa vegnar, skaðar hinn, sem betur má, eða sá, sem nýtur einhvers gengis, níðist á þeim, sem hann óttast að nái sér eða fellur þungt að vita jafnan sér. Stundum ræður og ein saman nautn af annarra kvölum, svo sem hjá þeim, er hafa gaman af mannvígum skylmingaleikja, eða þeim, sem hæða og spotta bágstadda.“

Þessi orð eru til marks um, hvers vegna Játningarnar eru klassískar og eiga erindi til okkar enn það dag í dag. Þau minna okkur einnig á að mannlegt eðli hefur ekki breyst - hinn kristni boðskapur á enn fullt erindi til okkar allra.