15.8.2007 18:53

Miðvikudagur, 15. 08. 07.

Gunnlaugur Júlíusson heldur úti vefsíðu, þar sem hann fræðir lesendur um langhlaup og aðrar þrekraunir. Hann ræðir einnig ýmislegt annað eins og hér má sjá:

„Það var skrítið fréttamatið hjá Kastljósi sjónvarpsins nýlega. Einhver stelpa sem hafði verið dæmd fyrir ólöglegt athæfi við vinnubúðir Alcoa á Reyðarfirði vildi heldur sitja inni í fjóra daga en borga 50 þúsund kall í sekt. Sýndur var mikill langhundur um hennar hlið málsins í Kastljósi eins og hún væri einhver píslarvottur og hinar ólöglegu gerðir hennar rétlættar eins og hægt var. Í myndskeiðum sem tekin voru var m.a. reynt að lítillækka lögregluna og gera hana tortryggilega. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem sjónvarpið er á þeim nótum. Mega allri þeir sem dæmdir verða fyrir ólöglegt athæfi í þjóðfélaginu búast við að sjónvarpið veiti þeim slíkan stuðning eða hvað er þetta eiginlega. Er sjónvarpið komið í krossferð í þessum málum?“

Stefán Pálsson, málsvari hernaðarandstæðinga, ætlar að rölta um borgina á menningarnótt. Hann væntir að sjálfsögðu mikils af deginum og segir við Fréttablaðið í dag: „Það væri óvæntur bónus ef löggan lumbrar á okkur eða sprautar á okkur táragasi en ég býst við að hún verði upptekin við önnur störf.“

Páll Baldvin Baldvinsson ritar ekki vinsamlega um lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í leiðara Fréttablaðsins í dag, telur hana ekki blanda nóg geði við fólk. Hvort hann telur bónus við ferð um miðborgina að löggan lumbri á honum, kemur ekki fram. Egill Helgason vill að lögreglan sé í flokkum meðal fólks við næturskemmtun sína, líklega svo að hún sé betur í stakk búinn til að lumbra á fólki.

Jónas Kristjánsson segir: „Miðbærinn í Reykjavík er eini miðbær evrópskra höfuðborga, sem er undirlagður óðum skríl um nætur og morgna.“Í sömu mund berast fréttir frá Danmörku um, að lögregla þar sé með málmleitartæki til að finna hnífa á næsturskríl í borgum þar. Breskir lögreglumenn hvetja til þess, að verð á áfengi sé hækkað þar í landi og áfengiskaupaaldur í 21 ár til að hafa hemil á drykkjuskríl í borgum í Bretlandi.

Víðar en hér er vandasamt að tryggja öryggi vegna skríls- og drykkjuláta. Gagnaðgerðir taka mið af aðstæðum á hverjum stað.