23.10.2007 21:17

Þriðjudagur, 23. 10. 09.

Franco Frattini, sem fer með dóms- og innflytjendamál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB), hefur kynnt tillögu um „blátt kort“ sambandsins, sem yrði sambærilegt við „grænt kort“ Bandaríkjanna og mundi auðvelda komu fólks frá þriðju ríkjum inn á vinnumarkað ESB.

Viðbrögðin við tillögunni eru blendin. Sumir telja mikilvægara að útrýma atvinnuleysi innan ESB í stað þess að setja nýjar reglur um komu vinnuafls. Vandinn er hins vegar sá, að í mörgum löndum, til dæmis Þýskalandi, er skortur á sérfræðingum eða sérmenntuðu fólki. Þar hefur ekki tekist að ná pólitískri samstöðu á heimavelli um að opna þýskan vinnumarkað, Þjóðverjar ættu hins vegar auðveldara með að sætta sig við að fólkið kæmi á „bláu korti“ ESB.

Hér á landi hefur verið hvatt til þess, að settar séu sérstakar reglur, sem auðveldi íslenskum fyrirtækjum að fá sérfróða starfsmenn frá löndum utan EES-svæðisins. Lagafrumvörp um það efni verða kynnt á alþingi í vetur, ef áform á vettvangi ríkisstjórnar ná fram að ganga.