26.11.2007 3:16

Mánudagur, 26. 11. 07.

Það rigndi í Boston í dag. Fyrir hádegið lauk ég við að skrifa ritdóm fyrir Þjóðmál um bókina um Guðna Ágústsson. Ég hafði gaman af því að lesa hana og hefði getað skrifað miklu lengra mál um hana en ég gerði. Harkan í átökunum innan Framsóknarflokksins, þegar ýta átti Guðna til hliðar, var greinilega mun meiri, en áður hefur verið lýst opinberlega. Hið skrýtna er, að Guðni er með pálmann í höndunum, þótt ófarir flokks hans hafi verið miklar.

Upp úr hádegi fórum við á Harvard Square og þaðan í John F. Kennedy School of Government. Innan skólans er alþjóðafræðasetur, Belfer Center. og flutti ég erindi á þess vegum og svaraði síðan spurningum - var þetta málstofa um þróun mála á N-Atlantshafi og heimskautasvæðunum.

Erindið flutti ég í sama fyrirlestrasal og ég heimsótti fyrsta daginn minn á leiðtoganámskeiðinu, sem ég sótti í skólanum árið 2000.

Fyrir utan nemendur og kennara í skólanum voru þarna prófessorar úr öðrum háskólum á svæðinu, þeirra á meðal Michael Corgan frá Boston University, sem er mörgum Íslendingum að góðu kunnur, og Alan K. Henrikson frá Fltecher School. Hann þekkir marga Íslendinga bæði sem kennari og gestur á Íslandi.

Eftir tæplega tveggja tíma málstofu snæddum við kvöldverð í Harvard Faculty Club.