17.8.2008 21:28

Sunnudagur, 17. 08. 08.

Angela Merkel. kanslari Þýskalands, sagði í Tbilisi, höfuðborg Georgíu, á blaðamannafundi með Mikhail Saakashvili, forseta Georgíu, að Georgía ætti fyrr en síðar að gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO).

Yfirlýsingin er svar við innrás Rússa 7. ágúst í Georgíu. Hún er tímabær og hefði raunar átt að ákveða aðild Georgíu á leiðtogafundi NATO í Rúmeníu fyrr á árinu. Þá var Merkel hikandi í afstöðu sinni af tillitssemi við Rússa.

Pólverjar hikuðu við að skrifa undir samning við Bandaríkjamenn um gagneldflaugar í landi sínu. Samningurinn var undirritaður eftir innrásina í Georgíu. Úkraínumenn hafa boðið Bandaríkjamönnum að setja um viðvörunarratsjár fyrir eldflaugavarnir í landi sínu og þeir vilja einnig í NATO.

13. ágúst 1961 reisti kommúnistastjórnin í A-Þýskalandi Berlínarmúrinn með fulltingi Sovétríkjanna. Hann var ekki rifinn fyrr en í nóvember 1989, eftir að Sovétmenn höfðu sagt kommúnistastjórninni, að þeir mundu ekki veita henni hernaðarlegan stuðning.

21. ágúst 1968 ruddust sovéskir skriðdrekar inn í Prag til að kæfa „vorið“, sem hófst þar 5. janáur 1968 - það er öldu frjálsræðis, sem Kremlverjar tölu ógna framgangi sósíalismans og þar með réttlæta valdbeitingu sína - henni lauk ekki fyrr en í ársbyrjun 1990 með flauelsbyltingunni.

Vladimir Pútín og félagar hafa auðveldað íbúum S-Ossetíu að fá rússnesk vegabréf og segjast nú vera að vernda öryggi rússneskra borgara með því að ráðast inn í Georgíu.

Medvedev, Rússlandsforseti, lofaði Sarkozy, Frakklandsforseta, í dag, að brottför rússneskra hermanna hæfist frá Georgíu á morgun. Stendur hann við orð sín?