1.10.2008 18:16

Miðvikudagur, 01. 10. 08.

Alþingi var sett í dag séra Anna Pálsdóttir flutti góða prédikun í Dómkirkju, það setur hátíðlegri svip en áður á athöfnina í þinghúsinu, að þar leikur strengjakvartett ættjarðarlög.

Forseti Íslands flutti ræðu, sem snerist um að gleyma ekki fullveldisdeginum 1. desember og gæta þess, sem áunnist hefur með útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Skýrari varnaðarorð gegn aðild að Evrópusambandinu hefur núverandi forseti ekki flutt yfir þingheimi, síðan hann barðist gegn aðild að evrópska efnahagssvæðinu sem þingmaður í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar.

Ég sé að glöggir bloggarar sakna þess, að forseti skyldi ekki ræða um uppnámið í fjármálakerfinu. Vissulega hefði verið forvitnilegt að hlusta á skilgreiningu Ólafs Ragnars á stöðu útrásarfyrirtækjanna um þessar mundir. Að vísu má segja, að í orðum hans hafi komið fram, að hann teldi ekki ástæðu til að gera of mikið úr viðfangsefni líðandi stundar miðað við það, sem áður var. Dregið skal í efa. að þessi samanburður sé réttmætur.

Í fjölmiðlamálinu gekk Sigurður G. Guðjónsson hrl. fram fyrir skjöldu til að verja hagsmuni auðmanna gegn almannavaldi. Þegar Glitni er bjargað af almannavaldi gengur Sigurður G. Guðjónsson hrl. fram fyrir skjöldu í þágu auðmanna, af því að þeir telja sig tapa á því, að almannavald bjargi Glitni.

Er ekki komið nóg af þessum söng í fjölmiðlum?