5.10.2008 18:46

Sunnudagur, 05. 10. 08.

Þegar fylgst er með fjölmiðlamönnum, sem standa í rigningarsuddanum fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu, mætti halda, að þar væri upphaf og endir þess, sem við er að glíma í fjármálaheiminum.

Glíman hér á hliðstæður víða. Við sjáum þó ekki fréttamyndir frá öðrum löndum, þar sem hlaupið er á eftir fólki upp og niður tröppur. Almennt láta fjölmiðlamenn sér nægja að bíða eftir því, að þeir, sem vitað er, að skýra frá niðurstöðu flókinna umræðna, geri það.

Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kaliforníu, sneri sér sl. fimmutdag til bandaríska fjármálaráðuneytisins með ósk um sjö milljarða dollara stuðning, til að unnt yrði að gera ríkissjóði Kaliforníu kleift að standa við greiðsluskuldbindingar sínar. Skuldabréfamarkaðurinn hefur lokað á Kalíforníu og þess vegna getur ríkið ekki brúað fjárhagslegar skuldbindingar fram að jólum, þegar von er á söluskattstekjum af jólasölu í verslunum.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tilkynnti síðdegis, að þýska ríkið ábyrgðist alla sparifjárreikninga í landinu. Tilkynningin var gefin eftir neyðarfund kanslarans með þýska seðlabankanum og fjármálaeftirilitinu. Ástæðan er erfið staða þýska fasteignalánabankans Hypo Real Estate, en vandræði hans má rekja til þess, að hann fékk ekki 35 milljarði evra að láni. Unnið er að björgunaraðgerðum fyrir bankann en hann geldur þess, að bankar eru hættir að treysta hver öðrum og halda því aftur af sér við lánveitingar. Merkel segir, að stjórnendur fjármálastofnana eigi að sæta ábyrgð fyrir „ábyrgðarlausa framgöngu“ sína.

Þýska ríkisstjórnin fetar með sparifjárábyrgð sinni í fótspor Íra og Grikkja. Fjármálasérfræðingur BBC telur, að breska ríkisstjórnin geti ekki látið sinn hlut eftir liggja.

Ríkisstjórnir Belgíu, Hollands og Lúxemborgar ákváðu í síðustu viku að leggja fram 11,2 milljarði evra til að bjarga stórbankanum Fortis og eignaðist þá hvert ríki 49% af hlut bankans í sínu landi. Aðgerðin varð ekki til að treysta stöðu bankans og sl. föstudag ákvað hollenska ríkisstjórnin að þjóðnýta þann hluta af starfsemi bankans, sem er í Hollandi.

Í kvöld tilkynnti Yves Leterme, belgíski forsætisráðherrann, að ríkisstjórn Belgíu mundi gera ráðstafanir vegna Fortis, áður en evrópskir hlutabréfamarkaðir verða opnaðir á morgun. Vandi Fortis hófst á síðasta ári, þegar hann tók höndum saman við Royal Bank of Scotland og spánska bankann Santander um að kaupa hollenska bankann ABN Amro fyrir 70 milljarði evra.

Þessi lýsing á þróun mála í öðrum löndum bregður í raun ljósi á viðfangsefni, sem blasir við stjórnvöldum í öllum löndum. Við þessar aðstæður verður hver og einn fyrst og síðast að hugsa um eigin hag.