4.11.2008 8:46

Þriðjudagur, 04.11.08.

Ómar Ragnarsson er reyndur fréttamaður til margra ára en hefur nú snúið sér að stjórnmálum sem forystumaður Íslandshreyfingarinnar. Hann heldur úti vefsíðu til að rækta samband við kjósendur. Þar segir hann í færslu:

„3. Dómsmálaráðherra skipar tvo menn til að standa að hvítbók um fjármálahrunið og rannsaka hlut fyrirtækja þar sem synir þeirra eru í forsvari og flæktir í málin svo og tengdasonur ráðherrans.“

Dæmalaust er að lesa þetta. Ég hef ekki skipað neina menn til að semja hvítbók um fjármálahrunið. Ríkissaksóknari átti frumkvæði að því að hafin yrði kortlagning vegna mála, sem tengdust fjármálahruninu, til að búa í haginn, ef til lögreglurannsókna kæmi. Þetta er að sjálfsögðu engin hvítbók um málið og gerð hennar er ekki á mínu forræði. Ríkssaksóknari fékk Boga Nilsson til að vinna að þessu verkefni, ég skipaði hann ekki. Bogi er ekki að rannsaka neitt, það verkefni verður á könnu sérstaks saksóknara nái hugmyndir mínar fram að ganga.

Spurning hefur vaknað um hæfi Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara og Boga Nilssonar til að vinna þessa undribúningsvinnu. Ég hef svarað henni á þann veg, að lögum samkvæmt eigi þeir síðasta orð um hæfi sitt. Ég mun að sjálfsögðu huga að eigin hæfi, þegar ég tek ákvarðanir, sem varða þessi mál öll.

Eftir að hafa lesið þessi orð Ómars Ragnarssonar vaknar spurning um hæfni hans í málinu. Skyldi hann vera maður til að hafa það, sem réttara reynist, og leiðrétta þessi ummæli sín?

Es. undir kvöld ritaði Ómar á vefsíðu sína:

„Á vefsíðu sinni segist Björn Bjarnason ekki hafa skipað Valtý Sigurðsson og Boga Nilsson til verka við hvítbók og átelur mig fyrir ummæli þar að lútandi á vefsíðu minni. Ég skal fúslega hafa það er sannast reynist í þessu máli og biðja Björn Bjarnason afsökunar á því að bendla hann um of við þetta mál.

Ég hefði gjarna viljað gera þetta í formi athugasemdar á vefsíðu hans en mér sýnist að það sé ekki hægt.“

Ég þakka Ómari.