7.11.2008 19:09

Föstudagur, 07. 11. 08.

Hér hef ég sett inn viðtal Freys Eyjólfssonar við mig í Síðdegisútvarpi rásar 2 fimmtudaginn 6. nóvember.

Í samtali okkar Freys er vikið að framkomu Evrópusambandsins og einstakra aðildarríkja þess í okkar garð. Ekki er unnt að setja þar öll ríki undir sama hatt eins og sannaðist í dag, þegar fréttir bárust af 200 milljóna evru lánstilboði Pólverja til okkar. Samband Íslendinga og Pólverja hefur verið mikið og gott undanfarin ár vegna hins mikla fjölda Pólverja, sem hér hafa verið við störf. Þá hafa pólsku Karmelnunnurnar í Hafnarfirði í mörg ár beðið fyrir landi og þjóð. Nú leggur pólska ríkið okkur lið með þessum góða hætti - megi það verða öðrum fyrirmynd innan Evrópusambandsins.

Föstudagsumræður í ljósvakamiðlum eru oft forvitnilegar til að átta sig á hitamálum.´

Á rás 2 ræddu þingmennirnir Bjarni Harðarson, Framsóknarflokki, og Katrín Jakobsdóttir, vinstri/græn, saman, án þess að upplýsa neitt. Þau ræddu til dæmis rannsóknir á bankahruninu, án þess að átta sig á því, hver eru viðfangsefnin í því efni - ég fer inn á það í viðtalinu á rás 2. Vanþekkingin var síðan notuð til að ráðast á ríkisstjórnina.

Í Kastljósi stjórnaði Jóhanna Vilhjálmsdóttir samtali þeirra Bjðrns Inga Hrafnssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Mér finnst merkilegt, hvað Björn Ingi tekur mikið upp í sig í umræðum um þessi mál öll með vísan til aðildar hans á REI-hneykslinu. Þar vörðust sjálfstæðismenn í borgarstjórn, þegar Björn Ingi vildi draga Orkuveitu Reykjavíkur inn í ævintýraferð undir leiðsögn FL Group.

Krafan um upplýsingamiðlun af hálfu stjórnvalda er hávær og mikil. Hún stafar meðal annars af því, að þjóðin treystir ekki einkareknum fjölmiðlum til að segja alla söguna - þeir eru allir í eignarhaldi, sem tengist bankahruninu á einn eða annan  hátt. Þegar einkareknu fjölmiðlarnir veitast að stjórnmálamönnum eða embættismönnum fyrir óhlutdrægni vegna tengsla við aðila að bankahruninu er holur hljómur í þeim aðfinnslum. Dæmin um sjálfsritskoðun í þágu eigenda eru svo mörg og skýr, að tilgangslaust er að afneita henni.