Föstudagur, 19. 12. 08.
Ríkisstjórnin kom saman til fundar í alþingishúsinu í morgun í sal, þar sem áður var skrifstofa forseta Íslands og síðar mötuneyti alþingis, áður en skálinn var reistur við hlið þinghússins. Aðstaða er góð til að funda þarna og var það til dæmis gert 15. mars 2006, þegar boð bárust frá Bandaríkjastjórn um brottför varnarliðsins. Það eru þægindi af þessari aðstöðu í þinghúsinu, þegar annir eru miklar á þingi og menn þurfa helst að vera á tveimur stöðum í einu.
Þingmenn eru nú á lokaspretti fyrir jólaleyfi og í dag var tilkynnt, að menntamálanefnd hefði beint því til starfhóps menntamálaráðherra að útfæra reglur um auglýsingar RÚV og um leið varðandi eignarhald á fjölmiðlum. Þau mál verði að haldast í hendur. Nefndin fær frest fram til 15. febrúar. Með þessu er ákveðið að hætta við að svo stöddu að takmarka auglýsingar í RÚV en flytja hins vegar sérstakt frumvarp um nefskatt vegna RÚV.
Fjölmörg rök eru fyrir þessari ákvörðun nefndarinnar en vísan hennar til að settar verði reglur um eignarhald byggjast á því, að Baugur á 365 eða hvað sem fjölmiðlafyrirtækið um Baugsmiðlana heitir nú. Keppinautar Baugs á smásölumarkaði færa fyrir því skýr rök, að með öllu sé óviðunandi fyrir þá, að verða neyddir til að leggja fyrir fyrirtækið áætlanir sínar um auglýsingar, af því að ekki sé í nein önnur hús að venda, þegar hugað sé að auglýsingum í sjónvarpi.
Samkeppniseftirlitið sektaði í dag Baugsfyrirtækið Haga um 315 milljónir króna fyrir að misbeita ráðandi stöðu á markaði. Sagt er í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að brotið sé alvarlegt. Brotið snýr að verðstríði milli lágvöruverslana. Bónus er talinn hafa gengið allt of langt í að verja stöðu sína í samkeppni við Krónuna í verðstríði sem hófst í febrúar 2005.
Hluti af samkeppni er að koma keppinaut á óvart með auglýsingu. Eigi keppinauturinn hins vegar auglýsingamiðilinn veit hann, hvað er auglýst, áður en það birtist almenningi og getur svarað keppinauti sínum samtímis, til dæmis með því að lækka verð meira í auglýsingu í sama tölublaði dagblaðs, eða jafnvel fyrir útgáfu blaðsins. Sjónarmið af þessu tagi hafa verið kynnt þingmönnum og til að bregðast við því, að ekki sé unnt að nýta aðstöðu af þessu tagi er óhjákvæmilegt að huga að eignarhaldi - stærsti smásöluaðili landsins hafi til dæmis ekki undirtök í fjölmiðlum.
Blaðamennirnir Jón Bjarki Magnússon og Símon Birgisson hafa í þessari viku lýst því, hvernig ritstjórnarvaldi á Baugsmiðlum og fyrrverandi Baugsmiðlum hefur verið beitt til að þóknast eigendum Baugs. Hvað með auglýsingavaldið? Skyldi því hafa verið beitt?
Bjarni Brynjólfsson, fyrrverandi ritstjóri Séð og heyrt, skrifar í dag grein, sem birtist á vefsíðu Egils Helgasonar. Þar er enn fjallað um fjölmiðlaásókn Baugs.
Bjarni lýsir því, hvernig Baugi tókst að sölsa undir sig alla tímaritaútgáfu í landinu og þar með nánast alla fjölmiðla utan Morgunblaðsins og RÚV. Þar áttu Reynir Traustason, núverandi ritstjóri DV, Gunnar Smári Egilsson, sem leiddi Baug inn í Fréttablaðið og þar með fjölmiðlaheiminn, Mikael Torfason, sem hefur gegnt ýmsum ritstjórastörfum hjá Baugi. hlut að máli. Sigurður G. Guðjónsson hrl. kom einnig við sögu og Hjálmar Blöndal.
Bjarni segir, að beitt hafi verið sömu aðferð við að ná undir sig tímaritamarkaðnum og dugað hafði Jóni Ásgeiri vel í „útrýmingarherferð hans á „kaupmanninum á horninu.“
Lýsing Bjarna er með ólíkindum. Bjarni er þriðji blaðamaðurinn í þessari viku, sem lýsir andrúmslofti á Baugsmiðlunum á þann veg, að hlýtur að vekja undrun. Hún verður þeim mun meiri, þegar menn minnast þess, hve mikið margir tóku upp í sig um gildi þess sumarið 2004 að hrófla ekki við eignarhaldi Baugs á fjölmiðlum. Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson meinaði alþingi þá að skapa nauðsynlegt gagnsæi í fjölmiðlarekstri, hefur þróunin aðeins verið á verri veg.