Sunnudagur, 08. 02. 09.
Klukkan 16.00 var ég á Kaffi Rót við Hafnarstræti en þar í kjallaranum efndi félagið Heimssýn til fundar um bók mína Hvað er Íslandi fyrir bestu? á meðan tangó var dansaður með stæl á gólfinu fyrir ofan.
Fyrir utan mig ræddu þeir Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, og Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópufræðingur frá Háskólanum á Bifröst, um bókina. Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður, stýrði fundi og tóku Ragnar Arnalds, Pétur H. Blöndal, Páll Vilhjálmsson og Rúnar Guðbjartsson til máls. Þótti mér ánægjulegt að fá þetta tækifæri til að ræða bókina.
Fundarmenn sýndu bókinni velvild og töldu nokkurn feng að henni. Eiríkur Bergmann vildi að vísu, að niðurstaða mín væri önnur, en hann vildi einn ræðumanna, að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu.
Í ræðu á alþingi 4. febrúar gagnrýndi ég þá aðferð, sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafði við að hóta seðlabankastjórum uppsögn með lagasetningarvaldi, ef annað dygði ekki. Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar seðlabankans, sendi Jóhönnu svar í dag og lýsti vanþóknun á bréfi Jóhönnu og aðferðinni við að koma því til viðtakenda. Hann segir réttilega:
„Bréf af þessu tagi með lítt dulbúnum hótunum til embættismanna er einsdæmi, ekki eingöngu hér á landi, heldur einnig um allan hinn vestræna heim. Lög sem eiga að tryggja sjálfstæði seðlabanka og forða pólitískri aðför að seðlabankastjórninni hafa nú verið þverbrotin. Ábyrgð ráðherrans er því mikil.“
Davíð telur bréfið brjóta „allar venjur um embættisleg bréf af þessu tagi“ og það hljóti að hafa verið samið utan forsætisráðuneytisins. Hann telur, að við afsögn Björgvins G. Sigurðssonar hafi mönnum orðið „á stjórnsýsluleg afglöp, þegar brotthlaupinn ráðherra skildi Fjármálaeftirlitið eftir stjórnlaust.“
Þá segir Davíð, að Jóhanna hafi rangtúlkað afsagnarbréf Ingimundar Friðrikssonar, þegar hún hafi sagt hann leggja „framtaki“ hennar lið. Í bréfinu hafi Ingimundur „harmað ósanngjarnar og órökstuddar dylgjur“´í bréfi Jóhönnu og talið hana vega „ómaklega að starfsheiðri sínum og æru!“
Í fyrrnefndri þingræðu sagði ég:
„Ég minnist þess ekki, að hæstvirtur forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hafi gert athugasemdir við ákvarðanir Seðlabanka Íslands í peningamálum, á meðan ég sat með henni í ríkisstjórn.“
Bréfi sínu lýkur Davíð með þessum orðum:
„Það er hlálegt að ráðherra úr hópi þeirra sem hlustuðu ekki og sjálf lyfti ekki litla fingri til að stemma stigu við því sem var að gerast skuli nú ganga fram með þeim hætti sem hún gerir.
Ég hef hins vegar aldrei hlaupist frá neinu verki sem ég hef tekið að mér og mun ekki heldur gera það nú.“
Sagt var í fréttum, að Jóhanna Sigurðardóttir hefði ekki kynnt sér bréfið fyrir kvöldfréttir ljósvakamiðlanna og virtist það ekki koma fréttamanni sjónvarps ríkisins í opna skjöldu. Miðað við óðagotið í allri embættisfærslu Jóhönnu vegna þessa máls, kemur þetta þó óneitanlega á óvart.
Fór klukkan 20.00 á vel sótta tónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Listasafni Íslands á Myrkum músikdögum, þar sem flutt var nútímatónlist eftir tékknesk tónskáld og þá Jónas Tómasson og Atla Ingólfsson.