22.5.2009

Föstudagur, 22. 05. 09.

Nokkrir félagar í Aflinum, félagi qi gong iðkenda, héldu í Skálholt í dag en klukkan 16.00 hófust kyrrðar- og æfingadagar félagsins þar. Hófst dagskráin á því, að ég flutti kynningarerindi um sögu qi gong.

Qi gong dagarnir eru annars kynntir á þennan hátt á vefsíðu Skálholts, skalholt.is:

Miðvikudagur 20. maí 2009  
Sérvalin mynd

Um næstu helgi eru Qi gong dagar með kyrrðarívafi í Skálholti. Gunnar Eyjólfsson leikari leiðir þessa kyrrðardaga ásamt fólki sem honum er til aðstoðar. Dagskráin hefst síðdegis á föstudag og lýkur eftir hádegi á sunnudag. Uppbókað er á þessa daga.

Félagið Aflinn gaf út kynningarmyndband um qi gong árið 2002. Þar segir:

1. Qi gong er aðferð mannsins til öflunar, varðveislu og dreifingar orku um líkama sinn.
2. Qi er lífskraftur, hreyfiafl alheimsins. Maðurinn er kjarni, orka og vitund Vitundin stjórnar orkunni og orkan glæðir kjarnann.
3. Á íslensku er qi gong best lýst með orðinu ræktun. Iðkun qi gong á uppruna sinn austur í Kína og hefur þróast þar í aldanna rás.
4. Qi gong er þríþætt: hugleiðslu qi gong, bardaga- eða baráttu qi gong og heilsu qi gong. Undirstaðan er agaður líkamsburður – öguð öndun og öguð hugsun eða einbeitni.
5. Qi er afl. Qi gong er viðleitni einstaklinga til eigin orkuvæðingar. Iðkandinn gengur til móts við lífsorkuna, gengur henni skilyrðislaust á hönd og öðlast þegnrétt í ríki hennar.