26.5.2009

Þriðjudagur, 26. 05. 09.

Það var svalara í London en ég vænti. Þegar flugvélin lenti og við gengum inn í Heathrow-flugstöðina var þar enginn farþegi á ferli. Flugfarþegum hefur fækkað mikið vegna bankahrunsins og flugfélög glíma við mikinn fjárhagsvanda.

British Airways hefur aldrei tapað jafnmiklu fé í sögu sinni. 401 m. punda á einu ári. Virgin Atlantic í meirihlutaeigu sir Richards Bransons hefur hins vegar tvöfaldað hagnað sinn í 68,4 m. punda fyrir skatta á einu ári til loka febrúar. Segja stjórnendur félagsins, að árið 2006 hafi þeir gripið til sparnaðaraðgerða, þar sem þeir töldu efnahagslægð í vændum.