21.10.2009

Miðvikudagur, 21. 10. 09.

Aðgerðir lögreglunnar á Suðurnesjum í samvinnu við önnur lið í landinu gegn skipulagðri, alþjóðlegri glæpastarfsemi hafa vakið þjóðarathygli. Ég minnist þess fyrir nokkrum árum, þegar ég vakti máls á því, að hér væru skipulagðir, alþjóðlegir glæpahópar að festa rætur, þótti ýmsum ég mála of svarta mynd. Óþarfi væri að huga að því að styrkja lögreglu til að hún yrði betur í stakk búinn til að takast á við alvarleg og víðtæk verkefni af þessum toga.

Ég taldi þá og tel enn, að besta leiðin hér til að vinna gegn mansali og uppræta það sé að styrkja lögregluna í baráttu gegn skipulögðum, alþjóðlegum glæpum. Aðeins á þann hátt tekst að skapa fælingarmátt og nauðsynlegar varnir bregðist hann. Þá verður einnig að tryggja með lögum eða ótvíræðri túlkun laga, að unnt sé að vísa mönnum, sem njóta EES-réttinda úr landi, gerist þeir sekir um alvarleg afbrot, ekki síst séu þau ítrekuð.

Lögregla þarf að ráða yfir þeim tækjum, sem gera henni kleift að takast á við meiri hörku í undirheimunum og sporna gegn afbrotum. Alþingi hefur hvað eftir annað undanfarið slegið á frest að afgreiða frumvarp um breytingar á almennum hegningarlögum, sem auðveldar enn frekar aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri grænna, brá fyrstur þingmanna fæti fyrir fyrrnefndar breytingarnar á almennu hegningarlögunum. Undarlegt, að enginn fjölmiðlamaður skuli hafa kannað, hver hafi verið afstaða Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, í ríkisstjórn sl. þriðjudag, þegar bókuð var andstaða við árásir aðgerðasinna á heimili fólks. Skyldu öskrararnir ekki telja sig eiga hauk í horni, þar sem Álfheiður er, eftir þátttöku hennar í árás á sjálfa lögreglustöðina í Reykjavík?