2.11.2009

Mánudagur, 02. 11. 09.

Viðtal mitt við Ögmund Jónasson á ÍNN 28. október er komið á netið og sjá það hér.

Samkvæmt vefsíðu Nýja Kaupþings banka setti bankinn hinn 14. september,  2009, nýjar verklagsreglur um það, hvernig tekið skuli á málum eins og Haga eða 1998 ehf. Segir bankinn, að þessar reglur samræmist kröfum stjórnvalda um gagnsæ og samræmd vinnubrögð. Reglurnar eigi að tryggja gagnsæi og hlutlæga fyrirgreiðslu.

Í reglunum segir meðal annars (feitletrun mín) :

„Bankinn leggur áherslu á samstarf við eigendur og stjórnendur í vinnu við endurskipulagningu fyrirtækja. Ef afskrifa þarf skuldir eða breyta þeim í hlutafé er metin þörf fyrir breytingu á eignarhaldi og stjórnun. Áframhaldandi þátttaka eigenda og stjórnenda við rekstur fyrirtækjanna er háð því að þeir þyki mikilvægir fyrir framtíð fyrirtækjanna og að þeir njóti trausts.

Hér skal ekki leitt getum að því, hve miklu fé Kaupþing banki hefur tapað á viðskiptum við eigendur Haga. Af þeirri ráðstöfun bankans, að treysta á áframhaldandi þátttöku eigenda Haga, verður ekki dregin önnur ályktun en sú, að þeir njóti áfram trausts bankans.  Jón Ásgeir Jóhannesson hefur þó hlotið dóm, sem bannar honum setu í stjórnum fyrirtækja hér á landi fram til 2011.

Þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum hafa í dag krafist meira gagnsæis af stjórnendum Kaupþings banka. Þingmennirnir láta í ljós efasemdir um, að hlutlægni sé gætt í ákvörðunum bankans. Augljóst er, að þingmennirnir telja bankann ekki koma til móts við kröfur sínar um gagnsæi og hlutlægni.

Þótt þingmenn segist ekki vilja ræða afskipti bankans af einstökum fyrirtækjum, geta þeir ekki skorast undan að taka afstöðu til þess, hvort þeir fallist á þá niðurstöðu bankans, að eigendur Haga „njóti trausts“ til að koma áfram að rekstri á vegum banka, sem borinn er uppi af skattgreiðendum. Stjórnendur Kaupþings ættu að upplýsa, hvað geti valdið því að mati bankans, að eigendur og stjórnendur njóti ekki trausts.