2.2.2010

Þriðjudagur, 02. 02. 10.

Ég hafði ekki grandskoðað Morgunblaðið í dag, þegar ég las þetta í dálknum Orðið á götunni á eyjan.is:

„Hvorki Víkverji Morgunblaðsins né ritstjórar blaðsins, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, hafa orðið við kröfu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um að hann verði beðinn afsökunar á því sem hann kallar rangfærslur í blaðinu um þátt sinn í rannsókn á bankahruninu.“

Þarna er vísað til þess, sem fram kom hér í dagbókinni sunnudaginn 31. janúar. Ég á ekki von á því, að Víkverji skipi sér sess við hlið þeirra Jóns F. Thoroddsens og Egils Helgasonar við þessa ósannindasmíði. Hann hefur enn tækifæri til að draga ósannar ávirðingar sínar til baka. Ég þakka þeim á Eyjunni fyrir að halda málinu vakandi.

Í Spegli RÚV var rætt um Silju Báru Ómarsdóttur, stjórnmálafræðing, um þá tillögu á alþingi, að sérstök rannsókn færi fram á ákvörðun ríkisstjórnar fyrri hluta árs 2003 um að Ísland skipaði sér í sveit þeirra ríkja, sem tóku afstöðu gegn Saddam Hussein við innrásina í Írak. Silja Bára taldi slíkar rannsóknir af hinu góða. Hún var þó þeirrar skoðunar, að líklega kæmi ekki mikið fram í Íraksrannsókn hér. Ákvörðun hefði verið í höndum tveggja manna og kannski tekin í símtali.

Í viðtalinu við Silju Báru var undarlegt, að viðmælandi hennar skyldi ekki spyrja hana, hvort ekki væri brýnast nú að efna til rannsóknar á gerð Icesave-samninganna. Fyrir liggur, að tveir menn, Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, töldu sig hafa fundið lausn á deilunni og þeir þyrftu ekki aðstoð annarra. Þá hefur Steingrímur J. hvað eftir annað sagt, að í Icesave-málinu séu leynileg gögn, sem ráði miklu um hina hörmulegu niðurstöðu.

Án þess að gert sé lítið úr Íraksmálinu eða stríðinu þar, má óhikað fullyrða, að Icesave-málið og samningarnir um það skipti Íslendinga beint meiru. Það sé mikilvægara fyrir okkur að kafað sé til botns í því máli og það tafarlaust, en taka upp rannsóknarstarf vegna stjórnmálaatburða skömmu fyrir þingkosningar 2003.

Steingrímur J.  hefur ekki hlaupist frá Icesave-samningunum, sem gerðir voru undir forystu Svavars Gestssonar, sem hann handvaldi til að semja og ná „glæsilegri niðurstöðu“.

Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir afneitað Svavari Gestssyni í samtali við sjónvarpið, þótt hún saki Steingrím J. ekki um mistök við að velja Svavar. Er ekki nauðsynlegt, að rannsóknarnefnd á vegum alþingis kanni, hvernig staðið var að ákvörðun um Svavar? Vinstri grænir ættu að minnsta kosti að vilja upplýst, hvort Steingrímur J. tók einn ákvörðun um Svavar eða hvort Jóhanna kom þar að málum.