4.4.2010

Sunnudagur, 04. 04. 10.

Gleðilega páska!

Himinn hefur verið skafheiður í Fljótshlíðinni í dag, eina skýið, sem sést, er gufustrókur yfir eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Umferðin virðist minni en í gær, enda hefur verið varað við því, að veður versni í nótt og hríð verði á gosslóðum.

Í gær var skýrt frá því, að Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, hefði hótað að áminna Steingrím Ara Arason, forstjóra sjúkratryggninga, fyrir að leita álits ríkisendurskoðunar á greiðsluskyldu vegna nýsettrar reglugerðar. Steingrímur Ari birti bréf ráðherra og svarbréf sitt.

Dögg Pálsdóttir, hrl., bendir réttilega á það á vefsíðu sinni í dag, að lög gera ráð fyrir andmælaferli í aðdraganda áminningar, en Álfheiður virðist hafa haft það að engu. Lögmæti aðgerða hinnar dæmalausu aðgerðar hennar má því draga í efa. Slíkar efasemdir sóttu þó ekki að Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðiningi, sem hefur nýlega tekið við starfi lektors í stjórnsýslufræðum við Háskóla Íslands, þegar rætt var við hana í kvöldfréttatíma RÚV.

Sigurbjörg dró taum Álfheiðar, en sagðist þó ekki hafa kynnt sér málið til hlítar! Á ruv.is segir frá viðtalinu á þennan hátt:

„Sigurbjörg segir ekki undarlegt að upp komi tengingar við pólitík því hér á landi sé ekki nægilega skýrt ferli eða verklag við ráðningar í æðstu embætti og stöður innan stjórnsýslunnar. Þarna komi ráðherrar beint að málum, því þeir ráði beint í störf og stöðum. Þar með sé sú hætta fyrir hendi að farið pólitískar skoðanir blandist í málið.“

Ég játa vanmátt minn við að skilja þessi orð stjórnsýslufræðingsins. Tali hún svo óljósum orðum við nemendur sína og telji jafnframt ástæðulaust, að ráðherra fari að lögum við áminningu, mun það ekki stuðla á bættum stjórnsýsluháttum.