17.6.2010

Fimmtudagur, 17. 06. 10.

Ég ók yfir Hellisheiðina, þegar Jóhanna Sigurðardóttir flutti þjóðhátíðarávarp sitt á Austurvelli. Í upphafi þess sagði hún:

„Náttúrufegurðin, fallvötnin, jarðhitinn, fiskurinn, vatnið og frjósöm fósturjörðin fela í sé verðmæti sem verða dýrmætari með hverju árinu sem líður. Á þessum gjöfum náttúrunnar byggjum við Íslendingar okkar efnahagslega grundvöll. Það er sameiginlegt viðfangsefni okkar að standa um þær vörð svo að komandi kynslóðir muni njóta þeirra.“

Mér þótti kaldhæðnislegt að heyra þessi orð hjá forsætisráðherra, sem stefnir að ESB-aðild Íslands. Hún veikir aðeins varðstöðu þjóðarinnar um þær auðlindir, sem hún tíundaði í upphafi ávarps síns. Ætli Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki hugmynd um, hvað í því felst að ganga í ESB fyrir Ísland?

Í ávarpi sínu treysti Jóhanna sér ekki til að nefnda ESB á nafn, sátu þó leiðtogar ESB-ríkjanna á fundi þá sömu stundu, sem hún fluttu ávarpið og véluðu um aðildarumsókn Íslands á jákvæðan hátt með mörgum skilyrðum, eins og Herman Van Rompuy, forseti ESB-leiðtogaráðsins, orðaði það.

Ég skrifaði leiðara á Evrópuvaktina í morgun, þar sem ég sagði samþykkt leiðtogaráðs ESB óheillaskref. Ríkisstjórn, sem fer þannig að við gæslu hagsmuna þjóðarinnar, verður að víkja.

Við tókum þátt í þjóðhátíðarfagnaði í Goðalandi í Fljótshlíð síðdegis. Svartur Eyjafjallajökull gnæfði yfir okkur.