20.7.2010

Þriðjudagur, 20. 07. 10.

Frétt Stöðvar 2 og síðan frásögn í þættinum Ísland í dag af fyrstu ferð Herjólfs til Landeyjahafnar var til fyrirmyndar. Það hæfði vel þessum merka viðburði að gera svo vel við hann í fréttum sem Stöð 2 gerði. Raunar er erfitt að átta sig á því, hvers virði fréttir stöðvarinnar væru, ef hún nyti ekki starfskrafta Kristjáns Más Unnarssonar. Hann er jafnbesti sjónvarpsfréttamaðurinn um þessar mundir.

Spennandi verður að sjá, hver verða áhrif þessa nýja, glæsilega hafnarmannvirkis í bráð og lengd.

Í Rangárþingi eystra, svæðinu frá Eystri Rangá að Skógum undir Eyjafjöllum búa 1700 manns, þar af um helmingur, 850, á Hvolsvelli. Í Vestmannaeyjum búa um 4200 manns. Í sveitarfélaginu Árborg búa um 7.800 manns, sem er stærsti þéttbýliskjarni á Suðurlandi.

Það tekur um 40 mínútur að aka frá Hvolsvelli til Selfoss eða álíka langan tíma og að sigla með Herjólfi milli lands og Eyja. Víst er, að allir, sem ætla sjó- og landleið frá Eyjum til Reykjavíkur eða öfugt verða að fara um Rangárþing eystra, Hvolsvöll og Hellu í Rangárþingi ytra. Spurning er hins vegar, hvort þeir, sem búa í Rangárvallasýslu leiti eftir þjónustu til Eyja, sem þeir hafa nú sótt til Selfoss, í sveitarfélaginu Árborg.  

Við, sem ökum reglulega milli Reykjavíkur og Hvolsvallar, vitum, að snarlega dregur úr umferð, eftir að komið er austur fyrir Selfoss. Þetta á eftir að breytast og þar með einnig umferðarþungi um Selfoss. Hlýtur hann að kalla á, að ráðist verði í smíði á nýrri brú yfir Ölfusá.