8.8.2010

Sunnudagur, 08. 08. 10.

Í því felst ótrúleg þrákelkni af hálfu Samfylkingarinnar að halda fast í kröfuna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, þrátt fyrir hina miklu andstöðu, sem er við þessa stefnu. Með þessu er stofnað til ófriðar milli flokka, innan flokka og við sjálft ríkisstjórnarborðið. Ekki verður vart neinnar viðleitni til að skapa þá stöðu í málinu, að hugsanleg sé að skapa frið um það í þjóðfélaginu.

Út á við er haldið fram þeirri blekkingu, að Íslendingar hafi ólmir viljað ganga í ESB, eftir að bankarnir hrundu, en síðan hafi Icesave-málið dregið úr stuðningi við ESB-umsóknina. Þetta er blekking vegna þess að krafa Samfylkingarinnar um ESB-aðild á í raun ekkert skylt við bankahrunið. Málsvarar hennar sáu sér hins vegar nýjan leik á borði eftir hrunið til að setja þetta mál á oddinn. Frekja þeirra dugði ekki til að hagga við sjálfstæðismönnum en hún leiddi hins vegar vinstri-græna inn á ESB-aðildarleiðina, af því að þeir þráðu að sitja í ríkisstjórn.

Ekkert af því, sem sagt var, að fylgja myndi umsókninni til batnaðar í efnahags- og stjórnmálum hefur gerst. Hins vegar hefur aðildarbröltið spillt samningsstöðu Íslands vegna Icesave og öllu pólitísku andrúmslofti í landinu.

Þjóðin vill ekki fara inn í ESB, málið er ekki flóknara. Nú á hins vegar með fé frá ESB að gera enn eina tilraunina til að snúa Íslendingum til fylgis við ESB-aðild.