20.5.2011

Föstudagur 20. 05. 11.

Eftir fund í morgun á vegum ATA (Atlantic Treaty Association) hér í Brussel átti ég þess kost að kynna mér lauslega stöðuna innan ESB varðandi Ísland. Aðildarumsóknin er í hægagangi eins og öllum er ljóst. ESB mun ekki stöðva ferlið heldur hafa það í lággír til að átta sig sem best á stöðunni. ESB hefur aldrei kynnst því áður að ríki sæki um aðild án þess að ríkisstjórnin sé sammála um hvað í umsókninni felst.

Schengen-yfirlýsingar Ögmundar Jónassonar vekja undrun. Hið sama á við um tilburði Dana um að taka upp eitthvert eftirlit á landamærum sínum. Á það er bent að ESB er tollabandalag og þess vegna geti ríki innan ESB ekki tekið upp tolleftirlit á landamærum sínum. Æfingar Dana séu allar til heimabrúks því að ESB muni kæra dönsk stjórnvöld fyrir ESB-dómstólnum ef þau láti verða af því að framkvæma hótanir sínar um tollgæslu. Hún eigi ekkert skylt við Schengen heldur byggist afnám hennar á ESB-aðild Dana,

Þegar hugað er að yfirlýsingum Ögmundar um Schengen má láta þess getið að hann hefur ekki sótt einn einasta ráðherrafund um Schengen-málefni. Þá heldur innanríkisráðuneytið ekki úti neinum embættismanni sem sinnir Schengen-málefnum í Brussel. Reyndir embættismenn á sviði Schengen-málefna starfa ekki lengur í stjórnarráðinu. Þeir hurfu þaðan þegar dómsmálaráðuneytið sameinaðist samgönguráðuneytinu í innanríkisráðuneytinu.

Þegar ég varð dómsmálaráðherra taldi ég óhjákvæmilegt fyrir mig að skrifa sérstaka ritgerð um Schengen-málefni til að átta mig á þessum mikilvæga málaflokki. Í raun er það hlægileg einföldun í nútímastöðu Íslands að halda því fram að með úrsögn úr Schengen myndu íslensk stjórnvöld efla vörn gegn erlendum glæpagengjum.

Tvær leiðir eru inn í landið með Norrænu og um Keflavíkurflugvöll. Unnt er að fá lista yfir alla farþega sem fara um þessa tvo staði og bera þá saman við Schengen-gagnagrunna og fylgjast þannig með öllum sem til landsins koma. Þetta er miklu virkari vörn en að litið sé í vegabréf í sérstöku hliði.

Vilji Ögmundur Jónasson efla ytri varnir Íslands á þessu sviði á hann að efla greiningarstarf á farþegalistum og viðbrögð við því ef einhver grunsamlegur er á leið til landsins samkvæmt þessum listum og skránum sem fylgja Schengen-aðildinni. Aðgangur að þessum skrám lokast um leið og farið er úr Schengen.